EINSTAKLINGSBUNDIN greining og meðferð er nauðsynleg til þess að ná árangri í barna- og unglingageðlækningum, að mati dr. Ara Rothenberger, prófessors í barna- og unglingageðlækningum, en hann var nýlega staddur hér á landi. Rothenberger er forseti barna- og unglingageðlækningasviðs samtakanna European Union of Medical Specialities, EUMS.

Barna- og unglingageðlækn ingar verði sjálfstæð sérgrein

EINSTAKLINGSBUNDIN greining og meðferð er nauðsynleg til þess að ná árangri í barna- og unglingageðlækningum, að mati dr. Ara Rothenberger, prófessors í barna- og unglingageðlækningum, en hann var nýlega staddur hér á landi.

Rothenberger er forseti barna- og unglingageðlækningasviðs samtakanna European Union of Medical Specialities, EUMS. Samtökin starfa á vegum Evrópusambandsins og er markmið þeirra að byggja upp og samræma kennslu í barna- og unglingageðlækningum innan læknadeilda og sjúkrahúsa, fyrir læknanema og aðra innan háskóla sem læra barna- og unglingageðlækningar og að hlúa að uppbyggingu á rannsóknarvinnu og sérnámi í faginu í Evrópu.

Læknafélag Íslands er aðili að samtökunum og í viðræðum við rektor Háskóla Íslands og forseta læknadeildar lagði Rothenberger áherslu á að stofnað verði til sérstakrar námsgreinar í barna- og unglingageðlækningum í Háskóla Íslands, en greinin hefur verið sjálfstæð sérgrein í Evrópu frá árinu 1993.

Meðferð batnar verulega á hverjum 10 árum

Dr. Rothenberger hélt einnig fyrirlestur um niðurstöður rannsókna sinna í barna- og unglingageðlækningum á ráðstefnu sem Pharmaco hélt í samvinnu við Geðlæknafélag Íslands, á Hótel Örk. Kynnti hann helstu niðurstöður rannsókna sinna sem hann hefur stundað sl. 20 ár. Rothenberger hefur sérhæft sig í meðferð á börnum sem eiga við ýmiss konar taugasjúkdóma að stríða, sem oft á tíðum framkalla geðraskanir; ýmiss konar kæki, Tourette-áráttu eða kvíða- og þunglyndiseinkenni.

Meðferð Rothenbergers felst í því að hvert barn fær meðferð sem sniðin er sérstaklega að aðstæðum þess og sjúkdómsgreiningu. Byggir hún á samþættingu þriggja ólíkra meðferða: vitsmunalegri meðferð, atferlismeðferð og lyfjameðferð auk fjölskyldufræðslu.

Að sögn Rothenbergers hafa ný, svokölluð SSRI-geðlyf, breytt verulega meðferð barna með geðraskanir en þau komu fram fyrir u.þ.b. 5 árum. Lyfin eru notuð fyrir börn niður í 8­9 ára aldur jafnt sem fullorðna, en þau hafa mun minni aukaverkanir en önnur geðlyf. Einnig hafa niðurstöður erfðafræðirannsókna átt þátt í að bæta meðferð barna með geðraskanir.

"Niðurstöður erfðafræðirannsókna á Tourette-áráttu er hægt að nota til ráðgjafar. Eins og stendur getur par, þar sem annar aðilinn er með erfðafræðilegan veikleika gagnvart Tourette-áráttu, ákveðið hvort það vill eignast börn eða ekki þar sem hættan á að afkvæmi þeirra fæðist með alvarlegan kækja-sjúkdóm er mjög lítil. Ef barnið sýnir hins vegar einkenni sjúkdómsins er öruggt að það verður auðveldlega greint og meðhöndlað af bæði foreldrunum og sérfræðingum," sagði dr. Ari Rothenberger í samtali við Morgunblaðið.

Rothenberger segist eiga von á að ný og betri meðferð við sjúkdómum sem þessum komi fram á næstu tíu árum.Morgunblaðið/Egill Egilsson DR. Ari Rothenberger.