27. nóvember 1998 | Daglegt líf (blaðauki) | 1070 orð

Meistaramúkur, Skuðmúkur og móðurlaus besefi

ALKORT, handkurra, trú, pamfíll og lomber. Ekki er líklegt að margir kannist við öll þessi spil nútildags sem getið er í ritinu Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulursem kom út árið 1887 og Jón Árnason og Ólafur Davíðsson söfnuðu saman. Þar eru téð spil, að því síðasttalda undanskildu, talin með "þjóðlegu sniði" og sem næst því að vera innlend.
Meistaramúkur,

Skuðmúkur og móðurlaus besefi

Félag eldri borgara stóð nýlega fyrir kynningu og kennslu á alkorti og lomber. Geir Svansson leit við í Þorraseli á "spiladegi" og kynnti sér gömul spil sem eru við það að falla í gleymsku.

ALKORT, handkurra, trú, pamfíll og lomber. Ekki er líklegt að margir kannist við öll þessi spil nútildags sem getið er í ritinu Íslenskar gátur, skemmtanir, vikivakar og þulur sem kom út árið 1887 og Jón Árnason og Ólafur Davíðsson söfnuðu saman. Þar eru téð spil, að því síðasttalda undanskildu, talin með "þjóðlegu sniði" og sem næst því að vera innlend. Þessi spil voru við það að falla í gleymsku þegar bókin var rituð og mætti ætla að þau væru með öllu gleymd í dag.

En lengi lifir í gömlum glæðum: Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni stendur um þessar mundir fyrir kynningu og kennslu á tveimur nefndra spila í aðsetri félagsins (FEB) í Þorraseli. Um er að ræða alkort sem talið er með elstu spilum á Íslandi og hinu forna spili lomber sem á sér heldur yngri sögu hérlendis og fleiri þekkja nútildags.

Spil með þjóðlegu sniði

Samkvæmt Ólafi Davíðssyni, í ofangreindu riti, var alkort "spilað mest allra spila í gamla daga", en hann telur það því sem næst aflagt, í lok 19. aldar. Því er Jón Aðalsteinn Jónsson, fyrrum forstöðumaður Orðabókar háskólans, sem mættur var á spiladag í Þorraseli til að kenna alkort, ekki sammála. Þetta hafi gilt um Norðurland en alkort hafi verið spilað á Suðurlandi, í sinni sveit, fram á þessa öld.

"Ég lærði þetta sem ungur drengur í kringum 1930 af foreldrum mínum sem komu austan úr Skaftafellssýslu. Þar var þetta aðaljólaspilið en líka spilað við fleiri tækifæri. Ég veit til að þetta var bæði spilað í Meðallandi þaðan sem faðir minn er ættaður og í Mýrdalnum en þaðan er móðir mín. Þau kunnu þetta bæði. En eftir að þau voru komin hingað suður og afi minn og amma voru hér oft þá var alkort spilað á hverjum einasta vetri. Við gerðum þetta alveg fram á áttunda áratuginn. Ég kenndi konunni minni og börnunum mínum tveimur en nú erum við svotil hætt að spila þetta."

Að gera múk og strokur

Alkort er að mörgu leyti sérkennilegt spil, að sögn Jóns. "Litirnir skipta t.d. engu máli heldur bara spilagildin. Hæsta spilið er tígulkóngurinn. Síðan koma hjartatvistur, síðan laufafjarkinn, spaðaáttan, hjartanía og tígulnía, ásarnir, gosarnir og sexin sem kallaðir eru póstar. Svo átturnar nema spaðaátturnar. Sjöurnar, sem kallaðir eru bísefar eða besefar og þeir voru gagnslausir nema maður væri búinn að taka einn slag.

Þetta er nú vafalaust útlent spil en það er hins vegar eldgamalt á Íslandi. En það er ekki alveg öruggt hvaðan það er komið. Það líkist að sumu leyti spilinu treikort sem þekkt var í Danmörku. En alkort spila annaðhvort fjórir eða tveir.

Keppnin er fólgin í því að tveir og tveir spila saman allt kvöldið og reyndu að "múka" eða "gera múk" eða fá fimm slagi í röð. Fimmin og tíurnar eru tekin úr stokknum og því 44 spil í gangi. Hver fær níu spil og eru því eftir átta í stokk. Síðan mátti taka stokkinn og halda einu ef þannig stóð á.

Fái menn tígulkónginn og alla besefana þá er hann komin með fimm slagi og leggur spilin á borðið. Þá er talað um að kominn sé "stóri meistaramúkur" en fyrir það var gefið, a.m.k. á mínu heimili, hundrað. Fengi einhver tvistinn og alla bísefana þá var það "litli meistaramúkur", sem gaf fimmtíu. Það er afar sjaldgæft að fá meistaramúk." Margt annað kemur til í alkorti og minnist Jón m.a. á svonefndar "strokur"; sexblaðastrokur (sex slagir) eru líka kallaðar "skuðmúkur". Fleiri skemmtileg nöfn koma fyrir í alkorti; níurnar eru kallaðar "skitur", laufanían "nagla-Jórunn" og spaðanían "langa brúnkolla". Fái maður besefa en ekkert hátt spil er talað um "móðurlausan besefa" en að verða að gefa í hann er kallað, af sumum, "að míga blóði".

Spil frá 14. öld

Lomber stendur sennilega styrkari fótum en alspil í dag en er þó að mestu aflagt. Spilið er talið eitt af elstu spilum sem spiluð hafa verið í Evrópu en í heimildum má sjá að það hefur verið spilað þegar í byrjun 14. aldar. Lomber er afbökun á "l'hombre" á frönsku en upprunnið er spilið frá Spáni þar sem það kallaðist "hombre" sem þýðir maður.

Í kveri Halldórs Þorsteinssonar um lomber kemur fram að lomber hafi verið orðið vinsælt heimilispil á síðustu áratugum 19. aldar og hafi verið spilaður í sumum sveitum "á nær hverju heimili tvo fyrstu áratugi þessarar aldar. Þar kemur einnig fram að í lomber hafi tíðum verið spilað upp á peninga og því einkum karlar sem spiluðu.

Bergsveinn Breiðfjörð Gíslason veitir leiðsögn í lomber á spiladögum FEB. Hann telur að lomber sé ekki mikið spilað nútildags. "Það eru einhverjir sem kunna þetta ennþá en það eru áreiðanlega mjög fáir yngri menn sem hafa lært þetta. Ég lærði þetta sem barn eða unglingur, af afa mínum og stjúpa. Þetta var mikið spilað heima þar sem ég ólst upp."

Mest spilað af körlum áður fyrr

Bergsveinn segir að spilið, sem þrír eða fjórir spila, sé ekki fljótlært. "Það snýst nefnilega allt við í spilinu. Það sem er hæst í þessari sögn getur verið lægst í næstu. Í nolo eru t.d. ásarnir lægstir og sjöin í rauðu litunum og tvistarnir í svörtu litunum. Í sóló snýst þetta við. Þetta þarf að vera alveg klárt."

Bergsveinn vildi ekki kannast við að þetta væri líkt "manna", þrátt fyrir upprunalega nafnið og svipaðar sagnir. "Lomber er reyndar fyrst og fremst peningaspil. En það má víst ekki hafa hátt um það," segir Bergsveinn og hlær. "Einhvern tíma var potturinn hjá okkur heima kominn upp í eitt hundrað krónur sem var dágóð upphæð í þá daga en þá hættum við og skiptum bara upp úr pottinum á milli okkar. Það fékk enginn að njóta hans. Þetta var nú bara meira til gamans gert."

Áhugi á spiladögum í Þorraseli er nokkur og þeim verður haldið áfram eins lengi og fólk mætir, að sögn Helgu Sv. Helgadóttur, forstöðukonu Þorrasels. "Þetta spyrst út smám saman og það kæmi mér ekki á óvart þótt við héldum þessu áfram um sinn."

ÖRN Sigfússon og Ragnar Halldórsson fylgjast með Bergsveini Breiðfjörð Gíslasyni gefa í lomber.

JÓN Aðalsteinn Jónsson segir alkort næstum útdautt.

GOTT getur verið að kíkja í reglurnar annað veifið en verra að gjóa augum á annarra manna hendi.

Morgunblaðið/Ásdís SJÖAN fyrir miðju kallast "móðurlaus besefi".Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.