Opið á tímu skartgripaverslunarinnar. Til 12. maí. Aðgangurókeypis. GUNNAR S. Magnússon myndlistarmann þekkja margir af eldri kynslóð, en hann hefur á köflum verið meira og minna virkur í listinni frá því hann lauk námi við listakademíuna í Ósló 1952.
Minni listajöfra

MYNDLIST

Listhús Ófeigs

SILKIPRENT

GUNNAR S. MAGNÚSSON

Opið á tímu skartgripaverslunarinnar. Til 12. maí. Aðgangur ókeypis.

GUNNAR S. Magnússon myndlistarmann þekkja margir af eldri kynslóð, en hann hefur á köflum verið meira og minna virkur í listinni frá því hann lauk námi við listakademíuna í Ósló 1952. Haldið nokkrar sýningar, þá stærstu og eftirminnilegustu í Casa Nova í húsi Menntaskólans, hins eina og sanna, árið 1967. Meðal eftirminnilegra afreka Gunnars var stofnun Sýningarsalarins, að Hverfisgötu 8­10 1957, sem hann rak af mikilli ósérhlífni ásamt með konu sinni þar til yfir lauk. Sú starfsemi er þar fór fram var óþekkt í höfuðborginni og því miður ekki rekstrargrundvöllur fyrir hana, og er í raun með herkjum að slíkt sé gerlegt enn í dag. Fyrir nokkru kom út mappa með 13 silkiþrykksmyndum sem Gunnar hefur unnið og er upplag hennar 120 eintök. Eins og iðulega á sér stað við markaðssetningu slíkra grafíkmappa hugkvæmdist Gunnari að halda sýningu á myndunum og varð Listhús Ófeigs fyrir ofan Mokka kaffi á Skólavörðustígnum fyrir valinu.

Um er að ræða ýmis myndefni frá ferli Gunnars sem hann hefur unnið upp, sem er alls ekki óalgengt í grafíkheiminum, en uppistaðan er þó minni nokkurra látinna myndlistarmanna sem haft hafa áhrif á listamanninn í áranna rás, svo sem Mondrian, Herbin, Vasarely, Kandinsky og Þorvaldur Skúlason. Þetta voru þeir bógar heimslistarinnar sem ungir tóku sér til fyrirmyndar um og eftir miðbik aldarinnar, listamenn hreinna huglægra forma, en margur rak sig á að eitt var að ganga út frá þessum köldu og ströngu formum en annað að þróast rökrétt til þeirra. Hér var um niðurstöður áralangra rannsókna að ræða sem byggðar voru á gróinni hefð og flestir komnir á miðjan aldur er þeir náðu þeim áfanga, jafnframt var þetta unga kynslóðin á árum áður. Hér var gullinsniðið í fullu gildi eins og um aldir, hreint og klárt, en útfærslan óhlutlæg, og til þessa vísar Gunnar í mynd sinni, Gullinsnið í ferningi.

Leiðin sem Gunnar velur minnir ekki svo lítið á það sem þeir í Frans nefna Hommage a . . , og er þá gengið út frá myndsýn annarra málara án þess þó að um beina eftirgerð sé að ræða og hafa flestir helstu núlistamenn tímanna gert eitthvað af því. Er fullgild aðferð og þar villir enginn á sér heimildir. Við þetta ferli er þannig ekki hið minnsta að athuga, en hins vegar kann ég ekki fullkomlega við prentunina, sem er fullfeit og glansandi á köflum. Glansinn kann að minnka með tímanum, slíkt gerist, en hins vegar birtast þær línur ekki aftur sem kunna að drukkna við að farvinn er of þykkt borinn á silkið eða of mikill fernis í honum.

Bragi Ásgeirsson

SILKIPRENT eftir gamalli sjálfsmynd listamannsins GSM.