ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ staðfesti í gær að ein af flugvélum þess hefði skotið flugskeyti, sem eyðilagði íbúðarhús í Búlgaríu í fyrrakvöld, og sagði að það hefði misst marks í árás á loftvarnastöð í Júgóslavíu. NATO hefur hert lofthernað sinn yfir Svartfjallalandi, sem er í júgóslavneska sambandsríkinu með Serbíu, og kona beið bana í einni loftárásinni í fyrradag.

Flugskeyti frá NATO-vél

lenti á húsi í Búlgaríu

HERNAÐURINN

Brussel, Moskvu, Podgorica, Belgrad. Reuters.

ATLANTSHAFSBANDALAGIÐ staðfesti í gær að ein af flugvélum þess hefði skotið flugskeyti, sem eyðilagði íbúðarhús í Búlgaríu í fyrrakvöld, og sagði að það hefði misst marks í árás á loftvarnastöð í Júgóslavíu. NATO hefur hert lofthernað sinn yfir Svartfjallalandi, sem er í júgóslavneska sambandsríkinu með Serbíu, og kona beið bana í einni loftárásinni í fyrradag. Þetta er í fyrsta sinn sem óbreyttur borgari bíður bana í árásunum á Svartfjallaland og þarlendir ráðamenn óttast að hernaður NATO verði til þess að almenningur snúist gegn þeim og taki málstað Serba.

Flugskeyti eyðilagði íbúðarhús í einu af úthverfum Sofíu, höfuðborgar Búlgaríu, í fyrrakvöld. Hverfið er um fimm km frá miðborg Sofíu og 60 km frá landamærunum að Júgóslavíu. Engin særðist í árásinni.

Jamie Shea, talsmaður NATO, sagði að ein af herþotum bandalagsins hefði skotið flugskeytinu eftir að loftvarnastöð í Júgóslavíu hefði ógnað henni. Flugskeytið hefði síðan breytt um stefnu og borist til Búlgaríu.

"Ég get sagt ykkur að í hernaðaraðgerðunum [í fyrradag] festi serbnesk loftvarnastöð ratsjármið á flugvél NATO. Flugskeyti var skotið í sjálfsvörn vegna hættunnar sem stafaði af loftvarnaflaug," sagði Shea á blaðamannafundi í Brussel.

Talsmaðurinn bætti við að yfirmenn herafla NATO væru að rannsaka atburðinn og leita leiða til að minnka líkurnar á því að slíkt geti gerst aftur.

Kyndir undir andstöðu við árásir NATO

Þrjú önnur flugskeyti hafa lent í Búlgaríu án þess að valda tjóni frá því árásir NATO hófust 24. mars. Heimildarmaður í búlgarska utanríkisráðuneytinu sagði að fulltrúi NATO hefði þegar beðið stjórnina í Sofíu afsökunar.

Atburðurinn hefur kynt undir andstöðu meðal Búlgara við hernaðaraðgerðir NATO gegn Serbum, sem eru slavar eins og flestir íbúar Búlgaríu. Margir Búlgarar óttast einnig að landið dragist inn í átökin.

Stjórn Júgóslavíu samþykkti í gær að heimila flugvélum NATO að nota búlgörsku lofthelgina til árása á Júgóslavíu gegn öryggistryggingum. Líklegt er að búlgarska þingið, þar sem umbótastjórnin er með meirihluta, staðfesti heimildina í næstu viku.

"Þessu brjálæði verður að ljúka"

Rússneska utanríkisráðuneytið kvaðst hafa miklar áhyggjur af því að flugskeyti NATO gætu valdið enn meira tjóni í nágrannaríkjum Júgóslavíu. "Hópur þeirra ríkja sem hafa orðið fyrir flugskeytum NATO stækkar stöðugt," sagði í yfirlýsingu frá ráðuneytinu. "Höfuðborg Búlgaríu hefur bæst á listann með Albaníu og Makedóníu."

Ráðuneytið varaði ennfremur við því að flugskeyti NATO, sem missa marks, gætu lent á kjarnorkuveri í Júgóslavíu eða í nágrannaríkjunum með hörmulegum afleiðingum. "Hvað annað þarf að gerast til að þessum feilskotum linni? Þessu brjálæði verður að ljúka."

Rússneska utanríkisráðuneytið fordæmdi einnig árás NATO á serbneska bæinn Surdulica þar sem eitt af flugskeytum NATO missti marks og varð að minnsta kosti sextán manns að bana á þriðjudagskvöld.

Fyrsta mannfallið í Svartfjallalandi

Atlantshafsbandalagið hefur hingað til reynt að halda árásunum á stöðvar Júgóslavíuhers á Svartfjallalandi í lágmarki til að Svartfellingar snúist ekki gegn hlutleysisstefnu Milos Djukanovic, forseta landsins, sem hefur gagnrýnt stefnu stjórnvalda í Belgrad en hvatt til þess að loftárásum NATO verði hætt.

Herþotur NATO hertu þó árásirnar í fyrradag og réðust á herflugvöll nálægt Podgorica, höfuðborg Svartfjallalands, í þremur árásarhrinum sem stóðu í hálfan sólarhring. Íbúar borgarinnar sögðu þetta hörðustu árásirnar í nágrenni hennar frá því hernaðaraðgerðir NATO hófust.

61 árs kona úr þorpi nálægt herflugvellinum beið bana og þrír særðust í einni árásanna, að sögn læknis á sjúkrahúsi í Podgorica. "Hún fékk sprengjubrot í höfuðið þegar hún var á leið í loftvarnabyrgi með syni sínum." sagði læknirinn.

Óháða dagblaðið Vijesti sagði að herflugvöllurinn hefði "nánast gjöreyðilagst" í sprengjuárásunum. Flugvélar NATO gerðu einnig árásir á skotmörk nálægt Danilovgrad í norðurhluta landsins og í grennd við hafnarborgina Bar.

Auka hættuna á valdaráni hersins

Íbúar Svartfjallalands eru klofnir í afstöðunni til loftárása NATO og þessar hörðu árásir eru taldar auka hættuna á því að herinn taki völdin í sínar hendur og að íbúarnir snúist gegn forsetanum.

Dragisa Burzan, aðstoðarforsætisráðherra Svartfjallalands, hvatti NATO til að takmarka árásirnar eins og kostur er. "Þær hafa svo sannarlega valdið okkur nokkrum skaða þótt ég sé viss um að aðeins hernaðarleg skotmörk hafi verið valin."

Líklegt þykir að dauði konunnar og sjónvarpsviðtöl við skelkaða þorpsbúa, sem komust naumlega lífs af, verði til þess að almenningur snúist algjörlega gegn NATO. Þótt margir Svartfellingar séu andvígir stefnu stjórnvalda í Belgrad og þjóðernishreinsunum Serba í Kosovo hryllir flestum þeirra við eyðileggingunni sem árásirnar hafa valdið í Serbíu.

Reuters

SKOT úr loftvarnarfallbyssum dundu yfir Belgrad, höfuðborg Serbíu í gær.

Reuters VOPNASÉRFRÆÐINGAR rannsaka flugskeyti, sem eyðilagði íbúðarhús í einu af úthverfum Sofíu, höfuðborgar Búlgaríu, í fyrradag.