Richard Björgvinsson Í dag kveðjum við elskulegan tengdaföður minn, Richard Björgvinsson. Síðustu mánuðir voru honum og fjölskyldunni erfiðir. Tengdamóðir mín, Nína, hefur staðið eins og klettur við hlið manns síns í erfiðum veikindum hans síðustu 8 mánuði.

Núna þegar við vonuðum að bjartara yrði framundan eftir áhættusama en vel heppnaða aðgerð kom kallið skyndilega.

Það eru orðin næstum tuttugu ár síðan ég kom í þessa fjölskyldu, eða eins og ég hef stundum sagt í gamni "datt í ljónagryfjuna", þar sem næstum allir eiga afmæli frá 1. til 20. ágúst. Richard Björgvinsson var mikill sjálfstæðismaður og ég eins "græn" og ég var frá uppeldinu var leidd í sannleikann um mikilvægi litanna í pólitíkinni. Jafnvel jólaseríurnar voru bláar. Richard var mjög umhugað um velferð barna sinna og fjölskyldunnar allrar og þau hjón, Nína og Richard, voru samhent í að styðja þau í lífsbaráttunni. Helst vildu þau vera gefendur og oft hef ég haft á tilfinningunni að þau jafnvel gæfu meira en þau gætu.

Aðdáunarvert hefur verið að fylgjast með hversu vænt Richard þótti um systur sína, Huju, sem nú syrgir bróður sinn á nítugasta og öðru aldursári. Hann var ávallt til staðar fyrir hana og studdi eftir bestu getu.

Richard þótti afar vænt um barnabörnin sín og fylgdist vel með þeim í því sem þau voru að gera. Hann Arnar minn á eftir að sakna afa síns. Nú hringir ekki síminn lengur, þar sem spurt er hvernig við höfum það eða bara verið að ræða mál líðandi stundar. Betri tengdaföður hefði ég ekki getað hugsað mér.

Far þú í friði. Kveðja.

Elín María.