Sveinn Eiríksson Hann Svenni frændi er dáinn. Orðin eru skýr en samt er eins og það vefjist fyrir manni að skilja inntak þeirra og nístandi veruleika. Það er erfitt að trúa því að maður muni aldrei framar sjá þig ganga flautandi yfir hlaðið. Tylla þér hjá okkur í morgunkaffinu, veltandi vöngum yfir verkum dagsins, búskapnum eða nánast hverju sem er.

Ekki óraði okkur fyrir því að við værum að kveðja þig í síðasta sinn er við lögðum af stað í ferðalag nú á dögunum. Leið okkar lá að Hólum í Hjaltadal og þar skoðuðum við gamla skólahúsið sem þú og Nonni voruð í, kirkjuna og fleira sem gaman hefði verið að segja þér frá þegar heim kæmi.

Traust, hlýja, þolinmæði, hjálpsemi eru orð sem upp í hugann koma, þú varst einstakur maður og við vitum að börnin okkar eiga eftir að sakna þín, eins vel og þú reyndist þeim. Það voru ófáar stundirnar sem þau dvöldu hjá ykkur í gamla bænum.

Þú fylgdist alltaf með því sem við vorum að gera og lagðir þá gjarnan þitt til málanna með þinni einstaklega skýru hugsun og sterka minni á liðna atburði.

Hún skartaði sínu fegursta sveitin þín daginn sem kallið kom og kvaddi þig þannig á táknrænan hátt, það verður líka ævinlega bjart yfir minningunum um þig og öllu því sem þú gafst okkur og öllum öðrum.

Elsku Svenni, hugurinn einn veit það sem orðin megna ekki að segja.

Fjöllin mótuð og sorfin

af hretviðrun reynslunnar.

Blámóða fjarskans full af spurningum

komandi stunda.

Heiðríkjan brosir í þökk

fyrir gjafir tímans.

Úr sverðinum ilmar af hausti

meðan sumarið deyr.

(Sigurður Loftsson) Sigurður, Sigríður og börn, Steinsholti.