4. mars 1999 | Innlendar fréttir | 666 orð

Áburðarverksmiðjan komin í hendur nýrra eigenda

Kaupverðið greitt með tveimur ávísunum

ÁBURÐARVERKSMIÐJAN í Gufunesi skipti um eigendur þegar kaupendur hennar, með Harald Haraldsson í forsvari, reiddu fram kaupverðið, 1.257 milljónir króna, hjá ríkisféhirði kl. 13.55 í gær. Greiðslan var innt af hendi með tveimur ávísunum. Að sögn Sigurðar Þorkelssonar ríkisféhirðis ræður bankakerfið ekki við að innleysa hærri ávísanir en 990 milljónir króna í einu lagi.
Áburðarverksmiðjan komin í hendur nýrra eigenda

Kaupverðið greitt

með tveimur ávísunum

Nýir eigendur stefna að fjölbreyttri starfsemi á svæðinu

ÁBURÐARVERKSMIÐJAN í Gufunesi skipti um eigendur þegar kaupendur hennar, með Harald Haraldsson í forsvari, reiddu fram kaupverðið, 1.257 milljónir króna, hjá ríkisféhirði kl. 13.55 í gær. Greiðslan var innt af hendi með tveimur ávísunum.

Að sögn Sigurðar Þorkelssonar ríkisféhirðis ræður bankakerfið ekki við að innleysa hærri ávísanir en 990 milljónir króna í einu lagi. Eitthvað virðist þetta þó hafa skolast til, því aðeins vantaði eina krónu upp á að önnur ávísunin væri upp á einn milljarð króna. Sigurður sagði að þetta ylli þó engum vandræðum því upphæðin yrði millifærð handvirkt. Þetta er líklega stærsta einstaka greiðslan fyrir viðskipti sem ríkisféhirðir hefur tekið á móti.

Hinir nýju eigendur taka við rekstri verksmiðjunnar á hádegi í dag. Tilkynnt var um nýtt áburðarverð í febrúar sl. Meðaltalshækkun milli ára er rúmlega 1%.

Haraldur Haraldsson sagði í samtali við Morgunblaðið að skipt yrði um stjórn í fyrirtækinu í dag og hann tæki stöðu stjórnarformanns. Hann sagði að ný eignaraðild fæli engar breytingar í sér varðandi rekstur verksmiðjunnar til að byrja með. "Þetta hefur gengið svo hratt fyrir sig að það hefur ekki verið svigrúm til að skoða það. Við munum skoða reksturinn og vinna áfram út frá því með það eitt að leiðarljósi að halda áfram fullri starfsemi og reyna að auka aðra starfsemi á svæðinu til að auka betur viðgang og hagnaðarmöguleika fyrirtækisins. Önnur hafnsækin starfsemi á þarna heima. Hafnaraðstaða er góð fyrir ýmsa stórvöru. Hægt er að hugsa sér að hafa þarna malbikunarstöð, sementssíló og birgðageymslur fyrir stóra hluti. Þetta eru 20 hektarar lands. Það eru uppi áform um að nýta það land og umhverfi sem er þarna," sagði Haraldur.

Haraldur sagði að fyrirspurn hefði borist inn í fyrirtækið um aðstöðu fyrir sementssíló. Hann segir nýja starfsemi þurfa inn á svæðið og jafnframt verði skoðað hvort einhver akkilesarhæll sé í rekstri verksmiðjunnar sjálfrar. "En það verður allt gert til þess að halda eins mörgum störfum við verksmiðjuna og hægt er. Öll störf sem þarna verða eru í raun störf sem var bjargað, því það átti jú að leggja fyrirtækið niður fyrir þremur árum," sagði Haraldur.

Hann sagði að menn væru staðráðnir í að halda áfram framleiðslu á áburði í verksmiðjunni. Fyrirtækið væri jafnframt hluthafi í Vistorku og stæði við skuldbindingar sínar í þeim efnum.

Áburðarverksmiðjan reist 1952

Áburðarverksmiðjan var reist árið 1952 og hefur því verið starfrækt í 47 ár. Rekstur verksmiðjunnar hefur verið umdeildur á síðustu árum í kjölfar nokkurra óhappa sem þar hafa orðið. Eldur kom upp í ammoníaksgeymi í verksmiðjunni 15. apríl 1990. Taldi rannsóknarlögreglan að við bruna ammoníaks hefðu myndast köfnunarefni og vatn. Bruni ammoníaksins hefði komið í veg fyrir að eitruð ammoníaksský gætu borist til svæða í nágrenni verksmiðjunnar, en slíkt hefði hugsanlega getað gerst ef ammoníak hefði streymt úr geyminum án þess að brenna. Rannsóknarlögreglan taldi einnig hættu á að loft hefði getað komist inn í ammoníaksgeyminn og blandast þar ammoníaki og skapað sprengihættu.

Íbúar mótmæltu verksmiðjunni

Í kjölfar slyssins var haldinn fjölmennur borgarafundur Grafarvogsbúa þar sem fram kom mikil andstaða íbúanna við Áburðarverksmiðjuna. Borgarráð samþykkti síðan í aprílmánuði 1990 að krefjast þess að rekstri verksmiðjunnar yrði hætt. Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, sagði þá að vorið 1988 hefðu miklar umræður verið í borgarráði um hættuna af rekstri verksmiðjunnar. Það hefði verið vegna nýrra upplýsinga um skaðsemi ammoníaks, sem borgarverkfræðingur hefði bent á. Fram að því hefðu menn aðallega óttast sprengihættu vegna kjarnáburðar.

1985 fól borgarráð dr. Ágústi Valfells og Rúnari Bjarnasyni að gera úttekt á áhættuþáttum vegna starfsemi verksmiðjunnar. Í greinargerð þeirra kemur fram að veruleg hætta geti stafað af geymslu fljótandi ammoníaks í kúlugeymi á verksmiðjulóðinni. Meginhættan sé mengunarhætta, þ.e. að ammoníaksský kunni að berast frá verksmiðjunni yfir borgina ef verulegt óhapp verði á verksmiðjusvæðinu.

Eggert Hauksson, framkvæmdastjóri Áburðarverksmiðjunnar, segir að gert hafi verið mat á hættu frá Áburðarverksmiðjunni. Íbúðarbyggð sé utan hættumarka.

Morgunblaðið/Golli

HARALDUR Haraldsson safnar saman hlutabréfunum í Áburðarverksmiðjunni hjá ríkisféhirði í gær eftir að hafa greitt fyrir þau.Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.