Atli Heimir Sveinsson: Sinfónía nr. 1. Chabrier: Espana. Rodrigo: Concierto de Aranjuez. Manuel Barrueco, gítar; Sinfóníuhljómsveit Íslands u. stj. Bernharðs Wilkinsonar. Fimmtudaginn 29. apríl kl. 20:30.

Suðræn sæla og

sýndarmartröð TÓNLIST Háskólabíó SINFÓNÍUTÓNLEIKAR Atli Heimir Sveinsson: Sinfónía nr. 1. Chabrier: Espana. Rodrigo: Concierto de Aranjuez. Manuel Barrueco, gítar; Sinfóníuhljómsveit Íslands u. stj. Bernharðs Wilkinsonar. Fimmtudaginn 29. apríl kl. 20:30. ANDRÚMSLOFTIÐ var mettað eftirvæntingu í troðfullum kvikmyndasal Háskólans á sinfóníutónleikunum í gær og ógerlegt að segja hvort "trekkti" meir, nýfundinn tengdasonur landsins í gervi hins íslenzkt kvænta einleikara eða frumflutningur Fyrstu sinfóníu tónskálds starfsvetrarins. Ef álykta má af milliþáttaklappi í gítarkonsertnum, var töluvert mætt af fremur óhagvönum hlustendum, sem væntanlega hafa fengið fleiri en eina kalda gusu á sig, þegar kom að jörmunhljómkviðu Atla Heimis eftir hlé, enda fjarska fátt sameiginlegt með henni og áður genginni suðrænni kliðmýkt. Sinfóníska rapsódían Espana (1883) er líklega þekktasta og vinsælasta hljómsveitarverk Emmanuels Chabriers, þó að liggi ekki beinast við að hugsa sér, að þetta lauflétta og litríka suðræna verk skuli samið af manni sem dáði Wagner og stúderaði hann í þaula. Né heldur að franski tónhöfundurinn skuli hafa látizt fyrir aldur fram á barmi vitfirringar. Hljómsveitin lék hinn stutta en alkunna konsertforleik með spansku alþýðufjöri eftir ögn hikandi upphaf. Gítarkonsert gítarkonsertanna á vinsældalista klassíkunnenda og jafnvel víðar er Concierto Aranjuez (1939) eftir blinda spænska tónskáldið Joaquin Rodrigo. Verkið heitir í höfuðið á ídýllískri sumarhöll Spánarkonunga sem var, þangað sem Rodrigo og tyrknesk kona hans fluttu eftir útlegðardvöl í París á 4. áratug. Betri helmingur tónskáldsins mun hafa séð um að nótera og leika í gegn tónsmíðar Rodrigos, er eftir velheppnaða frumuppfærslu Aranjuez-konsertsins 1940 samdi ekki færri en þrjá slíka í viðbót, Fantasia para un gentilhomme (1954), Concierto madrigal (1969) fyrir tvo gítara og Concierto Andaluz (1967) fyrir fjóra, án þess sjálfur að vera gítarleikari. Það þarf létta orkestrunarhönd til að skrifa svo fyrir hljómsveitina, að hún kaffæri ekki gítarinn, jafnvel þótt uppmagnaður sé, eins og nú er oftast gert, en hefur væntanlega ekki staðið til boða við frumuppfærsluna fyrir 60 árum. Einleikarinn, Manuel Barrueco, er af kúbversku bergi, en flutti á barnsaldri til Bandaríkjanna og lauk prófi við Peabody tónlistarháskólann í Baltimore. Fjölhæfur spilari, sem auk sígildra viðfangsefna hefur leikið alþýðudansa og Bítlalög inn á diska. Tök hans á perlu Rodrigos voru algjör; fyrir handan og ofan virtúósíska sýndarmennsku, þar sem tæknilegt öryggið þjónaði fyrst og fremst hlutverki miðlunar á innblásnu verki Rodrigos við nettan en spriklandi lipran samleik hljómsveitar undir næmri og tillitssamri handleiðslu stjórnandans. Barrueco slapp ekki af hólmi fyrr en eftir eitt aukalag, vaggandi kúbverskan dans, sem vakti mikla hrifningu. Tólfta sinfónía Íslendinga ­ og sú fyrsta eftir Atla Heimi Sveinsson ­ hljómaði opinberlega í fyrsta sinn eftir hlé. Hún var jafnframt ef að líkum lætur sú lengsta ­ rúm klukkustund í flutningi ­ og þar af fyrsti þátturinn einn um 33 mínútur, þótt mælzt hafi um 38 á aðalæfingu. Þetta er víður rammi og stórt léreft fyrir verk, sem að sögn höfundar er spunnið út frá innblæstri augnabliksins ­ án sinfónískrar stefjaúrvinnslu eða hefðbundinnar uppbyggingar ­ þar sem reynt er "að koma óskapnaði inn í skipulagninguna". Þegar svo er í pottinn búið verður helzti og kannski eini mælikvarði hlustandans um hvernig til tekst hugmyndagnótt tónskáldsins, þanþol hennar og útfærsluleikni svo að segja af huga fram. Eða m.ö.o. hvernig tekst að skapa einhvers konar flæði og framvindu án þeirra hefðbundnu meðala sem hlustendur þekkja svo vel frá helztu höfuðverkum sígildra tónbókmennta. Því án neinnar tilfinningar fyrir framvindu er hætt við að tónverkið segi manni því minna sem það er lengra. Það kom undirrituðum nokkuð á óvart, hvað "óskapnaður" fyrsta þáttar hafði þétzt og þjappazt frá því á aðalæfingu, og ekki bara vegna skemmri lengdar (hvort sem veldur stytting á síðustu stundu eða einfaldlega hraðara tempó), heldur var sem hinn oft kaótíski efniviður loddi nú mun betur saman en fyrr. Upphafið bar keim af fjarlægu gasskýi í heims-alltinu að mynda sólkerfi, en áður en varði gekk á með hvössum hryðjum, ýmist þessa heims eða annars, sem hefðu orðið yfirþyrmandi, hefðu ekki komið til andstæðir hvíldarfletir inn á milli. Hresstu og verulega upp á heildina svipusnörp hljómhögg úr lúðrum. Þátturinn, sem geymdi einn sér yfrið efni í heila sinfóníu út af fyrir sig, fjaraði út á e.k. ávæningi af rómantískum píanókonsert í döprum moll. II. þáttur, "Scherzóið" ef svo mætti kalla, var e.k. gróteskur jónsmessunæturdraumur í 6/8 takti með þjóðlegum fimmundum í "tríó"-kafla, er leiddi hugann að "psýkedelískri" vitundarvíkkun á tónmáli Jóns Leifs. III. þáttur var allsérstæður fyrir að gefa blásurum frí og beita smám saman tónhækkandi únisono-strengjasveit á löngum tónum með iðandi smáinnskotum, líkt og skinnaköst á vatni, við crotales-söngmeyjaslátt; skínandi samtaka leikið. Fínaleþátturinn brá upp ógnvænlegri framtíðarsýn, sem hófst með drungalegum neðanjarðarverksmiðjudynkjum, sem brátt mögnuðust í sannkallaða heljarvitrun er hefði verið Dante verðug. Hér hófst upp púlsrytminn í öllu sínu djöfullega veldi með tveim pákuleikurum í öndvegi, og má vera, að vátíðindin sunnan úr róglöndum Balkansskaga hafi verið tónskáldinu dapurt innblástursefni, ásamt forheimskun firrandi hátækni og vélvæðingar framtíðar a la Huxley. Bernharður Wilkinson og Sinfóíuhljómsveit Íslands unnu sannkallað þrekvirki með eindreginni og eitilsnarpri túlkun á sérlega áhrifamiklu verki, sem án efa mun bera hróður hérlendrar tónsköpunar víða um lönd. Ríkarður Ö. Pálsson