Í STEFNUYFIRLÝSINGU Vinstrihreyfingarinnar er talað um að flokkurinn vilji beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum. Talað er um að hann hafni gróðafíkn og neysluhyggju, en styðjist við sígilda vinstristefnu um jöfnuð og félagslegt réttlæti. Hvað vill flokkurinn ganga langt í róttækum þjóðfélagsbreytingum? Vill hann t.d.

Ætlum okkur að verða

framtíðarafl í stjórnmálum

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar ­ græns framboðs, segir að hreyfingin stefni að því að verða framtíðarafl í íslenskum stjórnmálum. Hann sér ekki fram á að flokkurinn renni inn í Samfylkinguna í framtíðinni, en útilokar ekki samstarf við flokka sem eiga samleið með Vinstrihreyfingunni.

Í STEFNUYFIRLÝSINGU Vinstrihreyfingarinnar er talað um að flokkurinn vilji beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum. Talað er um að hann hafni gróðafíkn og neysluhyggju, en styðjist við sígilda vinstristefnu um jöfnuð og félagslegt réttlæti.

Hvað vill flokkurinn ganga langt í róttækum þjóðfélagsbreytingum? Vill hann t.d. þjóðnýta það sem hefur verið einkavætt á síðustu árum?

"Já, það getur komið til greina í einstökum tilvikum eins og hvað varðar velferðarstofnanir eða aðrar þjónustustofnanir hins opinbera sem menn eru að einkavæða eða breyta. Við myndum t.d. aldrei standa að því í ríkisstjórn að bjóða upp 60 gamalmenni eins og Framsóknarflokkurinn gerði í vetur. Við drögum ekki síst mörkin við að undirstöðuþjónustan í velferðarkerfinu eigi að vera rekin á opinbera ábyrgð eða á félagslegum grunni. Að öðru leyti vísar þetta í okkar róttæku áherslur um jöfnun og jafnrétti, þ.e. að jafna aðstæður fólks hvort heldur er varðandi laun, lífskjör eða búsetuskilyrði. Þar viljum við ganga langt. Við erum flokkur sem vill ganga langt í jöfnun og viljum reka hér öflugt félagslegt velferðarkerfi."

Höfum skýra sérstöðu

Hver eru meginkosningamálin í þessum kosningum og hvað aðgreinir þinn flokk frá öðrum flokkum?

"Það sem aðskilur okkur frá öðrum flokkum er að við höfum lagt fram skýra stefnu og talað með skýrum og afdráttarlausum hætti í helstu málum. Við höfum ekki vikið okkur undan því að svara óþægilegum spurningum. Í öðru lagi höfum við lagt okkar af mörkum til að reyna að halda þessari kosningabaráttu á málefnalegum nótum. Við höfum ekki tekið þátt í því mikla auglýsinga- og loforðaflóði, sem aðrir hafa verið í, sérstaklega Samfylkingin og Framsókn. Við viljum að kosningarnar snúist um málefni og fólk fái frið til þess að kynna sér áherslur flokkanna.

Í þriðja lagi get ég nefnt það sem aðgreinir okkur í einstökum málaflokkum. Ég hef þegar nefnt velferðarmálin. Við höfnum þeirri nýfrjálshyggju- og einkavæðingarstefnu sem hefur verið fylgt af tveimur síðustu ríkisstjórnum, núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og fyrrverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks. Ég minni á að þar var Alþýðuflokkurinn síst skárri, en kratar eru núna ráðandi afl í Samfylkingunni.

Það er einnig ljóst að Vinstrihreyfingin ­ grænt framboð hefur mikla sérstöðu í gegnum sína þungu áherslu í umhverfismálum. Í því felst m.a. andstaða við mengandi erlenda stóriðju. Við erum ófeimnir við að segja það. Við viljum stöðva okkur af í þeirri blindu stóriðjustefnu sem hér hefur verið fylgt og endurmeta stöðu okkar og áherslur í þessum efnum áður en farið verður út í frekari framkvæmdir. Við teljum að hér þurfi að móta sjálfbæra orkustefnu og það eigi að vera forgangsverkefni. Þangað til menn hafa mótað nýjar áherslur í þeim efnum, þar sem fyllsta tillit er tekið til umhverfisverndar, eigi ekki að ráðast í frekari stórvirkjanir. Í framtíðinni bíða stórkostleg tækifæri með skynsamlegri nýtingu orkunnar og beislun hennar í þágu umhverfisvænnar framleiðslu. Ég nefni þar vetnisframleiðslu sem dæmi.

Ég vil einnig nefna utanríkismálin. Það er að kristallast í kosningabaráttunni að Vinstrihreyfingin hefur þar skýra sérstöðu. Við höfnum erlendri hersetu og aðild að hernaðarbandalögum. Við höfnum aðild að Atlantshafsbandalaginu og viljum verja og varðveita fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar, ekki síst yfir auðlindunum. Vegna okkar skýru stefnu höfum við ekki verið í vandræðum að taka á málum sem upp hafa komið í kosningabaráttunni eins og í sambandi við ófriðinn í Kosovo. Við erum eini flokkurinn sem hefur ítrekað látið frá sér fara mótmæli við stríðsrekstri þar. Við höfum einnig mótmælt aðild Íslands að nýrri hermálastefnu Nató, þar sem gert er ráð fyrir að Nató geti einhliða farið í árásaraðgerðir utan bandalagssvæðisins án undangengins samþykkis Sameinuðu þjóðanna, en það er að mínu mati stórhneyksli að ljá slíku lið."

Setjum ekki skilyrði fyrir stjórnarþátttöku

Setur Vinstrihreyfing það skilyrði fyrir ríkisstjórnarþátttöku að varnarliðið fari úr landi?

"Að sjálfsögðu viljum við að ríkisstjórn sem við ættum aðild að stuðli að því að herinn fari. Við munum beita okkur af alefli fyrir því að ná árangri í þeim efnum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar sem við kynnum að eiga aðild að. Við höfum ekki fyrirfram frekar en aðrir flokkar útnefnt einstök mál, núna í miðri kosningabaráttunni, sem úrslitakosti af okkar hálfu. Mér er ekki kunnugt um að aðrir flokkar hafi gert það. Við skulum taka þá til skoðunar hjá Vinstrihreyfingunni ­ grænu framboði ef t.d. Samfylkingin tilnefnir eins og fimm úrslitakosti af sinni hálfu. Það er vísu erfitt að átta sig á því yfirleitt hvað hún er að fara fram á eða vill. Mér sýnist þó að í kaflanum um sjávarútvegsmál vilji hún leggja á auðlindaskatt, en gerir Samfylkingin það að úrslitaatriði?"

Þú nefnir auðlindagjaldið. Í stefnuskrá ykkar er talað um að þið viljið dreifa afrakstri auðlindar hafsins með réttlátum hætti til landsmanna allra. Ætlið þið að gera þetta með álagningu auðlindagjalds?

"Nei, þetta felur ekki endilega í sér að þetta verði gert með flötum auðlindaskatti. Við erum tilbúnir til þátttöku í starfi svokallaðrar auðlindanefndar og gefum okkur ekki fyrirfram útkomuna úr því. Við eigum þarna við að réttindi og staða allra þeirra helstu aðila sem sjávarútveginum tengjast séu tryggð, þannig að tekið verði á því ójafnvægi sem er í dag milli útgerðarinnar annars vegar, sem hefur kvótann, og sjómannanna, fiskverkafólksins og sjávarútvegsbyggðarlaganna hins vegar. Það er aftur á móti spurning með hvaða hætti arðurinn af þessari undirstöðuútflutningsgrein dreifist um þjóðarlíkamann. Það er hægt að gera það t.d. með því að þessi fyrirtæki borgi eðlilega skatta í sameiginlega sjóði og með því að meðan hér er við lýði eitthvert fyrirkomulag í fiskveiðistjórnun sem veldur því að það myndast sérstakur gróði vegna þess þá viljum við skoða að beita skattkerfinu til að taka slíkan gróða í sameiginlega sjóði."

Viljum byggðatengja kvótann

Þú talar um að þið viljið styrkja stöðu byggðanna og þá væntanlega með því að byggðatengja kvótann. Hvernig viljið þið að þetta verði gert.

"Við leggjum í okkar sjávarútvegsstefnu mikla áherslu á að efla báta- og smábátaútgerð og þá útgerð sem nýtir grunnslóðina næst landinu. Í gegnum eflingu þessarar útgerðar viljum við byggðatengja að hluta þessi réttindi. Við teljum einnig réttlætanlegt að taka til hliðar ákveðnar veiðiheimildir í viðlagasjóði til bráðaaðgerða ef upp koma aðstæður sem þarf að bregðast við. Slíkar aðstæður eru því miður alltaf að koma upp. Það er Breiðdalsvík í dag, en var Bíldudalur í gær.

Við teljum að það þurfi að vera viss byggðatenging sem tryggi að byggðarlögin séu ekki varnarlaus í þeim tilvikum þegar illa gengur og hætta er á að sjávarútvegsfyrirtækin hverfi frá staðnum. Það verður að búa þannig um hnútana að menn standi ekki í slíkum tilvikum uppi allslausir heldur hafi einhver spil á hendi til að koma undir sig fótunum á nýjan leik. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að vera að úthluta þessu í gegnum sveitarstjórnir. Það hefur mikið verið notað í umræðunni til að drepa allar slíkar hugmyndir, að halda því fram að þetta þýði að sveitarstjórnarmenn fari að úthluta kvóta sem leiði til sukks og svínarís. Þetta er ómálefnaleg gagnrýni og endurspeglar óverðskuldað vantraust á sveitarstjórnarmenn, en þetta hefur aftur á móti enginn lagt til. Ég get séð fyrir mér að kvótinn verði áfram bundinn við skip, en ef skipin yrðu seld í burtu yrði hluti veiðiréttindanna eftir í byggðarlaginu og dreifðist til þeirra sem eftir eru eða myndaði grunn að því að útgerð efldist á nýjan leik. Við getum hugsað okkur togbát með 1.500 þorskígildum sem yrði seldur burtu frá tilteknum stað. Í staðinn fyrir að kvótinn færi allur yrði þriðjungur veiðiheimildanna eftir og heimamenn gætu þá sett auglýsingu t.d. í Morgunblaðið þar sem óskað er eftir samstarfi við útgerðarmenn. Tekið yrði fram í auglýsingunni að í boði væri aðgangur að 500 tonna veiðiheimildum. Ég er viss um að það myndi gerbreyta stöðunni til að koma hlutunum í gang á nýjan leik."

Nettóhækkun tekjuskatts skili ríkinu 500-1.000 milljónum

Í stefnuskrá ykkar eru boðaðar breytingar í skattamálum fyrirtækja og einstaklinga. Þið viljið t.d. taka upp fjölþrepa tekjuskatt. Eruð þið að boða stórfelldar skattahækkanir?

"Nei, það er tekið fram í inngangi að okkar efnahagskafla að við séum ekki að tala um stórfellda tekjuöflun nettó í gegnum tekjuskattskerfið. Við erum kannski að tala um 500-1.000 milljónir þar. Við erum fyrst og fremst að tala um meiri tekjujöfnun í gegnum skattkerfið. Ég minni á að hún hefur farið dvínandi með aðgerðum núverandi ríkisstjórnar með því að lækka skattprósentu á alla um leið og barnabætur voru tekjutengdar að fullu, sem var ákaflega vond aðgerð. Framsóknarmenn eru núna búnir að iðrast opinberlega og gráta beisklega og biðja um að sér verði fyrirgefið. Staðreyndin er sú að með þessum aðgerðum eru þeir búnir að rífa hundruð þúsunda króna af barnmörgum fjölskyldum á kjörtímabilinu. Þessar breytingar komu barnlausu hátekjufólki best og við viljum færa þá hluti til baka með því að bæta stöðu lágtekju- og millitekjuhópanna og barnafjölskyldnanna. Við teljum vænlegt að vera með fleiri þrep í tekjuskattinum."

Myndi það ekki þýða að kasta yrði staðgreiðslukerfi skatta?

"Það myndi ekki endilega þýða það. Ég tek eftir að menn eru fljótir að gefa sér slíka hluti. Það er hægt að hugsa sér að staðgreiðslan væri á almennasta þrepinu. Í dag er eitt skattþrep gert upp eftir á, sem er þetta svokallaða hátekjuálag. Það sýnir að þetta er hægt. Ég er búinn að sitja í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í átta ár og vinna talsvert lengur en það að efnahags- og skattamálum. Það þýðir ekkert að reyna að reka mig á gat með þessu blaðri um að hlutirnir séu skattatæknilega flóknir. Ég er búinn að sitja allt of lengi yfir verkefnum af því tagi til þess að ég láti hrekja mig á flótta með slíku tali."

Vinstrihreyfingin leggur til að EES-samningnum verði breytt í tvíhliða samning. Nú segja forystumenn í verkalýðshreyfingunni að samningurinn hafi fært íslensku launafólki mikilvæg réttindi sem verkalýðshreyfingin hafi verið að berjast fyrir í áratugi. Vilji þið henda félagsmálahluta samningsins?

"Nei, þetta snýst ekki um að missa réttindi sem við höfum eða getum haft enda er okkur í sjálfsvald sett að innleiða félagsleg réttindi í landinu eða hvað? Það er ekki svo illa komið ennþá að það þurfi að flytja það allt inn frá Brussel þó vissir menn í verkalýðshreyfingunni virðist halda að svo sé. Það er rétt að það hafa fylgt EES-samningnum ýmsir jákvæðir þættir í félagslegu tilliti, en það hafa líka fylgt honum ýmsir neikvæðir þættir og hann hefur kostað útgjöld. Við höfum skýra stefnu um það í hvaða átt við viljum sjá þessi samskipti þróast. Við viljum sjá þau þróast í átt til einfaldari tvíhliða samnings um viðskipti og samvinnu og um þátttöku okkar í menningu, rannsóknum og vísindum. Ég minni á að fyrir daga EES- samningsins vorum við þegar orðnir aðilar að ýmsum slíkum samningum. Við viljum auðvitað rækta góð samskipti við Evrópuþjóðir, en við viljum líka halda góðum samskiptum í allar áttir og ekki loka okkur af. Ég er alveg sannfærður um að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið er best borgið með því að varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og rækta góð sambönd og samskipti með samningum í allar áttir.

Að mínu mati er sjálfstæðið auðlind, ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Okkur hefur aldrei vegnað betur en þessa hálfu öld sem við höfum verið sjálfstæð og það er væntanlega ekki tilviljun að það er mesta framfaraskeiðið í sögu þjóðarinnar. Auðvitað kemur þar margt til, en það er enginn vafi á að þar spilar inn í að við höfum verið sjálfstæð og höfum getað valið þær leiðir sem okkur hentuðu á hverjum tíma, en ekki verið bundin af því að lúta valdi annarra."

Stjórn með Sjálfstæðisflokki fjarlægasti kosturinn

Kemur til greina að Vinstrihreyfingin myndi stjórn með Sjálfstæðisflokknum eftir kosningar?

"Það er í mínum huga langfjarlægasti kosturinn. Það liggur í hlutarins eðli. Þetta eru endapunktarnir í íslenskum stjórnmálum. Það er hins vegar vissulega svo að það er minna sem sem greinir okkur að í einstökum málaflokkum eins og í Evrópumálum. Ég tek eftir því hvernig Samfylkingin og Framsókn eru að nálgast í því máli og opna allar gáttir. Það er t.d. með ólíkindum hvernig þessi Evrópumál hafa verið hjá Samfylkingunni upp á síðkastið þar sem einn talar í austur og annar í vestur og enginn fær botn í hver stefnan raunverulega er. Ég les það út úr þessu að þarna séu menn komnir með aðildarumsóknina hálfa leið upp úr vasanum. Í öðrum málum er Vinstrihreyfingin annars vegar og Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar höfuðandstæðurnar í íslenskum stjórnmálum. Ég nefni þar grundvallarafstöðu til uppbyggingar velferðarkerfisins og einkavæðingar og frjálshyggju. Ég get líka nefnt afstöðu í skattamálum."

Að lokum, sérðu fyrir þér að í framtíðinni renni Samfylkingin og Vinstrihreyfingin inn í einn stjórnmálaflokk?

"Nei, ég sé það ekki fyrir mér. Við erum ekki að stofna Vinstrihreyfinguna ­ grænt framboð og afla henni fylgis til þess að leggja hana niður. Ef svo fer, sem ég er bjartsýnn á að verði, að við fáum nokkuð sterka útkomu í kosningunum, þá eru það skilaboð um að sá hluti þjóðarinnar sem okkur kýs vilji hafa svona flokk. Hann vill að í stjórnmálum sé til málsvari þeirra sjónarmiða sem við stöndum fyrir. Þess vegna kýs hann okkur. Það verður ekki mín fyrsta hugsun daginn eftir kjördag að við eigum að fara með það fylgi og þann stuðning sem við höfum fengið í einhvern leiðangur til að leggja okkur sjálf niður. Við erum að bjóða okkur fram í alvöru og stefnum að því að verða framtíðarafl í íslenskum stjórnmálum. Með þessu er ég ekki að útiloka gott samstarf með þeim sem með okkur vilja vinna og við eigum að einhverju leyti samleið með."Á morgun verður talað við Sverri Hermannsson, formann Frjálslynda flokksins

Steingrímur J. Sigfússon