Oddur Oddsson Oddur, mágur minn, er látinn eftir áralanga baráttu við erfiðan sjúkdóm.

Leiðir okkar Odds lágu fyrst saman sumarið 1955 í sögulegri ferð norður á Siglufjörð til tilvonandi tengdaforeldra minna. Fararskjótinn var Packard sem hann hafði nýlega fest kaup á. Auk mín og systur hans sem auðvitað sátum í framsætinu voru í aftursætinu þrír ungir menn. Farið var um Þingvelli og Uxahryggjaleið til Borgarfjarðar. Þar varð fyrsta óhappið þegar bíllinn lenti utan vegar í grjóturð, en við það kom olíuleki að bílnum. Næsti viðkomustaður var einnig utan vegar þegar bíllinn flaug út í mýri, sem var sú eina á Uxahryggjaleið. Áfram var samt haldið, en oft þurfti að bæta olíu á bílinn á leiðinni. Um miðnætti náðum við í Haganesvík og var ákveðið að halda beint áfram yfir Siglufjarðarskarð. Vegurinn hlykkjaðist niður snarbratta hlíðina og ekki höfðum við lengi ekið þegar í ljós kom að bíllinn toldi ekki í gírnum. Í byrjun var reynt var að treysta á bremsurnar, en þær gáfu sig fljótlega. Síðustu brekkurnar var fríhjólað á bílnum á fljúgandi ferð og ekki staðnæmst fyrr en á Hvanneyrarbrautinni. Þar steig Oddur út eins og ekkert hefði í skorist og hló dátt eins og honum einum var lagið. Auðséð var að höfðinginn var kominn á heimaslóðir, þar sem forfeður hans höfðu búið, hákarlaformenn og hreystimenn sem drukku hákarlalýsi að morgni dags.

Sjálfur skreiddist ég skíthræddur og skjálfandi út úr bílnum. Farþegarnir í aftursætinu sem höfðu alla leiðina norður verið með fríunarorð til Odds og óspart hvatt hann til að sýna tilþrif við keyrsluna hurfu nú hljóðlega út í næturhúmið.

Margar ferðir höfum við fjölskyldan farið saman eftir þetta, bæði innanlands og utan, en í minningunni er þessi ferð sú besta.

Seinna lærði Oddur húsasmíði og starfaði við það mestallan sinn starfsaldur. Hann byggði hús yfir sig og fjölskylduna á Norðurbrún ásamt föður sínum. Síðast byggði hann fallegt hús við Austurbrún, en Oddur var völundarsmiður og einstaklega vandvirkur.

Oddur var höfðingi heim að sækja og foreldrum sínum styrk stoð og átti stórfjölskyldan þar hauk í horni. Hann varð þeirrar gæfu aðnjótandi að búa í góðu hjónabandi og eignast mannvænleg börn. Ragnhildur átti ekki lítinn þátt í að skapa fjölskyldunni fallegt heimili og gæða það einstökum heimilisbrag. Aðdáanleg var umönnun hennar og ástúð þann langa tíma sem Oddur var veikur. Seint verður það fullþakkað.

Við hjónin og dætur okkar sendum þér, Ragnhildur mín, og fjölskyldunni okkar innilegustu samúðarkveðjur. Það er bjart yfir minningu Odds Oddssonar.

Hvíli hann í friði.

Ólafur Jónsson og fjölskylda.