Jóhanna Sigríður Jónína Helgadóttir Föðursystir mín, hún Sigríður Helgadóttir frá Laugarbökkum, er látin. Hún lést aðfaranótt mánudagsins 19. apríl, á nítugasta og þriðja aldursári. Eftir fráfall Sigríðar eru eftir á lífi aðeins tvö af Ánastaðasystkinunum, þau Hjálmar Sigurður og Hólmfríður. Foreldrar Sigríðar, Helgi Björnsson og Margrét Sigurðardóttir, áttu alls níu börn, fjóra drengi og fimm stúlkur. Auk þess tóku þau eitt fósturbarn. Helgi átti auk þess tvö börn frá fyrra hjónabandi, en Steinunn, fyrri kona hans, lést frá börnunum kornungum. Margrét kom í Skagafjörðinn til sumardvalar sem kaupakona. Hún réðst til Helga að Ánastöðum og áætlun um sumardvöl varð að ævistarfi. Hún var ættuð af Suðurlandi af Bergsætt, ein af mörgum systkinum frá Ásmúla í Holtum. Sigríður var sú tíunda í röðinni af Ánastaðasystkinunum. Lífskjörin voru erfið á þessum árum og ævintýri líkast nú í dag, að foreldrunum skyldi takast að koma upp barnahópnum án nokkurrar hjálpar og gera þau að þeim nýtu borgurum sem þau urðu og settu hvert á sinn hátt svip á samtíð sína svo eftir var tekið.

Sigríður var í ýmsum vistum sem ung stúlka, m.a. hjá bróður sínum, Sigurjóni, eftir að hann kom sér upp bústofni og hóf búskap á Reykjum.

Eiginmaður Sigríður var Svavar Pétursson og hófu þau búskap í Hvammkoti í Lýtingsstaðahreppi árið 1933. Þar bjuggu þau í fjögur ár, en flutti þá að Ytri-Kotum í Akrahreppi, þar sem þau bjuggu í tvö ár, en fluttu þá að Silfrastöðum þar sem Svavar stundaði bifreiðaakstur, en Sigríður stóð fyrir heimili Jóhannesar á Silfrastöðum auk þess að sjá um sitt eigið heimili. Eftir sjö ár á Silfrastöðum lá leiðin aftur í Lýtingsstaðahreppinn, þar sem þau stofnuðu nýbýlið Laugarbakka. Ófeigur, bróðir Sigríðar, hafði þá reist nýbýlið Reykjaborg og tekið þangað til sín foreldra þeirra, sem þá voru orðin öldruð. Reyndar stóð Margrét fyrir búi hjá Ófeigi þar til hann festi ráð sitt. Stutt er á milli húsa á Reykjaborg og Laugarbökkum og var mikill samgangur á milli bæjanna. Sá er þetta ritar kom á þessum árum ásamt bræðrum sínum oft að heimsækja ömmu og afa á Reykjaborg. Eftir að Svavar og Sigga fluttust í Laugarbakka var líka komið við hjá Siggu frænku, hún varð svona eins og önnur amma. Svo breytast tímarnir, börnin verða að unglingum og unglingarnir verða fulltíða fólk. Lítill stubbur röltir ekki lengur bæjarleið að hitta afa og ömmu, því afi og amma eru farin. Og Sigga frænka á Laugarbökkum varð sjálf amma og síðar langamma og nú er hún líka farin. Laugarbakkar er ekki stór jörð fyrir búskap, enda vann Svavar mikið utan heimilis við bifreiðaakstur o.fl., en Sigríður drýgði tekjur heimilisins með saumaskap, enda afburða hannyrðakona og munu þær systur allar hafa erft frá móður sinni löngun til hannyrða og handlagni við saumaskap og notið tilsagnar hennar í þeim efnum, en Margrét var annáluð fyrir dugnað og hagsýni og reyndar þau hjón bæði. Það hefur sannast á Margréti, sem sagt er um fólk af Bergsætt, að það sé öðrum fremur duglegt að bjarga sér og laga sig að þeim aðstæðum sem það verður að búa við.

Þegar Sigríður og Svavar hættu búskap eftirlétu þau syni sínum og tengdadóttur jörðina og fluttust til Akureyrar. Á Akureyri hélt Sigríður áfram að stunda saumaskap. Hún sérhæfði sig í að sauma íslenska búninginn og var eftirsótt í þeim efnum. Svavar lést 13. febrúar 1983. Sigríður dvaldi áfram á Akureyri í skjóli Elsu, dóttir sinnar, og tengdasonar og á heimili þeirra síðustu árin. Hún kom oft í Skagafjörðinn að heimsækja börnin sín og barnabörnin og hitta aðra ættingja og vini.

Þegar ég nú þarf að kveðja þessa góðu frænku mína er mér hún minnisstæðust sem glæsileg eldri kona. Í íslenska þjóðbúningnum, sem hún að sjálfsögðu saumaði sjálf og klæddist á hátíðarstundum, var hún sem drottning. Þannig vil ég muna hana. Við hjónin þökkum vináttu hennar alla tíð og vottum aðstandendum samúð og biðjum góðan guð að blessa minninguna um hana.

Magnús H. Sigurjónsson.