SKINNAIÐNAÐUR hf. á Akureyri var rekinn með 86 milljóna króna tapi á fyrri hluta yfirstandandi rekstrarárs, sem hófst 1. september sl. og stendur til 31. ágúst næstkomandi. Niðurstaðan er að sögn Bjarna Jónassonar, framkvæmdastjóra Skinnaiðnaðar,
ÐBúist við tapi á rekstri Skinnaiðnaðar hf. á yfirstandandi rekstrarári

86 milljóna króna tap á fyrri hluta rekstrarársins

SKINNAIÐNAÐUR hf. á Akureyri var rekinn með 86 milljóna króna tapi á fyrri hluta yfirstandandi rekstrarárs, sem hófst 1. september sl. og stendur til 31. ágúst næstkomandi. Niðurstaðan er að sögn Bjarna Jónassonar, framkvæmdastjóra Skinnaiðnaðar, um 5 milljónum króna lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir og er gert ráð fyrir að tap verði á rekstri Skinnaiðnaðar þegar rekstrarárið í heild verður gert upp.

Rekstrartekjur Skinnaiðnaðar á tímabilinu voru 146,8 milljónir króna og minnkuðu um 68% samanborið við sama tímabil á síðasta rekstrarári. Rekstrargjöld námu rúmlega 202 milljónum króna og lækkuðu um 54% á milli ára. Rekstrartap fyrir fjármagnsgjöld og skatta nam 71 milljón króna, samanborið við 8,9 milljóna króna hagnað fyrstu 6 mánuði rekstrarársins 1997­1998 og tap tímabilsins fór úr 3,4 milljónum króna í 86 milljónir króna.

Þrátt fyrir erfiðleika undanfarinna missera nam eigið fé Skinnaiðnaðar tæpum 115 milljónum króna í lok febrúar síðastliðins og eiginfjárhlutfallið var 16,2%. Eignir voru bókfærðar á 707,8 milljónir króna í lok febrúar sl. og skuldir námu 593,2 milljónum króna, á móti 901,1 milljóna króna eignum og 557,1 milljón króna skuldum á sama tíma 1998.

Markaðir að taka við sér

Eins og áður hefur komið fram má rekja upphaf núverandi ástands í skinnaiðnaði til efnahagsþrenginga sem urðu í Asíu undir árslok 1997. Hlýtt haust og hlýr vetur 1997 juku enn á vandann og leiddu til samdráttar á mörkuðum á Vesturlöndum og loks lokuðust markaðir fyrir fatnað úr mokkaskinnum í Rússlandi vegna efnahagsþrenginga þar. Áhrif efnahagsþrenginga Rússa og Asíu höfðu mjög víðtæk áhrif á allan leðuriðnaðinn og sendu hann í sína dýpstu lægð í um hálfa öld.

Bjarni Jónasson sagði í samtali við Morgunblaðið að markaðir væru byrjaðir að taka við sér en þar sem um árstíðabundna vöru væri að ræða tæki það allt upp í heilt ár fyrir þær verðbreytingar sem eru að verða að ná til endanlegra neytenda.

Verð á hrágærum náði sögulegu lágmarki síðastliðið haust og í framhaldi af því færði Skinnaiðnaður hf. niður birgðir sínar um 103 milljónir króna til að mæta fyrirsjáanlegum verðlækkunum á helstu mörkuðum fyrir fullunnin mokkaskinn. Skinnaiðnaður hf. hefur lagt á það höfuðáherslu í samvinnu við umboðsmenn sína að halda markaðsstöðu fyrirtækisins og reyna að styrkja hana, en jafnframt hafa allir kostnaðarliðir verið teknir til endurskoðunar. Ekki er þó búist við að sala verði það mikil að það náist að vinna upp rekstrartapið á fyrri hluta rekstrarársins eins og fyrri áætlanir miðuðu að, en gert er ráð fyrir að reksturinn á síðari hluta rekstrarársins verði í jafnvægi.