SLITNAÐ hefur upp úr samstarfi meðlima bresku sveitarinnar The Verve eftir níu ára feril en hún hefur meðal annars gert lögin Bitter Sweet Symphony og The Drugs Don't Work" vinsæl. Getgátur hafa verið uppi um þessar málalyktir í nokkra mánuði og hefur sveitin nú staðfest að samstarfinu sé lokið.
The Verve leggur upp laupana

SLITNAÐ hefur upp úr samstarfi meðlima bresku sveitarinnar The Verve eftir níu ára feril en hún hefur meðal annars gert lögin Bitter Sweet Symphony og The Drugs Don't Work" vinsæl.

Getgátur hafa verið uppi um þessar málalyktir í nokkra mánuði og hefur sveitin nú staðfest að samstarfinu sé lokið. "[Aðalsöngvarinn] Richard Ashcroft er í hljóðveri að vinna að nýrri plötu á meðan aðrir meðlimir sveitarinnar eru að vinna að eigin verkefnum," segir í fréttatilkynningu frá meðlimum sveitarinnar.

Samstarf The Verve hafði ekki gengið vandræðalaust og varð það ekkert launungarmál þegar gítarleikarinn Nick McCabe ákvað að ljúka ekki tónleikaferð sveitarinnar um Bandaríkin og Evrópu síðasta sumar.

Sveitin var stofnuð í Wigan í Norður-Englandi árið 1990 og sló eftirminnilega í gegn með breiðskífunni Urban Hymns árið 1997 sem náði margfaldri platínusölu og var ríflega ár á vinsældalistum.