FLEIRI tilraunir til að svíkja fé út úr íslenskum fyrirtækjum hafa verið gerðar en þær sem greint var frá í síðustu viku hjá þremur fyrirtækjum. Síðustu tilraunirnar fóru fram í þessari viku. Alls er um sjö fyrirtæki að ræða og hefur verið reynt með skjalafalsi að svíkja samtals 220 milljónir króna út úr þessum fyrirtækjum, mest frá Flugleiðum, milli 50 og 60 milljónir.
Fleiri tilraunir gerðar til að svíkja fé úr íslenskum fyrirtækjum með skjalafalsi Alls reynt að svíkja út 220 milljónir

FLEIRI tilraunir til að svíkja fé út úr íslenskum fyrirtækjum hafa verið gerðar en þær sem greint var frá í síðustu viku hjá þremur fyrirtækjum. Síðustu tilraunirnar fóru fram í þessari viku. Alls er um sjö fyrirtæki að ræða og hefur verið reynt með skjalafalsi að svíkja samtals 220 milljónir króna út úr þessum fyrirtækjum, mest frá Flugleiðum, milli 50 og 60 milljónir. Engin tilraunanna hefur tekist.

Jón Snorrason, saksóknari hjá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, og Arnar Jensson aðstoðaryfirlögregluþjónn greindu fjölmiðlum frá þessu í gær og segja að grunsemdir beinist að erlendum mönnum í þessu sambandi og er lögreglan í ýmsum löndum nú að kanna vísbendingar í samvinnu við íslensk yfirvöld. Þeir Jón og Arnar segja erfitt að staðsetja hinn grunaða þar sem beitt sé nútíma fjarskiptatækni en talið er ljóst að verkið sé unnið erlendis frá. Ekki er talið að Íslendingar tengist þessum málum. Jón segir rannsókn ganga vel.

Fulltrúar efnahagsbrotadeildarinnar segja að tilraunirnar hafi verið vel undirbúnar og notaðar aðferðir við beiðnir um millifærslur sem tíðkist í samskiptum fyrirtækjanna. "Það er staðið að þessu með fagmennsku afbrotamannsins ef svo má segja," segir Jón og segir afbrotamenn þekkja vel til bankaviðskipta stórfyrirtækja og samskiptakerfa þeirra.

Til að undirbúa verkið fékk hinn grunaði dagana 11. til 14. maí send ljósrit úr ársreikningum 13 íslenskra stórfyrirtækja frá íslensku upplýsingaþjónustufyrirtæki en þar koma m.a. fram undirskriftir forráðamanna fyrirtækjanna, t.d. stjórnarformanns og framkvæmdastjóra. Starfsmenn efnahagsbrotadeildar vöruðu strax við forráðamenn fyrirtækjanna sem höfðu samband við viðskiptabanka sína og segja þeir Arnar og Jón að við rannsóknina hafi samstarf verið gott við alla sem málið komi við.

Oftast 20 til 30 milljónir króna

Tilraunirnar hófust miðvikudaginn 12. maí og var þá reynt að svíkja fé frá KEA, Mjólkursamsölunni og Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eins og Morgunblaðið hefur þegar greint frá. Eftir það hefur einnig verið reynt að svíkja út fjármuni frá Ingvari Helgasyni, Flugleiðum, Samherja og Íslenska járnblendifélaginu. Um mismunandi upphæðir er að ræða, milli 50 og 60 milljónir króna frá Flugleiðum, en 20 til 30 milljónir frá hinum. Ekki vildu fulltrúar ríkislögreglustjóra greina frá nöfnum hinna fyrirtækjanna sex né heldur hvert þjónustufyrirtækið er sem sendi ljósrit og upplýsingar úr ársreikningum.

Aðferðin síðustu daga er hin sama og fyrst:

Enskumælandi maður hringir í fyrritækið og segist þurfa að leggja fé inn á reikning þess vegna viðskiptaskuldar. Hann kynnir sig sem viðskiptamann eða starfsmann erlends banka sem hafi móttekið greiðslu sem koma þurfi til skila. Næsta skref er að millifærslubeiðni berst á faxi til viðskiptabanka fyrirtækisins með undirritun forráðamanna þess. Um leið hringir enskumælandi maður til bankans, kynnir sig sem einn af forráðamönnum þess og heimilar að millifærslan eigi sér stað. Hann segist vera staddur á hóteli í Reykjavík þar sem verið sé að ganga frá viðskiptum og leggur áherslu á að millifærslan gangi hratt fyrir sig, mikið sé í húfi. Í millifærslubeiðninni er beðið um staðfestingu í tilgreint síma- og faxnúmer í Reykjavík og eru þau á einhverju hótelanna í borginni. Enskumælandi maður sem kynnir sig með sama nafni hefur þá bókað hótelherbergi á sama hóteli en óskar eftir að öll skilaboð verði framsend í tiltekið faxnúmer erlendis.

Reynt að ná persónulegu sambandi

Um það atriði að Íslendingurinn hafi talað ensku við eigin viðskiptabanka segja þeir Jón og Arnar að látið sé líta svo út sem viðskiptin séu að fara fram um leið og hringt er í bankann og töluð enska þar sem menn séu á fundi með útlendingum. Þeir segja að pressað sé á bankastarfsmenn að láta allt ganga hratt og vel fyrir sig, reynt að ná við þá persónulegu sambandi og útmála fyrir þeim mikilvægi alls málsins. Einnig fer þetta oft fram síðari hluta dags, skömmu fyrir lokun, þegar mikið sé um millifærslur í bankakerfinu. Þeir segja þetta svipaða aðferð og menn þekki úr fjársvikastarfsemi erlendis. Þannig hafi menn t.d. með skjalafalsi svikið fé úr bönkum í Svíþjóð og látið færa á banka í Noregi sem síðan sé flutt í önnur lönd.

Bankareikningar sem beðið hefur verið um millifærslu á eru í ýmsum löndum, svo sem Kýpur, Bandaríkjunum, Gíbraltar, Ísrael og fleiri og segja þeir Arnar og Jón að notaðir séu bankar í löndum sem ekki séu virk í samstarfi landa um aðgerðir gegn peningaþvætti og jafnvel er talið að um gervibanka sé að ræða. Beðið hefur verið um millifærslurnar í ýmsum gjaldmiðlun, íslenskum krónum, Bandaríkjadollurum og evru.