Á AÐALFUNDI Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem haldinn var á miðvikudag flutti Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðiskor Háskóla Íslands, erindi um viðskiptafræðinám og nýsköpun í atvinnulífinu. Í erindi sínu beindi Gylfi m.a.
Gylfi Magnússon , dósent við Háskóla Íslands á aðalfundi FVH Viðskiptafræðingar sjaldan frumkvöðlar

Á AÐALFUNDI Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga sem haldinn var á miðvikudag flutti Gylfi Magnússon, dósent við viðskiptafræðiskor Háskóla Íslands, erindi um viðskiptafræðinám og nýsköpun í atvinnulífinu. Í erindi sínu beindi Gylfi m.a. athyglinni að því að viðskiptafræðingar eru sjaldan frumkvöðlar og sagði hann að ástæðanna væri að leita í því að nýsköpun væri gjarnan mjög nátengd sérfræðiþekkingu af ýmsu tagi.

"Flaga, Íslensk erfðagreining og Marel eru allt fyrirtæki sem hafa sprottið upp úr fræðastarfi og hafa öll verið stofnuð af sérfræðingum í þeirri grein sem fyrirtækin byggja á en ekki viðskiptafræðingum.", sagði Gylfi og bætti við að ekkert þyrfti þó að vera óeðlilegt við þetta: "Þótt viðskiptafræðingar hafi þjálfun í því að finna gróðavænleg tækifæri og sérstaklega að vega þau og meta og reikna út vænta ávöktun og áhættu, þá er ekki við því að búast að þeir geti grafið í stórum stíl upp tækifæri á mörkuðum sem þeir hafa ekki einu sinni hugmynd um að séu til."

Gylfi sagði að fyrirtæki frumkvöðla, sem ekki eru viðskiptafræðingar, verði mjög oft gjaldþrota vegna þess að þær hugmyndir sem byggt er á reynast ekki raunhæfar þegar til kemur. "Þetta vita viðskiptafræðingar. Þeir eru í raun og veru sérþjálfaðir í að sjá slíkt fyrir. Það er þannig oftast rökrétt frá sjónarhóli viðskiptafræðings að setja ekki á stofn eigin fyrirtæki. Nýútskrifaður viðskiptafræðingur getur í flestum tilfellum gengið að nokkuð góðu starfi vísu, vel launuðu, mikilsmetnu, krefjandi og áhugaverðu. Hann veit líka að duglegir viðskiptafræðingar geta klifrað hratt, jafnvel orðið stjórnendur stærstu fyrirtækja landsins, án þess að eiga á hættu veruleg persónuleg skakkaföll vegna gjaldþrots. Viðskiptafræðingar þurfa með öðrum orðum ekki að setja fyrirtæki á stofn til að stjórna þeim."

Annað bindi Litlu gulu hænunnar

Gylfi taldi þó rétt að spyrja þeirrar spurningar hvort þetta væri algerlega eðlilegt ástand. "Það er ekki alveg laust við að það sé svolítið sérkennilegt að stétt sem er sérþjálfuð í að reka fyrirtæki skuli ekki vera duglegri við að búa þau til. Eiginlega kemur stéttin ekki við sögu fyrr en í öðru bindi af litlu gulu hænunni. Hænan er búin að ryðja brautina í fyrra bindinu, gera það sem enginn annar hafði frumkvæði að og byrjuð að baka. Í öðru bindi tekur viðskiptafræðingur við bakaríinu og rekur með glæsibrag, opnar jafnvel keðju bakaría og setur á hlutabréfamarkað."

Gylfi nefndi nefndi að vitanlega mætti ekki líta fram hjá því að vinna viðskiptafræðinga við að taka gömul fyrirtæki, reka þau, byggja við, sameina eða jafnvel sundra væri auðvitað mjög mikilvægur þáttur í rekstri hagkerfisins. "En slík vinna er að frekar litlu leyti það sem við gætum kallað frumkvöðulsstarf, hún fellur varla undir nýsköpun, það eru ekki búnar til nýjar tegundir fyrirtækja eða atvinnu." Aftur á móti sagði Gylfi það vera hlutskipti frumkvöðla að reyna nýjar hugmyndir, taka áhættu svo að finna megi nýjar leiðir til að auka hagsæld fólks: "Frumkvöðlar eru því hálfgert fallbyssufóður í baráttunni fyrir bættum kjörum.", sagði Gylfi að lokum.

Morgunblaðið/Árni Sæberg Gylfi Magnússon: "Flaga, Íslensk erfðagreining og Marel eru allt fyrirtæki sem hafa sprottið upp úr fræðastarfi og hafa öll verið stofnuð af sérfræðingum í þeirri grein sem fyrirtækin byggja á en ekki viðskiptafræðingum."