FÁIR ÞYKJA meiri sérvitringar í bandarískri rokk- og popptónlist en Tom Waits sem skapað hefur sér sérstakan stíl sem byggist á rámri, grófri rödd og sundurgerð í tónlist og textum. Waits hefur verið að vel á þriðja áratug og jafnan notið virðingar ekki síður en hylli fyrir sérkennilegan hljómagraut sinn,
Rámur sundurgerðarmaður FÁIR ÞYKJA meiri sérvitringar í bandarískri rokk- og popptónlist en Tom Waits sem skapað hefur sér sérstakan stíl sem byggist á rámri, grófri rödd og sundurgerð í tónlist og textum. Waits hefur verið að vel á þriðja áratug og jafnan notið virðingar ekki síður en hylli fyrir sérkennilegan hljómagraut sinn, en síðustu sjö ár hefur hann ekki sent frá sér hljóðversplötu þar til Mule Variations kom út í vikunni og fer hátt á Tónlistanum. Tom Waits, sem verður fimmtugur í byrjun desember, ólst upp í sunnarverðri Kaliforníu og tók upp fyrstu lögin sín 1971. Þær upptökur, sem gerðar voru á vegum umboðsmanns Franks Zappas, litu þó ekki dagsins ljós fyrr en mörgum árum síðar, en fyrsta eiginlega breiðskífan sem kom út 1973, hét Closing Time og þótti fyrirtaks plata, þótt hún sé nokkuð frábrugðin þeim Tom Waits sem flestir þekkja. Waits sendi frá sér hverja plötuna af annarri á næstu árum og naut vaxaandi hylli, en hann fór líka að fást við leiklist og semja tónlist fyrir kvikmyndir, fékk meðal annars óskarsverðlaunatilnefningu fyrir tónlistina í mynd Coppolas One from the Heart, en hann lék einnig í kvikmyndunum Paradise Alley, Rumble Fish, The Outsiders og The Cotton Club. 1983 sendi Waits frá sér breiðskífuna Swordfishtrombones, sem þykir eins konar vendipunktur í tónlist hans, en á henni bar fyrst á tilraunamennsku með óvenjuleg hljóðfæri, sérkennilegar útsetningar og frjálslega notkun blásturhljóðfæra. Skömmu áður en hann hljóðritaði þá skífu losaði hann sig við umboðsmann sinn til margra ára, útgáfu og upptökustjóra. Platan seldist bráðvel, þótt ekki hafi hún frekar en aðrar Waits-skífur náð hátt á vinsældalista. Á næstu árum komu út aðrar plötur sem taldar eru lítt síðri Rain Dogs, Frank's Wild Years, Big Time, sem var reyndar tónleikaskífa, og Bone Machine, sem telst með helstu verkum Waits. Smám saman náði leiklistin meiri tökum á Waits og minni tími gafst til að hljóðrita tónlist. 1986 lék hann í myndinni Down by Law og sama ár var fyrsta leikrit hans, Frank's Wild Years, sem reyndar var með söngvum, frumsýnt í Chicago. Plata með tónlistinni kom út 1987 og þá lék Waits í kvikmyndunum Candy Mountain og Ironweed. 1988 kom út tónleikamynd og plata, The Big Time, og ári síðar lék hann enn í kvikmyndum, Bearskin: An Urban Fairytale, Cold Feet og Wait Until Spring. 1991 lék hann í myndunum Queens' Logic, The Fisher King og At Play in the Fields of the Lord. 1992 samdi hann tónlistina í myndinni Night on Earth, og sendi frá sér hljóðversskífu eftir langt hlé, Bone Machine, sem fékk Grammy-verðlaun. Það ár lék hann einnig í kvikmyndunum Deadfall og Bram Stoker's Dracula. 1993 kom út The Black Rider, upptökur úr söngleik sem hann samdi með William Burroughs 1990, og enn lék hann í kvikmynd, Short Cuts. Eftir það heyrðist ekkert nýtt hljóðversefni frá Waits í mörg ár, þótt ein plata með kvikmyndatónlist hefði komið út, en eins og getið er kom út platan Mule Variations fyrir viku. Fræðingar vilja skipta tónlistarferli Waits í tvö tímabil; það fyrra, sem hófst með fyrstu breiðskífunni, Closing Time, byggist á djassskotnum undirleik við Beat-ljóðalestur, með strengjum og píanóundirleik. Þegar Waits skipti um umboðsmann, upptökustjóra og útgáfu, eins og getið er, hóf hann mikla tilraunamennsku í tónlist, breytti gjarnan út af í hrynskipan og beitti óvenjulegri tónsetningu og hljómagangi sem gekk jafnvel þvert á laglínur og uppbyggingu laganna. Textar hans urðu og torkennilegri, tóku á sig blæ ævintýraraunsæis og vitundaflæðis. Fyrsta plata þess tímabils, Swordfishtrombones, þykir sumum vera merkasta verk hans og hefur iðulega komist á lista yfir bestu rokkskífur sögunnar, en aðrir vilja meina að Rain Dogs sé enn betri og Bone Machine best. Einnig hefur nýja platan hans fengið framúrskarandi dóma. NÝ PLATA Toms Waits skaust inn á Tónlistann.