BANDARÍSKA fjármálaráðuneytinu og Alan Greenspan hefur verið hrósað óspart fyrir að koma á stöðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að nýju eftir hrun í efnahagslífi Asíu, Rússlands, Brasilíu og fleiri ríkja síðastliðið haust.
Alþjóðleg efnahagsmál eftir fráhvarf Roberts Rubins

eftir Rudi Dornbusch

The Project Syndicate

BANDARÍSKA fjármálaráðuneytinu og Alan Greenspan hefur verið hrósað óspart fyrir að koma á stöðugleika á alþjóðlegum fjármálamörkuðum að nýju eftir hrun í efnahagslífi Asíu, Rússlands, Brasilíu og fleiri ríkja síðastliðið haust. Ættum við þar með að hafa áhyggjur af því að maðurinn, sem gegndi lykilhlutverki við að koma málum á réttan kjöl á ný, skuli nú vera að draga sig í hlé? Mun brotthvarf hans draga úr mótstöðuafli hins alþjóðlega efnahagskerfis ef vandræðin skyldu byrja að nýju? Auðvitað. Fjármálaráðuneytið bandaríska, undir stjórn Roberts Rubins, gegndi úrslitahlutverki í upphafi forsetatíðatíðar Clintons við að spyrna gegn þeim frjálslyndu öflum í liði hans er vildu hækka skatta og auka útgjöld hins opinbera. Rubin og fylgisveinum hans tókst framar björtustu vonum að koma mönnum í Hvíta húsinu í skilning um að verðbréfamarkaðir eru hið æðsta vald.

Markaðir Asíu eru nú á bataleið. Kínverjar hafa ekki fellt gengi gjaldmiðils síns (og enginn býst við að þeir geri það), Brasilía er orðin að helsta gæludýri fjármálamarkaðarins. Hvers vegna ættu menn því að óttast það, að Rubin dragi sig í hlé? Allt bendir til að framundan sé lygn sjór. Fá önnur verkefni virðast bíða bandaríska fjármálaráðuneytisins en að lækka skatta þegar og ef bandarískt efnahagslíf fer að hægja á ferðinni.

Heimurinn getur treyst arftaka Rubins, hagfræðingnum Larry Summers, til að halda réttum kúrs. Hann veit það betur en nokkur annar að ákveðnar og rétt tímasettar skattalækkanir eru rétta leiðin til að koma í veg fyrir efnahagslegan samdrátt. Það er hins vegar Alan Greenspan, bankastjóri bandaríska seðlabankans, sem á mikilvægasta verkefnið fyrir höndum. Hann mun gegna úrslitahlutverki þegar og ef dregur úr trausti á verðbréfamörkuðum. Það verður hans hlutverk að tryggja stöðugt fjármunaflæði og koma í veg fyrir að markaðirnir gangi af göflunum. Það er von markaðanna að honum muni einhvern veginn takast að gegna starfi sínu áfram endalaust.

Stærsta hagkerfi heims er því vel í stakk búið að takast á við þau smávægilegu vandamál er upp kunna að koma í daglegri fjármálastarfsemi þrátt fyrir að einn helsti ráðamaður efnahagsstjórnar Bandaríkjanna sé á förum. Er þetta hins vegar of gott til að vera satt? Auðvitað gæti samdráttur átt sér stað í einhverju ungu hagkerfi. Reynslan hefur hins vegar kennt okkur að sé réttum ráðum beitt eru slíkir markaðir allt að því fljótari að ná sér á strik en að hrynja. Það er að sama skapi ekki frjór kreppujarðvegur í Vestur-Evrópu vegna átaka sósíalískra ríkisstjórna og seðlabanka sem er allt að því heyrnarlaus.

Það eru meira að segja hverfandi líkur á því að Austur-Evrópa, með hið reikula Rússland sem þungamiðju, valdi alþjóðlegu uppnámi, að minnsta kosti ekki fjármálalegu. Vandræðagemlingarnir tveir, er gætu ollið uppnámi og rofið hið alþjóðlega samræmi, eru tvö stærstu hagkerfi heimsins: Bandaríkin og Japan.

Gengi bandarískra hlutabréfa er of hátt í ljósi þess að verðbólgu hefur ekki verið útrýmt í heiminum, gengi japanskra skuldabréfa að sama skapi ofmetið þegar horft á hinar gífurlegu opinberu skuldir landsins og fjárlagahalla er virðist munu halda áfram um ófyrirsjáanlega framtíð. Hinar opinberu skuldir Japans eru slíkar að þær verður ekki hægt að greiða og því ætti að meta japönsk ríkisskuldabréf sem ruslbréf.

Vandamál Bandaríkjanna er einfalt. Gengi hlutabréfa er einhvers staðar í gufuhvolfinu. Það er augljóst að gengið á að vera hátt. Það hefur verið hagvöxtur í Bandaríkjunum óslitið í 100 mánuði, ekki skortir tækni og samkeppni, nóg er af frumkvæði og neytendur eyða öllu sem þeir afla og meira en það. Hins vegar eru engar forsendur fyrir því að gengi hlutabréfa hækki endalaust. Um leið og menn fara að óttast verðbólgu mun gengi hlutabréfa hríðfalla.

Verðbólguhætta, í einhverjum mæli, er nú í sjónmáli. Launaverðbólga og framleiðni eru ekki vandamálið heldur verð aðfanga. Vöxtur á heimsvísu þýðir skarpa hækkun á hráefnisverði og framleiðslu og þá er ekki langt í að Greenspan þurfi að hækka vextina og skrúfa þar með fyrir þau veisluhöld, sem svo lengi hafa staðið yfir í Bandaríkjunum.

Afleiðingin verður ekki kreppa eða hrun en það mynda hrikta aðeins í stoðum hins alþjóðlega peningamarkaðar, ekki síst á jaðarsvæðum hans, þar sem fjármálainnflæði hefur breytt yfir þörfina á stöðugleika og umbótum.

Þau vandamál sem Japan stendur frammi fyrir eru mun alvarlegri. Japan er mesti skuldari heimsins. Skuldir Japans eru jafnvel meiri en Evrópu og Bandaríkjanna, þrátt fyrir að umfang japanska hagkerfisins sé um helmingi minna. Þar sem lítið bólar á uppsveiflu er halli á fjárlögum gífurlegur og það má líka segja um lífeyrisgreiðslur til þjóðar, sem eldist mjög hratt. Reikningurinn fyrir þær greiðslur nemur nú þegar 2509% af VLF og hækkar ört. Japönsk skuldakreppa er óhjákvæmileg og þegar hún skellur á mun það leiða til mestu fjármálakreppu í heiminum frá því á fjórða áratugnum. Enn á eftir að koma í ljós hvort þetta leiði til efnahagskreppu í Japan eða haftaþjóðfélags. Þó má ganga út frá því sem vísu að Japanir muni leggja öll áform um opnun eða uppstokkun peningamarkaðarins á hilluna og halda í þveröfuga átt.

Ef Japan og þá væntanlega stór hluti Asíu í leiðinni myndi ráðast gegn frelsi á mörkuðum og taka þess í stað upp hið ósveigjanlega kerfi, sem var uppspretta fyrri erfiðleika, stæðu önnur ríki frammi fyrir flóknu vandamáli. Gætu Evrópa, Suður-Ameríka og Bandaríkin farið sína eigin leið, ýtt undir markaðsöflin og frjálst flæði vöru og fjármagns á sama tíma og Asía væri í spunaflugi er hrunið í Japan hefði valdið? Eða myndu þessi ríki einnig gefa eftir og leggja traust sitt á ríkisafskipti og nauðsyn þess að vernda eigin hagkerfi? Skynsamlegra væri að veðja á markaðinn, sem hefur gott orð á sér á Vesturlöndum sem aftur á móti er ekki hægt að segja um reynsluna af því að ríkið gegni aðalhlutverki í efnahagsmálum. Hinnar yfirveguðu skynsemi Rubins í baráttu fyrir slíku, kynni að verða sárt saknað ef allt fer í kalda kol í Japan.Höfundur er Ford-prófessor í hagfræði við MIT og fyrrum aðalefnahagsráðgjafi jafnt Alþjóðabankans sem Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Reuters MIÐLARAR í kauphöllinni í Tókýó velta málum fyrir sér en á skjá á bak við þá er varpað upp tölum um gengishlutfall dollars á móti jeni.Japönsk skuldakreppa er óhjákvæmileg og þegar hún skellur á mun það leiða til mestu fjármálakreppu í heiminum frá því á fjórða áratugnum.