HAUSTIÐ 1998 eru tuttugu og fimm ár liðin frá því að kennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskóla Íslands. Fram að þeim tíma höfðu íslenskir hjúkrunarfræðingar fyrst og fremst sótt menntun sína í Hjúkrunarskóla Íslands, sem hóf göngu sína árið 1933. Hjúkrunarskóli Íslands var lagður niður árið 1986 og varð þá háskólanám eina menntunarleiðin fyrir hjúkrunarfræðinga hér á landi.

Námsbraut í hjúkrunarfræði

við Háskóla Íslands 25 ára Um þessar mundir eru tuttugu og fimm ár liðin frá því að kennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskóla Íslands. Hér fjalla Vilborg Ingólfsdóttir og Ragnheiður Haraldsdóttir um nokkur atriði er tengdust aðdraganda að stofnun námsbrautarinnar.

HAUSTIÐ 1998 eru tuttugu og fimm ár liðin frá því að kennsla í hjúkrunarfræði hófst við Háskóla Íslands. Fram að þeim tíma höfðu íslenskir hjúkrunarfræðingar fyrst og fremst sótt menntun sína í Hjúkrunarskóla Íslands, sem hóf göngu sína árið 1933. Hjúkrunarskóli Íslands var lagður niður árið 1986 og varð þá háskólanám eina menntunarleiðin fyrir hjúkrunarfræðinga hér á landi. Sú tilhögun hefur vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis, enda varð Ísland þar með fyrsta landið í heiminum til þess að mennta hjúkrunarfræðinga eingöngu í háskóla. Í tilefni tuttugu og fimm ára afmælis námsbrautarinnar sem haldið er hátíðlegt nú í dag er unnið að útgáfu rits um þessa rannsókn sem gefið verður út á vegum rannsóknastofu í hjúkrunarfræði í Háskóla Íslands. Í þessari grein er eingöngu fjallað um nokkur atriði er tengdust aðdraganda að stofnun námsbrautarinnar. Aðdragandi að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði

Það leið langur tími frá því að fyrst komu fram hugmyndir að háskólanámi fyrir hjúkrunarfræðinga hér á landi þar til það varð að veruleika. Talið er að Vilmundur Jónsson landlæknir hafi fyrstur sett fram á prenti hugmynd um nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Það var árið 1942. Þótt hugmynd um háskólanám í hjúkrunarfræði hafi komið fram svo snemma var henni þó lítill gaumur gefinn þar til á árunum 1960­70, en á þeim áratug voru menntunarmál hjúkrunarstéttarinnar mikið til umfjöllunar. Í þeirri umfjöllun voru hjúkrunarfræðingar hvað ötulastir og ber þar hæst nafn Maríu Pétursdóttur sem á þessum árum var formaður Hjúkrunarfélags Íslands. Hún var ótrauð að halda fram mikilvægi háskólamenntunar í hjúkrun. Aðrir framsýnir hjúkrunarfræðingar notuðu einnig hvert tækifæri sem gafst til að fjalla um mikilvægi bættrar menntunar hjúkrunarfræðinga. En fleiri en hjúkrunarfræðingar lögðu málefninu lið. Svo virðist sem þetta hafi ekki einvörðungu verið hagsmunamál hjúkrunarfræðinga eða heilbrigðisþjónustunnar heldur hafi verið litið svo á að háskólanám í hjúkrun hefði töluvert gildi fyrir þjóðfélagið, má þar nefna að Kvenstúdentafélagi Íslands fannst augljóslega mikið til um þessa hugmynd. Aðalfundur Læknafélags Íslands árið 1970 benti á að létta mætti á aðsókn í læknadeild með því að fjölga öðrum greinum heilbrigðisþjónustunnar innan Háskólans, s.s. hjúkrun. Erlendir aðilar tengdust einnig þessari umræðu. Í skýrslu sérfræðinganefndar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar árið 1966 um hjúkrunarmál leggur nefndin til að öll menntun hjúkrunarfræðinga, bæði grunn- og framhaldsmenntun, verði eins fljótt og unnt er innan vébanda æðri menntastofnana. Yfirmaður hjúkrunarsviðs Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar kom til Íslands árið 1970 og lagði áherslu á að þegar yrði hafist handa við kennslu í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Það myndi tryggja góða menntun hjúkrunarfræðinga fyrir vandasöm og sérhæfð störf og kennslu í hjúkrun á Íslandi. Í kjölfar þessarar heimsóknar fulltrúa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar skipaði menntamálaráðuneytið nefnd síðla árs 1970. Verkefni nefndarinnar var að kanna möguleika á grunnnámi í hjúkrun og framhaldsmenntun hjúkrunarfræðinga innan Háskóla Íslands. Nefndin skilaði áliti í nóvember 1971 og var niðurstaða hennar sú að mjög nauðsynlegt væri að koma á hjúkrunarmenntun á háskólastigi hérlendis. Nefndin taldi eðlilegt að hjúkrunarnám við Háskóla Íslands miðaði að B.S.- prófi. Í ársbyrjun 1972 kom svo á ný fulltrúi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar til þess að gefa ráðleggingar varðandi skort á hjúkrunarkennurum á Íslandi. Meginábending hans var að sem fyrst yrði hafið grunnnám í hjúkrunarfræði innan Háskólans. Háskólaráð fól læknadeild að fjalla um málið. Í áliti ráðsins er eindregið lagt til að stofnað verði til námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands, að námið leiði til B.S.-gráðu og hefjist haustið 1973. Vorið 1973 setti læknadeild Háskóla Íslands á fót nefnd til að gera drög að námsskrá fyrir námsbraut í hjúkrunarfræði. Í lok júní 1973 ritaði svo menntamálaráðherra háskólaráði bréf þar sem ítrekaður er áhugi menntamálaráðuneytisins á því að hafið verði framhaldsnám á háskólastigi fyrir hjúkrunarfræðinga og að kannaðir verði möguleikar á því að stúdentar eða aðrir með sambærilega menntun eigi kost á hjúkrunarnámi á háskólastigi. Í kjölfar þessa bréfs gerði háskólaráð í júlí 1973 samþykkt þess efnis að það væri meðmælt því að Námsbraut í hjúkrunarfræði yrði komið á fót innan læknadeildar Háskóla Íslands. Nokkru síðar eða í ágúst 1973 skipaði menntamálaráðherra nefnd til að semja drög að reglugerðarákvæðum um nám í hjúkrunarfræði. Nú var liðið langt á haustið 1973 og ótvíræður áhugi virtist ríkja um stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði. Rektor háskólans, forráðamenn læknadeildar, heimspekideildar og félagsvísindadeildar lögðust allir á eitt við að stuðla að því að kennsla gæti hafist innan háskólans. Forráðamenn fyrrgreindra deilda tjáðu sig fúsa til að taka við 20 nemendum til viðbótar þá strax um haustið í þær greinar er falla áttu inn í nám í hjúkrunarfræði. Nýi hjúkrunarskólinn lýsti sig reiðubúinn að taka að sér kennslu í almennri hjúkrun þá um haustið. En fjárveiting til kennslunnar var óleyst vandamál þar til aðstoð barst frá Rauða krossi Íslands. Innritun í námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hófst 2. október 1973. Mótun námsbrautarinnar og þróun var þó rétt að hefjast og mikið uppbyggingarstarf unnið á fyrstu árunum. Oft hefur því verið haldið fram að það hafi nánast verið tilviljun að námsbrautin hóf göngu sína. Eftir þessa skoðun á atburðarásinni fallast höfundar ekki á þá ályktun, því ljóst er að fjölmargir einstaklingar komu við sögu á nokkrum árum og lögðu á sig mikla vinnu til þess að koma á breytingum á menntun hjúkrunarfræðinga. Lokaorð Nú er á vegum námsbrautar í hjúkrunarfræði boðið upp á fjölbreytt nám, grunnnám, sérskipulagt nám fyrir hjúkrunarfræðinga, ljósmæðranám og ýmis konar viðbótarnám, auk þess sem hafin er kennsla til M.Sc.-gráðu í hjúkrunarfræði. Nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hefur líka verið fyrirmynd að námi í hjúkrunarfræði við Heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri. Námsbrautin nýtur viðurkenningar og námið virðist falla vel að þörfum samfélagsins. Tuttugu og fimm ár eru ekki langur tími í sögu skóla eða námsleiðar en á þessum árum hefur námsbraut í hjúkrunarfræði tekist að sanna gildi sitt og mikilvægi tilvistar sinnar fyrir heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Vilborg Ingólfsdóttir er yfirhjúkrunarfræðingur hjá Landlæknisembættinu. Ragnheiður Haraldsdóttir er skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu.

Ragnheiður Haraldsdóttir Vilborg Ingólfsdóttir