Í ANDDYRI Þjóðarbókhlöðunnar stendur þessa dagana yfir sýning á verkum reykvískra áhugaljósmyndara frá árunum 1950­ 1970. Að sögn Ívars Brynjólfssonar, ljósmyndara við Þjóðminjasafnið, einkenndist tímabil þetta af mikilli grósku í listrænni ljósmyndun og ber sýningin þess glöggt merki. Sýningin er smá í sniðum, en þar kennir engu að síður margra grasa.
ABSTRAKT LJÓSMYNDIR

Í ÞJÓÐARBÓKHLÖÐU

Í ANDDYRI Þjóðarbókhlöðunnar stendur þessa dagana yfir sýning á verkum reykvískra áhugaljósmyndara frá árunum 1950­ 1970. Að sögn Ívars Brynjólfssonar, ljósmyndara við Þjóðminjasafnið, einkenndist tímabil þetta af mikilli grósku í listrænni ljósmyndun og ber sýningin þess glöggt merki.

Sýningin er smá í sniðum, en þar kennir engu að síður margra grasa. Verk sumra ljósmyndaranna teljast til hefðbundinnar ljósmyndunar, önnur má flokka sem sagnfræðilegar heimildir, á meðan að þriðji flokkurinn einkennist af skemmtilegum leik ljóss, skugga og formgerðar. Í hópi þeirra síðastnefndu má m.a. sjá áhugaverð dæmi um tilraunir með abstrakt ljósmyndun og eiga verkin sterkar rætur í myndlist síns tíma.

Kveikjan að sýningunni, sem haldin er á vegum Þjóðminjasafnsins, er rannsóknarverkefni sem unnið var með tilstyrk Nýsköpunarsjóðs námsmanna og segir Ívar að á næstunni verði gefið út rit á vegum safnsins um áhugaljósmyndaklúbba 1950­1970.

Líkt og fram kemur í sýningarskrá var mikill vaxtarbroddur í listrænni ljósmyndun meðal áhugaljósmyndara á þessum tíma. Fjöldi ljósmyndaklúbba og -félaga voru stofnaðir upp úr 1950 og má að nokkru rekja þá þróun til Hjálmars R. Bárðarsonar sem stofnaði Hið íslenska ljósmyndafélag (HÍL), en Hjálmar hafði áður verið aðili að samtökum danskra ljósmyndara. Það var síðan eftir stofnun HÍL að gróska komst í starf áhugaljósmyndara sem stofnuðu ýmsa smærri ljósmyndaklúbba sem tilheyrðu HÍL. Á sýningunni í Þjóðarbókhlöðunni má m.a. sjá nokkrar ljósmynda Hjálmars sem bera tæknivinnu síns tíma glöggt vitni. En ljósmyndirnar eru margar hverjar samsettar úr tveimur til þremur ljósmyndum til að ná fram endanlegri mynd. Ljósmyndaklúbbarnir sem verk eiga á sýningunni eru Litli ljósmyndaklúbburinn, Ljósmyndafélag Reykjavíkur og Fótóklúbburinn Íris.

Mikil virkni hefur einkennt starf ljósmyndaklúbbanna, en margir félagsmanna voru iðnir við að taka þátt í sýningum erlendis og gátu sumir hverjir sér gott orð. Til að mynda er á sýningunni ein mynda Rafns Hafnfjörð sem sýnd hefur verið á sex erlendum ljósmyndasýningum. Í Þjóðarbókhlöðunni er einnig að finna ýmis æfingaverkefni Litla ljósmyndaklúbbsins í myndskurði og myndbyggingu og voru verkefnin varðveitt af Óttari Kjartanssyni, en eru nú í eigu Þjóðminjasafnsins.

Þekktastir þeirra áhugaljósmyndara sem verk eiga á sýningunni eru eflaust þeir Hjálmar R. Bárðarson og Bretinn Ralph Hannam. Á sýningunni má þó einnig sjá verk þeirra Freddy Laustsens, Gunnars Péturssonar, Kristins Sigurjónssonar, Óttars Kjartanssonar og Rafns Hafnfjörð. En verk Gunnars bera að mati Ívars Brynjólfssonar vott um hvað mestan frumleika, en þar eru tengslin við abstrakt málverkið einna sterkust.

Sýningunni Áhugaljósmyndarar í Reykjavík 1950­1970 lýkur 28. maí nk.

Morgunblaðið/Þorkell EIN ljósmynda Hjálmars R. Bárðarsonar sem er einna þekktastur þeirra áhugaljósmyndara sem eiga verk á sýningunni

EIN mynda Bretans Ralph Hannam, en Ralph var einn af stofnendum Ljósmyndafélags Reykjavíkur

SÝNINGIN í Þjóðarbókhlöðunni er smá í sniðum en verkin fjölbreytt.