Oddur Oddsson Nú er hann Oddur frændi búinn að fá hvíldina eftir langvarandi veikindi. Við vorum búin að gera okkur grein fyrir að hverju stefndi en alltaf er jafn erfitt að kveðja góðan vin.

Tengsl fjölskyldna okkar eru mikil og góð, þó sérstaklega þegar við vorum að alast upp í foreldrahúsum þar sem við vorum öll á líkum aldri og börnin hans, Stebbi, Rikki og Maja.

Oddur var einstaklega kátur og hjartahlýr maður sem gott var að vera í nálægð við og í minningu okkar var hann sá sem kunni að gera sér glaðan dag, þá oft með spil á milli handanna því brids var eitt af því sem hann hafði gaman af. Einnig var gott að geta spurt frænda um kvikmyndir því góðar myndir í bíó lét hann helst ekki fram hjá sér fara. Hafðu hjartans þökk fyrir allar góðar stundir og vegni þér vel á nýjum stað.

"Þótt ég sé látinn harmið mig ekki með tárum. Hugsið ekki um dauðann með harmi og ótta. Ég er svo nærri að hvert eitt ykkar tár snertir mig og kvelur. En þegar þið hlæið og syngið með glöðum hug lyftist sál mín upp í mót til ljóssins. Verið glöð og þakklát fyrir allt sem lífið gefur og ég tek þátt í gleði ykkar yfir lífinu." (Höf. ók.)

Innilegar samúðarkveðjur sendum við Ragnhildi, börnum hennar og fjölskyldum þeirra.

Steinar, Rúna, Kjartan og Hafþór