HÚSIÐ stendur í dálitlum slakka við götuna neðanverða, tengt fimm húsum öðrum. Stofan tengist fögrum blómagarði umluktum háu limgerði svo hún sýnist stærri og bjartari en ella. Á hlýjum sumarkvöldum standa garðdyrnar gjarnan opnar svo inn streymir höfugur ilmur af grasi og rósum.

RÁÐGÁTA

SMÁSAGA

EFTIR KRISTÍNU SVEINSDÓTTURHÚSIÐ stendur í dálitlum slakka við götuna neðanverða, tengt fimm húsum öðrum. Stofan tengist fögrum blómagarði umluktum háu limgerði svo hún sýnist stærri og bjartari en ella. Á hlýjum sumarkvöldum standa garðdyrnar gjarnan opnar svo inn streymir höfugur ilmur af grasi og rósum. Á vetrum, þegar dauf birta frá ljóskeri leikur um snævi klæddar greinar trjánna og arineldur brennur fyrir innan breytist stofan í dularheim. Þá styttir konan í húsinu sér stundir við bóklestur eða lætur hugann reika til liðinna tíma.

Verk ágætra listmálara skreyta veggi stofunnar. Vænst þykir konunni um mynd af stóði í iðgrænum haga. Í bakgrunni gnæfa þverhníptir klettar og listamaðurinn hefur gætt hrossin svo miklu lífi að engu er líkara en þau séu af holdi og blóði. Konan hefur gefið hestunum nöfn. Gáta heitir sú rauðskjótta í forgrunni myndarinnar. Hún stendur ekki á beit eins og hin hrossin, heldur fylgir konunni í stofunni eftir með vökulu augnaráði.

Kvöld eitt snemmsumars að liðnum tíðindalausum degi gengur konan til stofu en finnst sem ekki sé þar allt með felldu. Hún horfir í kring um sig og þegar hún heyrir lágt hnegg lítur hún á myndina. Skjótta hryssan mænir ekki lengur vonaraugum inn í stofuna, heldur stendur stolt í haganum yfir nýköstuðu folaldi. Ungviðið bröltir á fætur veikum fótum, leitar að spena og teygar volga móðurmjólkina. Konan fyllist heitri gleði, gengur að málverkinu og strýkur uppáhaldinu sínu um snoppu og makka með tár í augum.

Folaldið litla tekur daglegum framförum og hún þreytist aldrei á að horfa á það hoppa og skoppa um hagann. Það fer í loftköstum, tekur ærslafull stökk til hægri og vinstri, naslar vornálarnar og hleypur þess á milli til mömmu sinnar og fær sér sopa. Konan hefur gefið þeirri litlu nafn, Ráðgáta skal hún heita.

Á fögrum sólskinsdegi stígur sú skjótta út úr myndinni og litla dóttirin fylgir á eftir. Konan opnar dyrnar og hleypir þeim út í garðinn. Hryssan tekur á rás og hleypur hring eftir hring í garðinum og Ráðgáta litla fylgir á eftir. Þær skemmta sér konunglega, mæðgurnar, og konan horfir á. Hana langar að taka þátt í leiknum. Hún gerir litfagra ábreiðu, býr til fjaðraskúf og beisli og leggur á hryssuna. Sjálfri sér saumar hún skartflíkur. Nú geta þær allar skemmt sér saman. Konan situr keik á baki hryssunnar og spennir lærin þétt að síðum hennar. Líkt og æfð fjölleikamær leikur hún flóknustu listir af mikilli snilli, stendur á blátám, snýr sér í hringi í hnakknum, stendur á höndum og fer í splitt. Í fjöri leiksins blæs silfurgrátt hár hennar beint aftur af höfðinu eins og gufustrókur. Dag eftir dag leika þær sama leikinn og lífið er eintóm sæla. Konan er orðin ung í annað sinn.

Það líður að hausti. Trén fella lauf sín og blómin hneigja knappa sína til moldar. Dag einn skellur á dimmur vetur. Þá snúa mæðgurnar aftur inn í málverkið. Þar sem áður var grænt er nú orðið silfurhvítt og ekkert heyrist nema þögnin.

Höfundurinn er húsmóðir í Reykjavík.