KVIKMYNDIR/Háskólabíó og Laugarásbíó sýna pólitíska spennutryllinn Arlington Road með þeim Jeff Bridges, Tim Robbins og Joan Cusack í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um háskólaprófessor sem grunar að sakleysislegir nágrannar hans séu hryðjuverkamenn. Góðir grannar, eða hvað? FRUMSÝNING
KVIKMYNDIR/Háskólabíó og Laugarásbíó sýna pólitíska spennutryllinn Arlington Road með þeim Jeff Bridges, Tim Robbins og Joan Cusack í aðalhlutverkum. Myndin fjallar um háskólaprófessor sem grunar að sakleysislegir nágrannar hans séu hryðjuverkamenn.

Góðir grannar, eða hvað?

FRUMSÝNING MICHAEL Faraday (Jeff Bridges) er háskólaprófessor í sagnfræði og býr hann ásamt tíu ára gömlum syni sínum, Grant (Spencer Clark), í úthverfi Washington. Tvö ár eru liðin frá því Michael missti eiginkonu sína, en hún var alríkislögreglumaður sem lét lífið við skyldustörf og hafa þeir feðgar enn ekki jafnað sig eftir áfallið. Fyrir undarlega tilviljun tekst vinátta með þeim feðgum og hinni hamingjusömu Lang-fjölskyldu sem nýlega hefur flutt í næsta nágrenni við þá. Þau Oliver og Cheryl Lang (Tim Robbins og Joan Cusack) opna heimili sitt fyrir þeim Michael og Grant og sonur þeirra, Brady (Mason Gamble), og Grant verða fljótlega óaðskiljanlegir vinir. Það lítur brátt út fyrir að sorgin sem þjakað hefur feðgana sé loksins á undanhaldi. Eftir því sem samskipti fjölskyldnanna verða nánari fer Michael þó að hafa ýmsar efasemdir um hinn opinskáa og félagslynda Oliver. Hann verður þess var að Oliver segir ekki sannleikann um ýmislegt sem í fyrstu virðist ekki skipta svo miklu máli, og eftir því sem Michael verður vísari um fleira undarlegt í fari nágranna síns magnast grunsemdir hans um að ekki sé allt með felldu í húsi nágrannanna. Vinkonu Michaels, Brooke (Hope Davis), finnst tortryggni hans í garð nágrannanna ofsóknarkennd. Telur hún að andúð hans á þeim stafi ekki af neinu öðru en afbrýðisemi þar sem þau séu hin fullkomna fjölskylda sem Michael hafi tapað með dauða konu sinnar. Eftir því sem Grant eyðir sífellt meiri tíma með Lang-fjölskyldunni aukast áhyggjur Michaels að sama skapi og ákveður hann að grennslast nánar fyrir um hagi nágrannanna. Það sem hann kemst að verður til þess að auka enn á efasemdir hans og sveipa líf nágrannanna meiri dulúð. Lang-hjónin eru sannarlega ekki þau sem þau segjast vera, en spurningin er hver þau í raun og veru eru, hvers vegna þau komu til Washington og hvað er að gerast í húsinu handan götunnar.

Tim Robbins segir að hann hafi strax hrifist af handriti Arlington Road, en höfundur þess er hinn 26 ára Ehren Kruger, sem hlaut sérstök verðlaun bandarísku kvikmyndaakademíunnar fyrir handritið, sem er hans fyrsta. Robbins segir að hann hafi með engu móti getað lagt frá sér handritið fyrr en að loknum lestri þess, en hann er talsvert fyrir að leika persónur sem búa yfir einhverjum leyndarmálum. Sjálfur þekkir hann vel til skrifta því hann gerði handritið að myndinni Dead Man Walking sem hann leikstýrði einnig og hlaut óskarstilnefningu fyrir, en Susan Sarandon, eiginkona hans, hlaut Óskarsverðlaunin fyrir hlutverk sitt í myndinni. Síðast sást Tim Robbins í myndinni Nothing to Lose þar sem hann lék á móti Martin Lawrence, en meðal annarra mynda sem hann hefur leikið í eru The Shawshank Redemption, I.Q., The Player, Bob Roberts og The Hudsucker Proxy.

Jeff Bridges hefur þrívegis verið tilnefndur til Óskarsverðlauna en fyrstu tilnefninguna hlaut hann 1971 fyrir aukahlutverk í The Last Picture Show. Bridges hefur leikið í fjölda mynda af ólíku tagi og meðal nýlegra mynda hans eru The Big Lebowski, The Mirror Has Two Faces, White Squall, American Heart og Fearless.

Leikstjóri Arlington Road er Mark Pellington sem áður hefur leikstýrt myndinni Going All The Way með Jeremy Davies og Ben Affleck í aðalhlutverkum, en Pellington á að baki langan feril sem höfundur tónlistarmyndbanda með ýmsum þekktum tónlistarmönnum. Framleiðendur myndarinnar eru bresku bræðurnir Peter og Marc Samuelson, sem framleiddu myndirnar Tom & Viv og Wilde og The Commissioner, og Tom Gorai, sem framleiddi Going All the Way.

MICHAEL Faraday (Jeff Bridges) grunar nýju nágrannana sína um græsku og fylgist vel með þeim.