ÁRNI SIGURÐSSON

Mig langar með nokkrum orðum að minnast elskulegs afa míns, Árna Sigurðssonar, sem fæddur var 30. apríl 1899 og hefði því orðið 100 ára í dag. Afi var fæddur í Brúnavík við Borgarfjörð eystra. Foreldrar hans voru hjónin Sigurður Steinsson frá Borg í Njarðvík eystra og Guðríður Jónsdóttir, fædd í Breiðuvík við Borgarfjörð eystra. Afi fór í fóstur til hjónanna Herborgar Halldórsdóttur og Sigfúsar Gíslasonar að bænum Hofströnd í sömu sveit frá eins árs aldri til 22 ára aldurs. Afi giftist Ástu Karítas Einarsdóttur hinn 19. apríl 1930 og eignuðust þau fjögur börn. Þau eru: Einar, f. 1.9. 1930; Guðríður, f. 15.10. 1932; Sigurþór, f. 18.12. 1933; og drengur, f. 1935, d. sama ár. Leiðir afa og ömmu skildu og ólst Guðríður upp hjá afa og var einstakt samband þeirra á milli. Afi giftist aftur vorið 1952 Árnheiði Magnúsdóttur frá Garðbæ í Innri-Njarðvík, f. 2.9. 1900, d. 18.10. 1993. Afi og amma voru einstök hjón og er erfitt að hugsa til afa nema hugsa til ömmu um leið. Þau voru svo samrýnd hjón í litla húsinu sínu á Kirkjubraut 17 í Innri-Njarðvík. Bæði svo hlý og trygg og eigum við barnabörn þeirra góðar og skemmtilegar minningar frá jólaboðum, þorrablótum, kleinubakstri og afmælum. Alltaf mundi amma eftir afmælisdegi mínum og hringdi í mig eftir að ég fór að eldast og stofnaði heimili og minntist alltaf á bróður sinn, Kristin Magnússon málarameistara, sem bjó í Hafnarfirði, fæddur sama dag og ég, 25. febrúar. Einnig er mér minnisstætt þegar hún sagði frá bróður sínum, Sigurbirni Magnússyni, sem drukknaði aðeins 18 ára gamall en hafði samt verið búinn að semja ljóð um ömmu og gefa henni. Afi og amma létu prenta ljóðið á jólakort fyrir níu árum og gáfu barnabörnum sínum. Ekki eru liðin nema sex ár síðan afi kom í 25 ára afmælið mitt en amma orðin of veik til að komast. Blessuð sé minning þessara heiðurshjóna. Hér kemur ljóðið hennar ömmu: Lifðu sæl um lífstíð alla

láti Guð í bú þitt falla

gnægð af því sem gerist þörf,

þér gleði í þrautum gæfan ljái

geðprýði svo sál þín fái

unað eftir lífsins störf.

(Sigurbjörn Magnússon.) Guðlaug Einarsdóttir.