Danska gleðisveitin Shu-Bi Dua á BroadwayÍ fyrsta skipti á Íslandi DÖNSKU gleðigjafarnir í Shu-Bi Dua halda tónleika í kvöld og annað kvöld í Broadway og er það í fyrsta skipti sem sveitin sækir Íslendinga heim.
Danska gleðisveitin Shu-Bi Dua á Broadway Í fyrsta skipti

á Íslandi

DÖNSKU gleðigjafarnir í Shu-Bi Dua halda tónleika í kvöld og annað kvöld í Broadway og er það í fyrsta skipti sem sveitin sækir Íslendinga heim. Hljómsveitin hefur leikið saman í rúm 25 ár og hefur notið mikilla vinsælda fólks á öllum aldri og verið ein vinsælasta hljómsveit Dana þennan tíma sem ráða má af plötusölu þeirra þar.

Hljómsveitin hefur gefið út sextán stórar plötur og fjölda smáskífna auk þess að hafa gert stuttar tónlistarmyndir sem nutu mikilla vinsælda, m.a. hér á landi, löngu áður en tónlistarmyndböndin urðu fylgifiskar hverrar hljómplötu. Tónlist sveitarinnar er í léttari kantinum með rokkívafi og lögin þykja grípandi og auðlærð. Kímnin hefur aldrei verið langt undan þegar sveitin er annars vegar og er hljómsveitin þekkt fyrir stríðnislega texta þar sem menn og málefni eru sýnd í skoplegu ljósi.

Hljómsveitin hefur lengi haft í hyggju að sækja Íslendinga heim og núna hefur sú ætlun tekist fyrir tilstuðlan Danska sendiráðsins og Hótel Íslands. Aðdáendur sveitarinnar geta því loksins fengið að sjá þessa hressu gleðigjafa stíga á stokk á íslensku sviði á Hótel Íslandi í kvöld.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson DANSKI sendiherrann Flemming Mørch með með limum sveitarinnar Shu-bi dua.