Sigríður Ásta Stefánsdóttir Elsku Ásta frænka. Mikið fannst mér sárt að kveðja þig í hinsta sinn, en ég reyndi að hugga mig við það að þú værir aðeins að kveðja þennan heim til farar í betri heimkynni, laus við alla sjúkdóma og erfiðleika fylgjandi þeim, þar sem þú yrðir aftur kát og hress. Allir þeir sem kynntust þér á þínu sjúkleikatímabili voru hissa á hvað þú gast alltaf verið jákvæð og ánægð þrátt fyrir allt.

Sagt var að ef sumir hefðu níu líf værir þú í það minnsta komin á það þrettánda.

Margir hefðu kvartað og þeim fundist nóg um. En það var sama hvenær þú varst spurð um líðan þína, þú sagðist alltaf hafa það bara gott. Í mesta lagi sagðist þú vera löt suma daga, Þá vissi maður að þér leið ekki vel.

Frá því að ég man eftir mér hefur þetta verið svona, alltaf var Ásta frænka í góðu skapi og hef ég lofað sjálfri mér því að reyna að líkjast þér að því leyti ef ég á eftir að veikjast eins og þú.

Eftir að ég ásamt foreldrum mínum og elsta bróður fluttum frá Stakkahlíð upp í Þrándarstaði, eftir nokkurra ára sambýli við þig, Sigga, afa og ömmu, var fjall á milli vina í stað víkur.

En sambandið var traust og minnist ég margra góðra samfunda í gegnum árin. Allir þeir samfundir eru baðaðir dýrðarljóma bernskunnar, Stakkahlíð og allt tengt þeim stað var í mínum augum besti staðurinn sem hægt var að hugsa sér. Ef til vill er það "Paradís bernsku minnar" eins og Eva Hjálmarsdóttir frænka okkar nefndi bók sína og var hún þar að skrifa um æsku sína í Stakkahlíð.

Mínum dætrum og öllum mínum systkinabörnum fannst notalegt og gaman að hitta þig og sum þeirra kölluðu þig ömmu, eftir að móðir okkar systkinana dó 1989 úr sama sjúkdómi og þú. Var það líkast því að upplifa aftur hennar sjúkleika og dauða að sjá þig verða veikari og veikari, líkt og að lesa sömu bókina aftur og vita alltaf hvað myndi koma næst og hvernig hún endaði.

Elsku Ásta mín, ég er viss um að þú ert komin í fjörðinn þinn ung og hress eins og þú varst alltaf í huganum og verða fjörðurinn og þú alltaf samofin í minningunni um þig.

Sigurður Baldvinsson föðurbróðir þinn kvað um okkar ástkæra Loðmundarfjörð:

Man ég fagran fuglasöng,

friðsæl kvöldin, björt og löng,

vorið kom með veisluföng,

var þá glatt á hjalla,

frjálst í sölum fjalla,Man ég glæsta sumarsól,

sæludal og grund og hól,

fjallahlíð í fjólukjól.

fjörðinn silfurgljáða,

reiti rósum stráða.

Megi þetta ljóð hans fylgja þér hinstu sporin.

Elsku Anna, Óla, Reynir, Smári, Gunnar og aðrir vandamenn, munið að skrifað stendur "Dauðinn er ekki óvinur heldur óhjákvæmilegt ævintýri " (O. Lodge.)

Góður guð og allar vættir Loðmundarfjarðar verndi ykkur og styðji.

Ykkar frænka

Ólafía Herborg.