UPPLÝSINGATÆKNIIÐNAÐURINN skapaði rúmlega 4 af hverjum 100 störfum í einkageiranum á síðasta ári, alls um 4.000 störf. Greinin aflar þjóðinni fjögurra króna af hverjum hundrað sem hún hefur í tekjur, eða 4% af alls 457 milljarða króna árstekjum þjóðarinnar. Til marks um öran vöxt greinarinnar nam vægi hennar í þjóðartekjum 3,1% fyrir þremur árum og hefur því vaxið um 0,9% á tímabilinu.
Velta upplýsingatækniiðnaðarins 43 milljarðar í fyrra

Skapaði 4.000 störf

UPPLÝSINGATÆKNIIÐNAÐURINN skapaði rúmlega 4 af hverjum 100 störfum í einkageiranum á síðasta ári, alls um 4.000 störf. Greinin aflar þjóðinni fjögurra króna af hverjum hundrað sem hún hefur í tekjur, eða 4% af alls 457 milljarða króna árstekjum þjóðarinnar. Til marks um öran vöxt greinarinnar nam vægi hennar í þjóðartekjum 3,1% fyrir þremur árum og hefur því vaxið um 0,9% á tímabilinu. Velta greinarinnar nam tæpum 43 milljörðum króna á síðasta ári.

Þetta kom meðal annars fram í máli Ingólfs Bender hagfræðings Samtaka iðnaðarins, SI, á kynningu á mikilvægi upplýsingatækniiðnaðar, UT-iðnaðar, á Íslandi sem haldin var í Versölum í húsnæði samtakanna á Hallveigarstíg 1 í gær.

Ræðumenn á kynningunni voru almennt sammála um að upplýsingatækniiðnaðurinn stefndi óðfluga að því að verða "stóriðja framtíðarinnar", að því gefnu að honum yrðu sköpuð samkeppnishæf starfsskilyrði á næstu árum.

Í máli Ingólfs kom einnig fram að vaxandi hluti þeirra tekna, sem UT-iðnaðurinn aflar, fæst með útflutningi og hefur greinin vaxið að mikilvægi fyrir íslenskt atvinnulíf á undanförnum árum.

Samkvæmt skilgreiningu Ingólfs eru upplýsingatæknifyrirtæki þau fyrirtæki sem vinna við UT-framleiðslu og þjónustu, t.d. framleiðendur og þjónustuaðilar tölva, símtækja og sjónvarpa auk þeirra sem framleiða hugbúnað.

Íslensk fyrirtæki í fararbroddi

Ingvar Kristinsson formaður Samtaka íslenskra hugbúnaðarframleiðenda, sagði m.a. að stefnt væri að því að UT-iðnaðurinn yrði stór og arðvænleg atvinnugrein árið 2002. Nefndi hann að þá yrði notkun Netsins orðin jafn almenn og notkun sjónvarps og síma, útrás íslenskra fyrirtækja væri orðin öflug og fyrirtæki hér á landi hefðu skapað sér sérstöðu og yrðu í fararbroddi á heimsvísu á sumum sviðum UT-iðnaðar.

Til að ná þessum markmiðum nefndi hann nokkrar leiðir. Sagði hann m.a. að huga yrði að menntun á öllum skólastigum og einnig nefndi hann að reglur um virðisaukaskatt mættu ekki skekkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja. Sagði hann að skattalega mætti taka tillit til erlendra fjárfesta í UT-fyrirtækjum, en fordæmi hefði verið gefið með lögum um skattafríðindi til handa kvikmyndaiðnaði.

Markaðsstarfið mikilvægt

Gylfi Árnason framkvæmdastjóri Opinna kerfa hf. sagði í sínu erindi að tækifærin væru endalaus í starfi og framrás fyrirtækja í upplýsingatækniiðnaðinum.

Hann lagði sérstaka áherslu á mikilvægi markaðsstarfs og sölu og sagði m.a. að Íslendingar ættu að horfa til smærri afmarkaðra markaða erlendis og ekki reyna að taka of stóra bita í einu.

Bjarni K. Þorvarðarson hjá Fjárfestingarbanka atvinnulífsins talaði um áhuga erlendra fjárfesta á upplýsingatækniiðnaði hér á landi. Hann sagði m.a. að bjóða þyrfti upp á skattalegt umhverfi sem "hrinti ekki frá sér" og aðstoð fyrir fjárfestinn við að kynna sér lagalegt umhverfi hér á landi.