Arnbjörg Guðlaugsdóttir Þegar mér barst tilkynning um andlát Öddu tengdamóður minnar liðu fram í hugann minningar og myndir liðinna ára eins og svo oft vill verða við slík tímamót.

Stóra heimilið á Mýrunum, sem þau Adda og Halli stjórnuðu af svo miklum skörungsskap, verður öllum minnisstætt sem þar áttu skjól. Ég var rétt um tvítugt þegar ég kynntist þessari stóru fjölskyldu. Þó svo, að þau hefðu alið upp tólf börn, sem mörg voru heima ennþá, að ógleymdum afa, Sveini Sveinssyni, sem þar átti sitt heimili til dauðadags, var nóg rúm fyrir barnabörnin og okkur hin sem þangað leituðum. Oft var glatt á hjalla þegar við hittumst sem flest í eldhúskróknum sem allir kunnu svo vel við sig í, mikið skrafað, oft hlegið dátt og skipst á skoðunum.

Kynni af slíkum stórmennum sem tengdaforeldrar mínir voru hljóta að hafa áhrif og marka spor í tilveru allra sem nutu samvista við þau. Fyrir þau kynni verð ég ævinlega þakklát.

Adda var ein sú duglegasta kona sem ég hef kynnst. Það var alveg sama hvar hún kom að, hvort um var að ræða matseld, saumaskap eða hannyrðir hvers konar, allt lék í höndunum á henni. Hún lét sér ekki nægja að hugsa um þetta stóra heimili heldur vann oftast úti líka, jafnvel á tveimur stöðum í einu.

Þú gast hitt hana við vinnu sína á sjúkrahúsinu að morgni, séð hana við eldavélina á Matborg í eftirmiðdaginn og augnabliki síðar að manni fannst, hitt hana uppábúna í íslenska búningnum sínum ef svo bar undir, glæsilega og fallega.

Samt var alltaf tími til að gera öðrum greiða, það voru ófáar flíkurnar sem hún saumaði og mörg handtökin í eldhúsinu sem hún gerði fyrir aðra; það var alltaf alveg sjálfsagt.

Aldrei miklaði hún sig af verkum sínum og ég heyrði hana aldrei kvarta eða ætlast til sérstaks þakklætis. Ég er staðföst í þeirri trú minni, að öll mannanna verk séu skráð í hina stóru bók. Að ævistarfinu loknu verður allt metið og umbun veitt fyrir erfiði og góðverk.

Ég trúi því að nú sitji Adda í fangi tengdaföður míns, eins yndislegasta manns sem ég hef þekkt, laus við þreytu og þraut, einhvers staðar þar sem ljósið er eilíft.

Þannig vil ég minnast þeirra sitjandi saman í sófanum, eins og þau voru svo oft, hamingjusöm að loknu góðu dagsverki, umkringd börnum og barnabörnum. Ég bið Guð að styðja og styrkja systkinin öll, fjölskyldur þeirra og ástvini.

Hafið þökk fyrir allt og allt.

Sigríður Kristjánsdóttir.