Ívar Níelsson Nú er komið að kveðjustund, Ívar frændi er dáinn 86 ára að aldri.

Ívar var mjög hress og kátur þrátt fyrir veikindi sín seinni ár. En hann lét ekkert aftra sér í að ferðast um og vera með fjölskyldu sinni á góðum stundum og alltaf skein stríðnisglampinn og hláturinn úr augunum á honum enda stutt í bæði stríðnina og hláturinn hjá þessum sterka manni sem þurfti sjálfur að bera ábyrgð svo ungur og honum tókst það svo sannarlega.

Ívar var kvæntur Guðrúnu Sigfúsdóttur og varð þeim átta barna auðið en einn son átti Ívar áður. Gunna stóð eins og klettur við hlið Ívars í öll þessi ár og er hennar missir mikill við fráfall hans. Fyrst þegar ég man eftir Ívari var ég fjögra eða fimm ára og bjuggu þá Ívar og Gunna á Flögu í Vatnsdal. Þá fóru mamma og pabbi með okkur systkinin norður í sumarfríunum og þá var hjálpað við heyskap og rúningu og var alltaf mikið af fólki á þessum tímum á Flögu. Gunna stóð allan daginn við eldavélina, að mér fannst og töfraði allt úr þessari skrýtnu og vígalegu eldavél, og Gunna átti þessa eldavél alveg ein. Ívar stríddi mér mikið með hræringnum því hann vildi ég nú alls ekki borða og ég tala nú ekki um þegar var byrjað að rýja rollurnar. Þá sagðist hann ætla að rýja rauða lubbann á mér fyrst. Mikið var ég hrædd þá og sást vel undir iljarnar á mér inn í bæ og passaði ég mig á að sitja allan daginn í eldhúsinu hjá Gunnu. En Ívari var nú ekki alvara með þessu, hann var bara að stríða stelpupúkanum. Svona gæti ég haldið lengi áfram. Ívar og Gunna hættu búskap á Flögu um 1970 og fluttust á Hvammstanga.

Tvívegis hitti ég Ívar og fjölskyldu í fyrra. Í fyrra skiptið í júlí, en þá var ég á ferð inn í Vatnsdal til að spyrja til vegar upp að Þingeyrarseli, en þar bjuggu afi minn og amma, foreldrar Ívars. Þingeyrarsel fór í eyði 1930 eftir að afi minn fórst af slysförum það ár. Þegar ég keyrði fram hjá Flögu sá ég tjaldbúðir á skika í túnfætinum á Flögu og var eins og það væri ættarmót þarna. Ég stoppaði á bæ þarna til að spyrja til vegar upp að Selinu og sagði ég hverra manna ég væri. Þá sagði bóndinn mér að Ívar og fjölskylda væru þarna í tjöldunum, svo að ég sneri við og heilsaði upp á fólkið. Og þvílíkar móttökur. Ívar var kátur að vanda í faðmi fjölskyldunnar. Þetta var ættarmótið þeirra hjóna og voru afkomendurnir margir og allir samheldnir og með góða skapið sem hefur alltaf verið til staðar hjá þeim. Þarna voru bornar fram heilu terturnar í tjaldi og var Ívar hrókur alls fagnaðar. Ég sagði honum að eg ætlaði að reyna að fara upp í Sel og stríddi hann mér þá á því að ég kæmist nú ekki þangað og myndi nú ekki finna það heldur. En þetta var nú ekki nein alvara hjá honum, heldur var það stríðnispúkinn hann Ívar sem var að stríða rauðhausnum.

Síðasta skiptið sem ég sá Ívar var í byrjun október í fyrra, þá heimsótti ég hann og Gunnu á Hvammstanga. Ívar var kátur en ekki góður til heilsunnar. Ég sýndi honum myndirnar sem ég tók í Selinu og þá skellihló hann og sagði: "Ég vissi að þér myndi takast þetta, stelpa." Svo sagði hann mér frá því að hann og Gunna hefðu nú skroppið smábæjarleið. Þau fóru suður til að keyra í gegnum Hvalfjarðargöngin og sneru aftur til baka og það væri nú eins gott að skyldfólkið fyrir sunnan frétti nú ekki af þessu ferðalagi þeirra hjóna. Þegar ég kvaddi Gunnu fylgdi Ívar mér út að bíl og kvaddi mig þar. Þá læddist að mér sá grunur að við myndum ekki sjást aftur.

Ívar minn, ég kveð þig núna. Þín verður sárt saknað.

Kæra Gunna, þinn missir er mikill og votta ég þér og öðrum ættingjum samúð mína. Megi guð vera með ykkur öllum.

Helga Hlynsdóttir og fjölskylda.