SELJASKÓLI á 20 ára starfsafmæli á þessu ári. Í tilefni af því verður haldin vegleg afmælishátíð í skólanum þriðjudaginn 25. maí kl. 18­21. "Skólinn verður opinn gestum frá kl. 18 þann dag og vinna nemenda til sýnis. Má þar nefna fjölbreytt verkefni sem nemendur hafa unnið í myndmennt, smíði, saumum og bóklegum greinum. Ennfremur verða heilsdagsskóli og bókasafn til sýnis.
Seljaskóli í Reykjavík 20 ára

SELJASKÓLI á 20 ára starfsafmæli á þessu ári. Í tilefni af því verður haldin vegleg afmælishátíð í skólanum þriðjudaginn 25. maí kl. 18­21.

"Skólinn verður opinn gestum frá kl. 18 þann dag og vinna nemenda til sýnis. Má þar nefna fjölbreytt verkefni sem nemendur hafa unnið í myndmennt, smíði, saumum og bóklegum greinum. Ennfremur verða heilsdagsskóli og bókasafn til sýnis.

Á skólalóð verða leiktæki frá ÍTR og grillveisla í boði foreldrafélagsins. Einnig verður boðið upp á andlitsmálningu þar sem eldri nemendur sjá um að mála þau yngri.

Í samkomusal skólans verður dagskrá frá kl. 18. Nemendur í 6. bekk flytja lög úr söngleiknum Grease og hljómsveitin Þeytingur spilar dúndrandi lög en hana skipa nemendur í 6. og 7. bekk. Klukkan 19 stígur síðan barnakór Seljakirkju á sviðið og syngur nokkur lög.

Safnast verður saman við aðalinngang skólans kl. 19.30 og gengið fylktu liði í skrúðgöngu undir stjórn lúðraþeytara að íþróttahúsi Seljaskóla en þar hefst hátíðarsamkoma kl. 20.

Fjölbreytt hátíðardagskrá verður í íþróttahúsinu, bæði ávörp og ýmis skemmtiatriði frá nemendum. Má þar m.a. nefna að allir 6 og 7 ára nemendur skólans sýna dans og nemendur úr Tónskóla Eddu Borg flytja tónlist.

Í tilefni af afmælinu var efnt til samkeppni um merki skólans og verða úrslit kynnt á hátíðinni. Skólablað Seljaskóla kemur út í tilefni af afmælinu en það er unnið af nemendum í fjölmiðlafræðivali í 10. bekk.

Vonast er til að sem flestir foreldrar komi á afmælishátíðina með börnum sínum og allir velunnarar skólans eru velkomnir, segir í fréttatilkynningu frá Seljaskóla.