Richard Björgvinsson Það var fyrir um 34 árum að ég kynntist Richard sem nú er kvaddur. Var það er ég fór að venja komur mínar á heimili þeirra Jónínu. Þar var ég þeirra erinda að reyna að vinna hylli elstu dóttur þeirra. Strax og ég kom inn á heimilið skynjaði ég að þar var gott að koma. Það tók mig nokkurn tíma að kynnast Richard en eftir því sem árin liðu og við fórum að þekkja hvorn annan betur varð hann mér sem besti vinur og alltaf vildi hann allt fyrir okkur gera. Það var einkennandi fyrir hann að alltaf var það velferð annarra sem kom á undan hans eigin. Er við giftum okkur var fyrsta heimili okkar undir hans verndarvæng ef svo mætti að orði komast. Á þeim árum rak hann ásamt föður sínum Niðursuðu og hraðfrystihús Langeyrar. Þar var okkur búið heimili og ég vann við fyrirtækið um nokkurra ára skeið.

Á þeim árum kynntist ég annarri hlið og alls ekki síðri hjá Richard en það var heiðarleiki hans í viðskiptum. Allt það sem samið var um, hvort sem um var að ræða kaup á rækju eða sala, varð að standa og viðskiptavinur hans fengi sitt.

Eitt var það sem einkenndi Richard var að þegar hann fékk hjálp við viðhald hússins eða viðbyggingar þá varð alltaf að greiða fyrir vinnu þrátt fyrir að maður væri í stórri skuld við hann.

Þegar kom að því að við flyttum suður aftur og hófum að byggja okkar eigið hús var eins og alltaf gott að leita til Richards með þau vandamál sem ekki var gott fyrir unga húsbyggendur að koma í framkvæmd, t.d. að fá leyfi fyrir framkvæmdum eða lán til að byggja fyrir. Það var greinilegt að Richard var vel kynntur og það opnuðust margar dyr þegar maður nefndi nafnið hans. Við vorum svo lánsöm að búa í næsta nágrenni við Richard og Jónínu. Þegar börnin okkar fæddust og komust á ról áttu þau því greiða leið heim til afa og ömmu. Það eru ófáar ferðirnar sem þau fóru í heimsókn til afa og ömmu. Í slíkum heimsóknum var oft farið með afa í fjöruferðir eða eitthvað annað út fyrir bæinn. Ferðir þessar voru ekki alltaf langar en alltaf jafn gaman því það var ekki lengd ferðarinnar sem skipti máli heldur félagsskapurinn við afa.

Kæri tengdafaðir, þakka þér fyrir allar góðu stundirnar. Far í friði. Megi góður Guð vernda þig og fjölskyldu þína.

Þorvaldur J. Sigmarsson.