Ólafur Kristbjörnsson Það var bjartur og fagur dagur þegar afi kvaddi okkur á sumardaginn fyrsta og öðlaðist hvíld frá veikindum sínum. Afi var búinn að vera veikur í vetur og við systkinin vissum að það styttist í kveðjustundina.

Það er erfitt að hugsa framtíðina án þess að geta heimsótt afa eða hitt hann á einni af sínum gönguferðum um bæinn. Afi hafði unun af því að fara í gönguferðir og allt síðan hann hætti vinnu fór hann tvisvar út að ganga alla daga ársins, nema ef mikið óveður var. Fyrir gönguferðir sínar var hann þekktur af samborgurum sínum sem margir hverjir dáðust að tignarlegu göngulagi hans. Við syskinin áttum því ekki í vandræðum með að segja hverra manna við værum því afa könnuðust allir við.

Alls staðar þar sem afi kom færði hann með sér kyrrð og ró. Hann hafði mikið jafnaðargeð og var ættingjum sínum og vinum hjálpsamur. Það eru ófáir gamlir hlutir sem öðluðust nýtt líf eftir töfrahendurnar hans afa.

Á aðfangadag var afi vanur að koma með jólapakkana. Það ríkti mikil spenna hjá okkur er við biðum eftir afa. Þegar afi birtist með jólapakkana vissum við að stutt var til jóla. Við systkinin vorum ávallt í móttökunefndinni, kíktum í pokana og spáðum í pakkana. Afi fór þó ekki tómhentur frá okkur því með sér tók hann jólapakka handa sér og ömmu sem valinn hafði verið af kostgæfni af okkur systkinunum.

Það er sárt og erfitt að þurfa að kveðja afa en ljúfar minningar um hann munum við geyma í hjörtum okkar. Guð blessi þig, afi.

Ósk Unnarsdóttir,

Ólafur Unnarsson.