STÓRSVEIT Reykjavíkur heldur í kvöld tónleika í Salnum í Kópavogi þar sem flutt verða stórsveitarverk eftir Stefán S. Stefánsson. Þetta er í fyrsta sinn sem haldnir eru tónleikar þar sem eingöngu er flutt íslensk stórsveitarverk og er um frumflutning að ræða á flestum verkanna.
Íslensk stórsveitartónlist

frumflutt í Salnum

Stefán S. Stefánsson djasstónskáld hefur samið tónverk fyrir stórsveit sem verða flutt í Salnum í Kópavogi í kvöld. Þetta er í fyrsta sinn sem heilir tónleikar eru einvörðungu helgaðir íslenskri stórsveitartónlist. Guðjón Guðmundsson tók Stefán tali af þessu tilefni.

STÓRSVEIT Reykjavíkur heldur í kvöld tónleika í Salnum í Kópavogi þar sem flutt verða stórsveitarverk eftir Stefán S. Stefánsson. Þetta er í fyrsta sinn sem haldnir eru tónleikar þar sem eingöngu er flutt íslensk stórsveitarverk og er um frumflutning að ræða á flestum verkanna.

Stefán hlaut starfslaun listamanna úr tónskáldasjóði á síðasta ári og hefur undanfarið ár unnið við að semja og skrifa út verk fyrir stórsveit.

Stefán kvað sér fyrst hljóðs í íslensku tónlistarlífi sem lagasmiður og saxófónleikari á seinni hluta áttunda áratugarins með hljómsveitinni Ljósunum í bænum. Hann lagði stund á saxófónleik og tónsmíðar í Berklee School of Music í Boston.

Stefán segir að úthlutunin úr tónskáldasjóði hafi gert sér kleift að takast á við það risavaxna verkefni að skrifa út verk fyrir stórsveit. "Ég endurskrifaði nokkur gömul verk en sú endurritun endaði yfirleitt nánast í endursamningu. Þó eru nokkur verk í upphaflegri útgáfu þar á meðal verkið Agara Gagara," segir Stefán.

Agara Gagara var hljóðritað og flutt af Danmarks Radioens Big Band árið 1987 undir stjórn Ole Koch Hansen. Þetta var mikil viðurkenning fyrir Stefán á sínum tíma því Radioens Big Band er talið með bestu stórsveitum heims.

Tímafrek vinna

Flest verkin eru þó ný af nálinni og hefði ég aldrei getað gert þetta án starfslaunanna. Að útbúa raddskrár og raddir fyrir þennan fjölda hljóðfæra er gífurlega tímafrek vinna og þrátt fyrir að tónskáld hafi tekið tölvuna í sína þjónustu hefur umfang þessarar vinnu ekki breyst," segir Stefán.

Stefán hefur starfað sem saxófónleikari í Stórsveit Reykjavíkur undanfarin sex ár og er einn af fáum íslenskum tónlistarmönnum sem hafa lagt fyrir sig stórsveitarútsetningar hér á landi. Hann segir að hljómsveitin sé hreint frábær um þessar mundir. "Það er stórkostlegt að fá tækifæri til að vinna með þeim að slíku verkefni. Aðalstjórnandi hljómsveitarinnar, Sæbjörn Jónsson, var svo vænn að veita mér afnot af sprotanum í þessu verkefni og einnig mun ég spila eitthvað lítilræði á tónleikunum," segir Stefán.

Á tónleikunum syngur Kristjana Stefánsdóttir í nokkrum verkanna. Um hana segir Stefán: "Kristjana er einhver skemmtilegasta djasssöngkona sem Ísland hefur alið. Það verður meðal annars hennar hlutskipti að syngja gamla lagið mitt "Tunglið tunglið taktu mig" í nýrri útsetningu fyrir stórsveit og söngkonu."

Morgunblaðið/Jón Stefánsson STEFÁN S. Stefánsson stjórnar æfingu á stórsveitarverkum sínum.