Það er ekkert réttlæti í því hvernig verk ríkisstjórnarinnar og álögur hafa bitnað á sjúklingum, segir Ásta R. Jóhannesdóttir. Hjá stjórninni eru aðrir í fyrirrúmi.
Sjúklingar og ríkisstjórnin ­ verkin tala

Velferð Það er ekkert réttlæti í því hvernig verk ríkisstjórnarinnar og álögur hafa bitnað á sjúklingum, segir Ásta R. Jóhannesdóttir. Hjá stjórninni eru aðrir í fyrirrúmi.

Ríkisstjórnarflokkarnir hvetja þessa dagana almenning til að kjósa sig áfram til valda, vilja að verkin tali og boða árangur fyrir alla. Það er því nauðsynlegt að rifja upp verk ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Ég hef gert það undanfarið m. a. í tveimur greinum í Morgunblaðinu, þann 17. apríl um verk ríkisstjórnarinnar og fatlaða lífeyrisþega og svo laugardaginn 24. apríl um verk ríkisstjórnarinnar og aldraða og öryrkja. Nú er komið að verkum ríkistjórnarinnar og sjúklingum. Látum verkin tala.

Gjöld í heilbrigðisþjónustunni hækkuð

Gjöld fyrir heilsugæslu og læknisþjónustu voru hækkuð í upphafi kjörtímabilsins. Almenningur greiðir nú 700 krónur í stað 600 króna áður við komu á heilsugæslustöð og hjá sérfræðingi 1.400 króna fastagjald og 40% af umframkostnaði, sem var 1.200 króna fastagjald áður. Gjaldið fyrir lífeyrisþega var hækkað um þriðjung í heilsugæslunni, úr 200 krónum í 300 krónur og gjöld fyrir sérfræðilæknishjálp, röntgen og rannsóknir hækkuðu einnig á sama tíma.

Ríkisstjórnin taldi aldraða sjúklinga sérstaklega aflögufæra í góðærinu. Lífeyrisþegar, aldraðir 67 ára og eldri og öryrkjar greiddu lægra gjald í heilbrigðisþjónustunni en þessi ríkisstjórn taldi ekki ástæðu til að halda þeirri reglu og hækkaði gjöldin á 67 ára til 70 ára. Eldra fólk greiðir nú fullt gjald fyrir heilbrigðisþjónustu til 70 ára, í stað 67 ára áður, nema í undantekningartilvikum, þ. e. nema það hafi verið öryrkjar áður en það náði ellilífeyrisaldri.

Aukin gjöld fyrir endurhæfingu og þjálfun

Greiðslur sjúklinga fyrir endurhæfingu á kjörtímabilinu hafa breyst til hins verra fyrir þá sem fengu hana endurgjaldslausa. Fyrir tal-, iðju- og sjúkraþjálfun greiða lífeyrisþegar og börn nú 25% af fyrstu 15 tímum á ári en aðrir sjúklingar 50% af fyrstu 24 tímunum. Þeir sem fengu þessa þjálfun endurgjaldslaust þurfa nú að greiða fyrir hana og bitnar þessi breyting verst á þeim sem þurfa mest á henni að halda og hafa lítið milli handanna.

Lögð hafa verið gjöld á þjálfun, sem áður var endurgjaldslaus, svo sem þjálfun hjarta- og lungnasjúklinga á HL-stöðvunum. Geti sjúklingar ekki veitt sér endurhæfingu og þjálfun endar það aðeins á einn veg; hinn sjúki kemur fyrr eða síðar inn á sjúkrastofnanir sem mun dýrari sjúklingur fyrir hið opinbera, fyrir utan vanlíðan og óhamingju, sem heilsuleysið hefur í för með sér fyrir sjúklinginn. Þetta er heimskuleg forgangsröðun.

Minni hlutur ríkisins í verði lyfja og hjálpartækja

Hlutur Tryggingastofnunar í þeim lyfjum sem flokkast undir hlutfallsgreiðslulyf, þ. e. algengustu lyfjunum, hefur verið minnkaður með reglugerðum nokkrum sinnum á kjörtímabilinu. Lyfsalar tóku þetta á sig í fyrstu vegna samkeppninnar sem nú er komin á í lyfsölu, þannig að sjúklingar fundu ekki fyrir því, en nú er minni greiðsluþátttaka velferðarþjónustunnar komin út í verðlagið. Verð til sjúklinga á lyfjum í þessum flokki hefur hækkað og bitnar þetta nú á sjúkum, sérstaklega hækkunin um sl. áramót.

Hlutur sjúklinga í ýmsum hjálpartækjum hefur einnig verið aukinn og reglum um þau hefur verið breytt. Sem dæmi má nefna stómavörur, en þeir sem eru háðir notkun þeirra hafa einmitt lent í þessu.

Það er ekkert réttlæti í því hvernig verk ríkisstjórnarinnar og álögur hafa bitnað á sjúklingum og ljóst af þessu að hjá henni eru aðrir í fyrirrúmi en þeir sem hafa misst heilsuna. Engar af skerðingum og álögum á lífeyrisþega og sjúka frá efnahagsþrengingum fyrra kjörtímabils hafa verið afnumdar í góðærinu á þessu kjörtímabili. Þó ber að fagna þeirri breytingu sem gerð var nú í apríl (rétt fyrir kosningar) þegar 5.000 króna hámark var sett á gjald fyrir ferliverkin. Greiðslur fyrir þau gátu orðið allmiklar en þær voru breytilegar eftir eðli aðgerða.

Samfylkingin vill efla velferðarþjónustuna

Við í Samfylkingunni viljum tryggja öllum ókeypis heilsugæslu, með því að afnema komugjöldin og auka stuðning almannatrygginga við langsjúka og aðstandendur þeirra. Við viljum minnka hlut sjúklinga í greiðslum fyrir ýmsa sérhæfða heilbrigðisþjónustu, endurskoða kostnað sjúklinga vegna lyfja og koma á hámarksbiðtíma eftir þjónustu heilbrigðisstofnana. Það er mikilvægt að allir hafi greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og ekki líðandi að fólk verði að neita sér um hana vegna fátæktar, en þess gætir því miður nú í góðærinu. Við viljum einfalda og réttláta velferðarþjónustu til að koma á meiri jöfnuði í samfélaginu.

Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Ásta R. Jóhannesdóttir