GRÆNI lífseðillinn; samstarfsverkefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hélt málþingið um framtíðarskipulag um eflingu hreyfingar almennings í heilsubótarskyni í samvinnu við nethóp Evrópusamstarfs um hreyfingu fyrir alla; Evrópa á hreyfingu.


Samhæfa þarf áherslu á líkams- rækt almennings GRÆNI lífseðillinn; samstarfsverkefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hélt málþingið um framtíðarskipulag um eflingu hreyfingar almennings í heilsubótarskyni í samvinnu við nethóp Evrópusamstarfs um hreyfingu fyrir alla; Evrópa á hreyfingu. Markmiðið með málþinginu var að ræða leiðir að framtíðarskipulagi um eflingu hreyfingar almennings í heilsubótarskyni.

"Það er mikilvægt að þeir aðilar sem hafa áhrif á líkamsrækt almennings leitist við að samhæfa starfsemi á því sviði," segir Svandís Sigurðardóttir, lektor við námsbraut í sjúkraþjálfun við Háskóla Íslands, en hún er tengiliður Íslands við umrætt Evrópuverkefni. "Hugmyndin er að stofnuð verði nokkurs konar regnhlífarsamtök, með fulltrúum íþróttahreyfingarinnar, menntageirans, heilsugæslunnar og ráða og stofnana á sviði forvarna."

Fáir algjörir kyrrsetumenn

Á málþinginu voru m.a. kynntar niðurstöður íslenskrar könnunar á heilsu, þreki og hreyfingu fólks. Könnunina unnu Þórarinn Sveinsson, Jóhannes Helgason og Svandís Sigurðardóttir að finnskri fyrirmynd og í náinni samvinnu við UKK-stofnunina í Finnlandi sem Ilkki Vuori veitir forstöðu. Listi var sendur til 1.650 manna slembiúrtaks úr þjóðskrá með 49 ítarlegum spurningum um lífshætti, heilsufar og afþreyingu með sérstakri áherslu á viðhorf til heilsuræktar og hreyfingar. "Niðurstöður voru meðal annars þær að 3-11% svarenda skilgreina sig sem kyrrsetufólk og er hlutfallið hæst hjá körlum undir 45 ára aldri," segir Svandís. "Það kom líka fram að hlutfallslega fæstir af þeim sem eru með háskólapróf skilgreina sig sem kyrrsetufólk og þeir sem eru með framhaldsskólapróf, reyndar að iðnmenntun undanskilinni, eru líklegastir til að stunda hraða og líflega hreyfingu þrisvar eða oftar í viku."

Svandís sagði ennfremur að algengustu form hreyfingar væru ganga og hreyfing í vinnu. "Þetta er óháð aldri, en að auki eru boltaleikir algengir hjá yngri körlum, leikfimi ýmiss konar hjá konum og sund hjá elstu aldurshópum beggja kynja."

Ályktunin er sú, að sögn Svandísar, að hlutfallslega fáir Íslendingar flokkist sem algerir kyrrsetumenn. Mjög stór hópur einstaklinga á öllum aldri tekur þó lítinn sem engan þátt í almenningsíþróttum eða trimmi en hefur þó áhuga á slíku. Því megi ætla að með því að einbeita sér að þessum markhópi megi ná umtalsverðum árangri í eflingu hreyfingar í heilsubótarskyni.