Ívar Níelsson Ferðalangur sem sveigir til suðurs við Sveinsstaði í Þingi og stefnir fram veg, hann á ekki afturkvæmt úr þeim draumi sem þá tekur við. Hann leggur leið sína um rauðlita hóla sem speglast í vatninu og kátur silungur myndar gárur á yfirborðinu. Álftahópar líða um og hvíla sig eftir flug til landsins. Það er dagrenning. Það slær fyrir vit hans ilmi, þar er nývakinn reyr, blóðberg, huldumannablóm og elfting. Lóurnar hörfa liðlega undan nálægð hans. Söngur hrossagauksins er tónn eftirvæntingarinnar. Rétt í þann mund fer sólin á flug yfir fjallið og lýsir upp aflíðandi brúnir Víðidalsfjalls, skásker fossinn í Þingeyrarseli, lýsir upp Undirfell, breiðir úr sér um hálsa og brekkur og tún og glampar á rauðum þökum. Hvít þil ljóma, mýrarstörin réttir úr sér við ylinn og hrossaflugan sveiflar rauðum fótum inn í vorið. Þetta er Vatnsdalurinn með lygnu fljóti og flæðiengjum sem fara á kaf í leysingum. Þá verður dalurinn sem fjörður yfir að líta.

Ívar Níelsson fæddist inn í þennan heim en yfirgaf foreldrahús og stóran systrahóp um fermingu og réðst í vist í Hvammi. Þaðan bjóst hann til leitar að föður sínum er María systir hans hafði brotist niður að Flögu með þau skilaboð frá móður þeirra að hún óttaðist um afdrif hans í fjallinu. Þar fannst hann, hafði hrapað í klettabelti efst í Melrakkadal og var látinn er að var komið. Það var veturinn 1930.

Ívar leitaði lífsförunautar í Vatnsdalnum og kvæntist ungri heimasætu í Forsæludal, Guðrúnu Sigfúsdóttur. Á heimili hennar var gestrisni mikil, kveðskapur í hávegum hafður og systkinin ágætlega hagmælt. Móðir þeirra, Sigríður, var komin í kvenlegg frá Bólu- Hjálmari, faðir þeirra bókbindari samhliða búskapnum. Hagur ungu hjónanna vænkaðist til muna þegar Jón Hannesson frá Undirfelli leigði þeim nýbýli sitt á Nautabúi og þar farnaðist þeim vel. Þau festu síðan kaup á Flögu sem er stærri jörð og gaf meira af sér. Ívar stækkaði túnið til norðurs, tók hvern blettinn af öðrum til ræktunar, ræsti hann fram, bar grjót í rásirnar og þakti moldu. Samhliða þessu fjölgaði kúm og kindum og mun búið hafa verið með þeim stærri í dalnum er best lét. Þurfti Ívar reyndar að afla heyja utan jarðarinnar og naut þar velvilja Magnúsar Blöndal á Gilsstöðum sem þá hafði dregið saman seglin.

Allt sem Ívar Níelsson framkvæmdi gerði hann með hugarfari þess manns sem má ekki vamm sitt vita. Tún voru slegin í rétta skára, töðunni rakað í aflíðandi boga ef ekki var hægt að fara beint af augum, engir hnökrar máttu sjást. Fegurri sæti voru vandfundin, fúlgur stórfenglegar, heystabbar skornir af kórréttri tilfinningu fyrir formi og hlutföllum, vegghleðslur eins og vaxnar úr jörðu. Um tíma fékk hann roskinn mann úr Þingi til þess að stafla upp nýútstungnu taði í fjárhelda rétt um haust. Hversdagslist samræmi, innborið fegurðarskyn, sköpun og tjáning ­ þetta voru hugtök sem þekktust ekki í sveitum en voru virk í störfum einstakra manna. Ívar Níelsson var einn þeirra. Frá slíku verklagi bjarmar fyrir hjá þeim sem hafa innsýn í hið frábrugðna og sérstæða og læra af reynslunni.

Ungur ferðalangur sem kom með rútu úr höfuðstaðnum til sumardvalar á Nautabúi á sjötta áratugnum, hlakkaði mikið til að hitta börnin á bænum og vinna í heyinu, en ekki síst var eftirvæntingin drjúg að vita hvort Kjammi kannaðist við hann eftir viðskilnað um vetur, því þeir voru vinir frá því er drengurinn skreið í garðinum í Hvammi og horfði á heimsviðburðina frá sjónarhóli túnfífils og blöðku.

Ívar Níelsson bar mikla persónu, hann var meðalmaður á hæð og vöxt, teinréttur, grannvaxinn og samsvaraði sér vel, liðlegur í hreyfingum, vel sterkur, röskur í öllum verkum, ósérhlífinn og til í tuskið. Hann tók að sér slark sem aðrir trystu sér ekki í, lá á grenjum í misjöfnum veðrum, handsamaði graðfola sem átti að gelda, slátraði stórgripum. Menn leituðu til hans þegar fella þurfti ellimóðan reiðhest. Hann var karlmenni, harður í horn að taka, gat verið óvæginn ef því var að skipta, þó ekki langrækinn, sáttfús og vinur vina sinna. Ívar var svarthærður og greiddi hárið aftur, var ennið hvítt undan hattinum. Augun voru athugul og eftirtektarsöm, stingandi og stöðug, hert af útiveru, snjóbirtu og skimi eftir dýri, veiðibráð. Hann var snyrtilegur í útliti og sást hvorki á honum blettur né hrukka, sama hvað hann hafði fyrir stafni. Hann gekk aldrei frá ókláruðu verki nema til þess að fagna gestum. Hann var höfðingi heim að sækja.

Ívar Níelsson fullkomnaði líf sitt í ást á Guðrúnu Sigfúsdóttur. Þau voru sem dagur og nótt. Hún, þessi mikla kona, gáfuð, fjölfróð, hláturmild og alltumvefjandi með barnaskarann á eftir sér, ilmandi af mjólk og sápu og þvotti af snúru. Dagleg helgistund þeirra var eftir hádegismat þegar Ívar lagði sig á eldhúsbekkinn með Morgunblaðið en leit oft upp frá lestri á konu sína við vaskinn, staðfast form tilveru hans, lífs og unaðar. Er hún lauk verki smeygði hún sér í faðm hans á mjóum bálkinum, þrýsti sér að brjósti hans, lokaði augunum og ekkert var til framar nema þau tvö, ein í léttum svefninum.

Þannig streyma fram minningar úr ríki bernsku og glegjuskeiðs þegar veröldin var tvískipt, skólinn fyrir sunnan, störf og leikir fyrir norðan. Þá var gott að vera til, þá var gott að finna til, þá var lífið dásamlegt upphaf að einhverju öðru utan sjónhrings. Og nú þegar ferðalangur hefur snúið baki við fögrum dal með hægstreymum síkjum, hjalandi lækjum, berjum í brekku, jarmi, bauli, gelti, gali og hneggi, léttum dögum og erfðum dögum, þá svífur með honum blær þeirra tíma, hann er í vitund hans, í farteskinu, sínýr, ilmandi. Það er sá blær sem fylgir honum til hinsta dags, í andlátið, til eilífðar ­ og gengur að erfðum.

Níels Hafstein.