Ólafur Kristbjörnsson Fyrst og síðast minnist ég Ólafs sem trausts manns þótt ávallt hafi verið stutt í glettnina. Hann var einn fárra sem kunni að hlusta á fólk og einhvern veginn var það svo með mig og ég hygg fleiri, að maður gat talað tæpitungulaust um mál sem ekki var ætlast til að færu lengra. Ég er þess fullviss að aldrei hvarflaði að honum að rjúfa trúnað.

Hér á árum áður þegar jarlinn í Sigtúnum, Egill Thorarensen kaupfélagsstjóri, varð að fara bæjarleið, fékk hann Ólaf til að aka með sig. Egill hefði aldrei fengið mann til að erinda fyrir sig sem hann ekki gat treyst í hvívetna. Ég held að Ólafur hafi starfað meginhluta starfsaldurs síns hjá Mjólkurbúi Flóamanna á Selfossi, fyrst sem bílstjóri og síðan sem afgreiðslumaður. Ólafur var vel á sig kominn á allan hátt við starfslok fyrir um það bil tíu árum og einhvern veginn hefur mér alltaf fundist fjarstæða að slíkir menn skuli vera knúnir til að láta af störfum. Ekki svo að skilja að Ólafur hafi setið aðgerðarlaus allar stundir síðan því hann rétti sínu fólki hjálparhönd þegar þess var kostur.

Ólafur gekkst undir erfiða skurðaðgerð fyrir tveim árum og heimsótti ég hann á öðrum eða þriðja degi frá aðgerð. Hann var furðu hress og hristi þessi veikindi af sér. Hins vegar tók sjúkdómurinn sig upp aftur fyrir sex mánuðum.

Það var mikilvægt fyrir Ólaf að geta verið heima meðan þessu stríði var að ljúka. Það auðnaðist honum með stakri hjálp eiginkonu og afkomenda.

Ég og fjölskylda mín kveðjum Ólaf með virðingu og þökk.

Halldóra mín, þér og ástvinum öllum sendum við okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Geir Egilsson.