Svæðisskipulag miðhálendisins hefur tekið gildi eftir að umhverfisráðherra staðfesti það fyrir skömmu. Stefán Thors skipulagsstjóri ríkisins sagði Rögnu Söru Jónsdóttur frá aðalatriðum skipulagsins.
Svæðisskipulag miðhálendisins til ársins 2015 hefur tekið gildi

Grófur rammi um skipulag hálendisins

Svæðisskipulag miðhálendisins hefur tekið gildi eftir að umhverfisráðherra staðfesti það fyrir skömmu. Stefán Thors skipulagsstjóri ríkisins sagði Rögnu Söru Jónsdóttur frá aðalatriðum skipulagsins.

UMHVERFISRÁÐHERRA staðfesti svæðisskipulag miðhálendis Íslands 10. maí sl. og hefur þar með verið mörkuð stefna í skipulagsmálum hálendisins fram til ársins 2015. Þó ber ekki að skilja staðfestingu skipulagins sem svo að nú sé búið að ákveða í eitt skipti fyrir öll hver framtíð hálendisins verði. Ný samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands verður skipuð innan tíðar og mun hennar fyrsta verk verða að afla sér upplýsinga um hugsanlegar breytingar og breyttar forsendur á umræddu skipulagssvæði, auk þess sem hún mun gæta þess að tillögur sveitarfélaga um aðalskipulag á sínu svæði verði í samræmi við markaða stefnu svæðisskipulagsins eða þær breytingar sem hugsanlega verða gerðar á því.

Aðdragandinn að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands var langur. Samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands, sem skipuð var árið 1993 vann að tillögunni sem kom út í maí 1997. Í nefndinni áttu þær 12 héraðsnefndir sem liggja að miðhálendinu hver um sig einn fulltrúa en umhverfisráðherra skipaði formann nefndarinnar. Að lokinni útgáfu tillögunnar var skipulagið auglýst og almenningi og hagsmunaaðilum gefinn kostur á að gera athugasemdir við það. Í nóvember 1998 lauk nefndin við að vinna úr innsendum athugasemdum, sem voru um 100 talsins, og afgreiddi skipulagið. Skipulagsstofnun fór að því búnu yfir það, og útskýrði og túlkaði framsetningu þess. 9. apríl mælti stofnunin með því við umhverfisráðherra að skipulagið yrði staðfest, sem hann og gerði 10. maí.

Að sögn Stefáns Thors skipulagsstjóra var þörfin fyrir að skipuleggja hálendið mikil og hann sé ekki frá því að hún hafi aukist mikið á síðustu árum, meðal annars vegna þess að þeim sem sæki inn á hálendið fjölgi stöðugt, þeir hafi mismunandi þarfir og áhugamál og hagsmunir þeirra skarist í sumum tilvikum. Hann segir að þrátt fyrir að miðhálendið nái yfir um 40% flatarmáls landsins hafi ástand í skipulags- og byggingarmálum á svæðinu hingað til verið eins og hjá vanþróuðustu ríkjum. Nauðsynlegt hafi verið að breyta þessu og því sé ánægjulegt að mörkuð hafi verið stefna í skipulagsmálum þess.

"Eflaust verður áfram deilt um efnistök og stefnu í skipulagsmálum á miðhálendinu, enda skipulagsáætlun aldrei gerð í eitt skiptið fyrir öll. Með staðfestingu svæðisskipulagsins núna er hins vegar stigið stórt skref, það er búið að koma skipulagsmálum í ákveðinn farveg. Búið er að marka leiðina þannig að ef gera á breytingar þá er vitað frá hverju er verið að breyta og í hvað," segir Stefán.

Landslag og ásýnd svæðisins verði varðveitt sem best

Við gerð á Svæðisskipulagi miðhálendisins má segja að um tvo kosti hafi verið að ræða. Annars vegar að á svæðinu skyldi ríkja algert byggingarbann eða þá að framkvæmdir skyldu vera takmarkaðar. Síðari kosturinn varð fyrir valinu og voru eftirfarandi meginmarkmið höfð að leiðarljósi við gerð svæðisskipulagsins:

Heildarstefna var mörkuð í leyfisveitingum fyrir mannvirkjagerð á hálendinu og áhrif hennar á umhverfið metin. Landslag og ásýnd svæðisins skyldi varðveitt sem best, þar með talið gróður og lífríki, náttúru- og menningarminjar. Skilgreina skyldi vegakerfið og það lagfært og reynt að koma í veg fyrir akstur utan vega. Virkjanasvæði og land ætlað undir uppistöðulón og línulagnir framtíðarinnar skyldu sýnd á skipulaginu. Ferðamál á hálendinu væru skilgreind, hálendismiðstöðvum og þyrpingum fjallaskála skyldu valin svæði og aðstaða ferðamanna bætt. Skipulagi yrði komið á sorp- og frárennslismál og náttúruverndarsvæði væru skilgreind og landgræðslusvæði sýnd.

Skipulagið tekur til þátta eins og samgangna, orkuvinnslu, útivistar- og ferðamála, fjarskipta, þjóðminja, byggingarmála, náttúruverndar, heilbrigðismála, vatnsverndar og hefðbundinna nytja og landgræðslu. Þá byggir það á þeirri meginhugmynd að miðhálendinu er deilt niður í belti, sem ákvarðast annars vegar af mannvirkjagerð og hins vegar af verndargildi. Með því móti er stuðlað að því að allri meiriháttar mannvirkjagerð er haldið á afmörkuðum beltum en tekin eru frá sem stærst og samfelldust verndarsvæði þar sem framkvæmdum er haldið í lágmarki.

Mannvirkjum verði haldið á afmörkuðum beltum

Eins og sjá má á meðfylgjandi korti eru helstu mannvirkjabelti miðhálendisins tvö samkvæmt svæðisskipulaginu og liggja þau þvert yfir hálendið um Sprengisand og Kjöl. "Þar eru flutningsæðar raforku og umferðar auk uppistöðulóna, og þar eru helstu þjónustusvæði ferðamanna. Á Suðurlandi eru einnig þvertengingar meðfram Byggðalínu um Fjallabakssvæði að virkjunum á Tungnaársvæðinu og þaðan til vesturs með Hvalfjarðarlínu sunnan Langjökuls," segir Stefán.

Orkuvinnslusvæði eru sérstaklega skilgreind í skipulaginu. Þar er um að ræða þrjá flokka: núverandi orkuvinnslusvæði, fyrirhuguð orkuvinnslusvæði og fyrirhugaðar háspennulínur. Að sögn Stefáns gerði samvinnunefndin fyrirvara á Fljótsdalsvirkjun og Norðlingaöldumiðlun í afgreiðslu sinni á svæðisskipulaginu.

"Þessi fyrirvari hefur þó ekki beinlínis takmarkandi þýðingu fyrir virkjanirnar vegna þess að til eru lög sem heimila Fljótsdalsvirkjun og Norðlingaöldumiðlun, en hann er ábending um að skoða ætti aðra útfærslukosti. Nefndin gerir ekki fyrirvara við aðrar fyrirhugaðar virkjanir vegna þess að þær eru skemmra á veg komnar og ekki eru fyrirsjáanlegir jafnmiklir hagsmunaárekstrar og komið hafa í ljós í hinum tilvikunum," segir Stefán.

Þrír flokkar verndarsvæða

Hvað verndarsvæði varðar skiptast þau í þrjá flokka. Svæði sem eru dökkgræn á kortinu kallast náttúruverndarsvæði. Innan þeirra eru friðlýst svæði og svæði á Náttúruminjaskrá en á þeim gilda þegar takmarkandi reglur um landnotkun og umferð. Svæðisskipulagið gerir ráð fyrir að tekið sé mið af almennum sjónarmiðum um "verndarheildir" og "lágt byggingarstig" á þessum svæðum. Að sögn Stefáns er stefnt að því að á náttúruverndarsvæðum verði settar ákveðnar reglur sem takmarka hvers konar mannvirkjagerð, umferð og umgengni, jafnt sumar sem vetur.

Almenn verndarsvæði eru ljósgræn á kortinu. Um þau gilda svipaðar reglur og um náttúruverndarsvæði og svæði á Náttúruminjaskrá eru innan almennra verndarsvæða. Þá eru einnig skilgreind vatnsverndarsvæði og önnur svæði, en ekki er skilgreint hvaða landnotkun eigi við á þeim síðarnefndu.

Stærstu ár Sprengisandsleiðar og Kjalar verði brúaðar

Svæðisskipulagið tekur afstöðu til uppbyggingar vega á hálendinu en um það hefur mikið verið rætt undanfarin misseri, hvort vegunum skuli haldið í svipuðu ástandi og þeir eru nú eða hvort gera eigi róttækar breytingar og koma upp heilsársæðum þvert yfir landið, til dæmis um Sprengisandsleið eða Kjöl. Jafnvel hafa verið uppi hugmyndir um slíka samgönguæð þvert yfir landið norðan Vatnajökuls.

Í svæðisskipulaginu er ekki tekið undir svo róttækar hugmyndir en hins vegar er mælt með því að aðalfjallvegir og stofnvegir hálendisins, Sprengisandur og Kjölur, verði byggðir upp sem góðir sumarvegir og helstu ár á þeim vegum verði brúaðar. Fjallvegum, sem er meirihluti vega á hálendinu, verði hins vegar haldið óbreyttum. Einkavegum og öðrum ökuleiðum verður ekki breytt en ákvarðanir um legu nýrra einkavega og annarra ökuleiða tengist ákvörðunum um ný mannvirki og skal fjalla um það sérstaklega.

Frá hálendismiðstöð að fjallaseli

Þjónustustaðir fyrir ferðamenn eru flokkaðir í fjóra flokka: jaðarmiðstöðvar, hálendismiðstöðvar, skálasvæði og fjallsvæði. Jaðarmiðstöðvar eru í jaðri hálendisins og í góðu vegasambandi og rekstri að jafnaði allt árið, eins og til dæmis Húsafell og Hólaskjól. Hálendismiðstöðvar eru hins vegar við aðalfjallvegi og er þar reiknað með alhliða þjónustu við vetrarumferð, hestamenn, veiðimenn og skíðafólk. Hveravellir og Versalir falla til dæmis undir þennan flokk. Skálasvæði eru einnig í góðu vegasambandi en þjónusta er minni en í hálendismiðstöðvum. Fjallaselin eru aftur á móti í takmörkuðu eða engu vegasambandi. Þau eiga, eins og miðstöðvar og skálar, að vera opin fyrir almenning í öryggisskyni. Þá segir að megináhersla sé lögð á gistingu í skálum frekar en í tjöldum.

Stefán segir aðspurður að svæðisskipulagið muni koma til með að taka breytingum eftir því sem frekari upplýsingar liggi fyrir og forsendur breytist. Hann segir að þessi stefnumörkun sé gerð á grundvelli þeirra upplýsinga sem liggi fyrir í dag, en eftir því sem nákvæmari upplýsingar um gróðurfar, lífríki og fornminjar líti dagsins ljós, því betra verði skipulagið. "Svæðisskipulag miðhálendisins sem nú hefur verið samþykkt hefur komið byggingar- og skipulagsmálum hálendisins í ákveðinn farveg. Það er grófur rammi sem nauðsynlegt er að byggja á en tekur breytingum eftir því sem nákvæmari upplýsingar liggja fyrir, hvort sem er í einstökum málaflokkum eða á afmörkuðum svæðum," segir Stefán að lokum.