ÞAÐ VERÐUR æ ljósara að framtíð íslenskrar tungu veltur ekki síst á því hvernig okkur tekst að laga hana að tækniframþróuninni eða öfugt, ­ hvernig gengur að laða tæknina að tungunni. Ekki er langt síðan farið var að huga að svokallaðri tungutækni hér á landi en hún fæst við hvers konar meðferð tungumálsins í tölvum og hugbúnaði.
Leiðari TUNGAN OG TÆKNIN

ÞAÐ VERÐUR æ ljósara að framtíð íslenskrar tungu veltur ekki síst á því hvernig okkur tekst að laga hana að tækniframþróuninni eða öfugt, ­ hvernig gengur að laða tæknina að tungunni. Ekki er langt síðan farið var að huga að svokallaðri tungutækni hér á landi en hún fæst við hvers konar meðferð tungumálsins í tölvum og hugbúnaði. Samkvæmt nýrri skýrslu nefndar á vegum menntamálaráðuneytisins er staða okkar slæm á þessu sviði og þarf að gera verulegt átak til þess að við getum rétt úr kútnum.

Eins og fram kemur í skýrslunni er íslensk upplýsingatækni vel þróuð miðað við önnur málsvæði en Íslendingar eru skammt á veg komnir með að gera tæknina hæfa til að nota íslenskuna. Svo virðist sem hinn almenni áhugi á tungunni, sem meðal annars lýsir sér í mikilli nýyrðasmíð, hafi ekki skilað sér nægilega vel inn í heim tækninnar. Það eru til að mynda ekki til einföldustu leiðréttingarforrit fyrir íslenska málfræði og stafsetningu sem notuð eru í allri vinnu en slík forrit eru, að sögn sérfræðinga, grundvöllurinn fyrir flóknari verkefni á sviði tungutækni. Einnig er brýnt að ganga hart fram í að koma íslensku inn í alþjóðlega staðla en á því veltur meðal annars að hægt sé að nota tunguna í tölvusamskiptum sem sífellt verða algengari. Ennfremur kemur fram í skýrslu nefndarinnar að tal sé eitt af forgangsverkefnunum, enda sé svo komið að ýmiss konar tölvubúnaður er farinn að vera raddstýrður. Hér þurfum við því að halda vöku okkar og þróa forrit sem skilja íslenskt talmál.

Nefndin leggur til að allt að einum milljarði verði varið á næstu fjórum árum til að verulegur árangur náist á sviði tungutækni hérlendis. Slíkt átak telur nefndin að myndi ekki einungis verða til þess að efla stöðu tungunnar í heimi tækninnar heldur myndi það styrkja hugbúnaðariðnaðinn yfirleitt og gæti leitt til útflutnings á þekkingu og búnaði. Hér er um gríðarlega mikilvæga hagsmuni að ræða. Þrátt fyrir fámenni og ýmsa erfiðleika sem stafa af því, svo sem smár markaður, þá getum við ekki vikist undan þessari glímu, eins og fram kom í máli Rögnvalds Ólafssonar, formanns nefndar um tungutækni.

SNÖR HANDTÖK

MYNDIN sem talsmenn Foreldrafélags geðsjúkra barna hefur dregið upp af því ástandi sem ríkir í heilbrigðisþjónustu við geðsjúk börn er svo ófögur, að við verður að bregðast skjótt. Augljóst er að það var fyrir löngu tímabært að foreldrar geðsjúkra barna mynduðu með sér félagsskap. Það er kannski tímanna tákn að nú fyrst skuli slíkt verða að veruleika, því fordómar gagnvart geðsjúkdómum hafa því miður verið landlægir allt of lengi. Stofnun Foreldrafélags geðsjúkra barna er ánægjuleg vísbending um að þar sé að verða breyting á, enda eiga sjúkdómar, hverju nafni sem þeir nefnast, aldrei að vera feimnismál.

Auðvitað mun þessi félagsskapur að hluta til verða þrýstihópur á stjórnvöld og þá sem sýsla með opinbera fjármuni og af þeim lýsingum sem fram komu á fundi foreldranna með frambjóðendum í vikunni og greint var frá hér í Morgunblaðinu í gær, er ljóst að full þörf er á slíkum þrýstihóp.

Við getum ekki boðið geðsjúkum börnum og aðstandendum upp á það þjónustuleysi að hafa Barna- og unglingageðdeild Landspítalans lokaða um helgar. Við getum ekki boðið geðsjúkum börnum og aðstandendum upp á það þjónustuleysi, að engin bráðaþjónusta sé fyrir hendi. Barn sem ber eld að sjálfu sér þarf þegar í stað á bráðaþjónustu að halda; barn sem reynir sjálfsvíg ítrekað þarf þegar á bráðaþjónustu að halda.

Samkvæmt því sem Jenný Steingrímsdóttir, talsmaður Foreldrafélags geðsjúkra barna, sagði í samtali við Morgunblaðið, er brýnt að hér verði komið upp bráðamóttöku og fleiri innlagnarplássum. Miðað við það að 90 börn eru á biðlista er þörfin augljós.

Auðvitað kostar aukin þjónusta við geðsjúk börn og unglinga umtalsverða fjármuni, en um það þýðir einfaldlega ekki að fást. Hér er um svo alvarlega vá að ræða, líf og limir þessara sjúku barna og unglinga eru í stórkostlegri hættu og geðheilsa foreldra þeirra einnig, að þjóðfélagið má ekki láta hjá líða að bregðast við. Við þessum vanda verður strax að bregðast og stjórnvöld eiga að sjá sóma sinn í því að hafa snör handtök til hjálpar geðsjúkum börnum og unglingum og foreldrum þeirra.