EFTA-dómstóllinn hafnaði á fimmtudag kröfu ríkisstjórnar Noregs um ógildingu á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um að kerfi framlaga til almannatrygginga í Noregi feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð. Í fréttatilkynningu frá dómstólnum segir, að samkvæmt almannatryggingalögum sem tóku gildi í Noregi í febrúar 1997, greiði launþegar og atvinnurekendur framlag til almannatrygginga.
EFTA-dómstóllinn Norskir styrkir ólögmætir

EFTA-dómstóllinn hafnaði á fimmtudag kröfu ríkisstjórnar Noregs um ógildingu á ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA um að kerfi framlaga til almannatrygginga í Noregi feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð.

Í fréttatilkynningu frá dómstólnum segir, að samkvæmt almannatryggingalögum sem tóku gildi í Noregi í febrúar 1997, greiði launþegar og atvinnurekendur framlag til almannatrygginga. Atvinnurekendur greiða framlag sem reiknað er á grundvelli brúttólauna launþega og er á bilinu 0-14,5% eftir því í hvaða sveitarfélagi launþegi hefur fast aðsetur. Á þéttbýlissvæðum í Suður-Noregi er framlagið 14,1% en 0 á tilteknum svæðum í Norður-Noregi.

Eftir athugun á málinu tók Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðun um að kerfið fæli í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi 61. greinar EES- samningsins. Ríkisstjórn Noregs höfðaði mál til ógildingar á ákvörðuninni og byggði á því að Eftirlitsstofnunin hefði með ákvörðun sinni sjálf brotið gegn EES-samningnum.

EFTA-dómstóllinn taldi að kerfið ívilnaði ákveðnum fyrirtækjum eða framleiðslu og fæli því í sér ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. EES-samningsins en ekki almenna ráðstöfun sem félli utan gildissviðs greinarinnar, eins og ríkisstjórn Noregs hélt fram.