Richard Björgvinsson Richard Björgvinsson er fallinn frá. Það er með sorg og trega að við vinir hans og vandamenn kveðjum hann í dag og biðjum honum blessunar.

Kynni mín af Richard og Nínu konu hans hófust fyrir tíu árum. Á þeim tíma stóð hann á krossgötum í lífi sínu og var í þeim sporum að þurfa að finna kröftum sínum og hugmyndum útrás á nýjum vettvangi. Það leyndi sér ekki að óvissan um framtíðina lá þungt á huga hans en með þeirri gjafmildi hjartans sem einkenndi allar hans gjörðir tók hann hinum verðandi tengdasyni með stakri hlýju og trúnaði. Mörgum hefði sjálfsagt orðið það ofviða að þurfa á sjötugsaldri að hefja nýtt starf og þar með tileinka sér nýja þekkingu og starfsaðferðir, en Richard hafði það þrek og þrjósku til að bera, að ekki löngu síðar var hann orðinn ómissandi í nýju og spennandi starfi þar sem hann naut óskiptrar virðingar samstarfsmanna sinna og vinsælda hjá þeim sem við hann skiptu.

Richard var ekki maður sem flíkaði tilfinningum sínum og hann vildi frekar ræða vandamál annarra en sín eigin. Greiðasemi hans var einstök og ef til hans var leitað með úrlausnir eða vandamál gaf hann sig af fullri orku til þess að geta orðið að liði. Sjaldan hefi ég kynnst manni sem var eins reiðubúinn og hann til að fórna af eigin hlut ef það mætti verða til þess að aðrir næðu þeim rétti sem þeir töldu sér hæfa, ­ og það að skrifa reikning fyrir endurgjaldinu kunni hann ekki.

Í pólitík getur þessi eiginleiki verið til góðs en hann getur einnig leitt sársauka yfir þann sem gefur. Richard þekkti sannarlega hvort tveggja. Hjá þeim fjölda fólks sem leitað hafði til hans á löngum ferli hans í bæjarpólitíkinni fann hann viðmót virðingar og væntumþykju, og skipti þá litlu hvort viðkomandi væri úr sama flokki og hann eða úr hópi pólitískra andstæðinga. Þetta var honum mikils virði, ekki síst eftir að sá trúnaður brast milli hans og samstarfsmanna hans í eigin flokki sem leiddi til brotthvarfs hans af hinum pólitíska vettvangi.

Richard var í hópi þeirra sjálfstæðismanna sem vilja tryggja rétt einstaklingsins til sjálfstæðra ákvarðana og athafna en um leið leggja honum þá skyldu á herðar að tryggja félagslegt réttlæti og jöfnuð í samfélaginu. Hin vægðarlausa frjálshyggja yngri manna í flokknum var honum eitur í beinum og hann gat ekki sætt sig við hvernig hans eigin flokkur smám saman beygði frá eldri gildum, sem fela í sér samhjálp um ákveðna grundvallarþætti í uppbyggingu samfélagsins, til viðmiðana sem markast af skilyrðislausum rétti einstaklingsins til óhefts gróða og valdasóknar. Vegna þessa urðu nokkur skil með honum og þeim flokki sem hann hafði eytt stórum hluta ævi sinnar til að byggja upp og koma til áhrifa í landinu. Innst inni bar hann þó þá von, að horfið yrði til fyrri gilda á ný og menn gerðu sér aftur ljóst að friði og sátt í landinu yrði ekki náð þegar til lengri tíma væri litið nema með því að allir landsmenn fengju til jafns notið auðæfanna, sem landið gefur af sér, og öllum tryggð mannsæmandi kjör og réttindi.

Þótt Richard sé fyrst og fremst þekktur fyrir afskipti af bæjarmálum í Kópavogi þá átti heimabyggðin, Ísafjörður, ætíð fyrirferðarmikinn sess í huga hans. Í frásögnum sínum af lífinu fyrir vestan fyrr á árum brá hann upp myndum af því fjölbreytta mannlífi sem þar ríkti, og í minnstu smáatriðum gat hann lýst einstökum persónum og þeirri atburðarás sem þær leiddust inn í hverju sinni. Sögurnar voru oft drepfyndnar, stundum grátbroslegar, en líka átti hann til sögur af átökum og baráttu þar sem engu var líkara en vægðarleysi hinna óblíðu náttúruafla hefði tekið sér bólfestu í sjálfu mannfólkinu. Í mér átti Richard góðan hlustanda. Sögurnar heilluðu mig og um leið lærði ég sögu míns eigin heimabæjar betur en ég hefði gert af nokkurri bók.

Í samræðum mínum við Richard um lífið fyrir vestan varð ég þess oft var að hann saknaði þeirra tíma þegar hann ásamt föður sínum var í leiðandi hlutverki í uppbyggingu á vinnslu sjávarafla á Vestfjörðum. Þeir feðgar voru oft langt á undan sinni samtíð og þurftu að taka áföllum sem hefðbundnari atvinnurekendur þekktu ekki. Þótt Richard væri að mörgu leyti íhaldssamur í pólitískum skoðunum var það honum eiginlegt að skilja nýjar hugmyndir og koma auga á þá sprota sem gætu leitt til nýsköpunar og framþróunar. Allt til þess síðasta fylgdist hann náið með þjóðmálaumræðunni og hafði um það ákveðnar skoðanir hvernig ætti að stjórna landinu og nýta þá möguleika sem þjóðin hefur til framfara og aukinnar velmegunar. Áhyggjur hans af framtíð búsetu í átthögunum fyrir vestan mótuðu afstöðu hans til sjávarútvegsmála og vildi hann þá menn til valda sem líklegastir væru til að hrinda því óréttlæti að fiskurinn í sjónum sé eign í höndum fárra útvalinna sjávarkónga. Í hans huga voru Vestfirðir ekki útkjálki heldur meginland og þar ætti fólkið sína eigin sögu og sín eigin réttindi sem einhverjir hvítflibbar af mölinni ættu ekkert með að ráðskast með til hagsbóta fyrir fólk í öðrum landshlutum. Um þetta vorum við tveir svo sannarlega sammála.

Í veikindum sínum nú síðustu mánuðina þurfti Richard á mikilli umönnun og stuðningi að halda. Hjálparhöndin var nærri því Nína vék varla frá honum allan þann tíma og var alltaf til taks þegar þurfti. Richard bar höfuðið hátt þrátt fyrir veikindin og hélt virðingu sinni til hinsta dags. Hann trúði á framhaldslíf og var þess fullviss að hinum megin tjaldsins biði ný tilvera í birtu sólar og ilmandi náttúru. Til þessarar tilveru sendi ég honum nú mínar bestu kveðjur og þakkir fyrir allt það góða og mikilsverða sem hann hefur gefið mér og mínum. Góður maður er fallinn frá, gegnheill og sjálfum sér sannur.

Hjálmar H. Ragnarsson.