FJÖLMIÐLAR á Ítalíu brugðust í gær hart við morðinu á Massimo D'Antona, háttsettum ráðgjafa Antonios Bassolinos vinnumálaráðherra, í Róm í fyrradag sem fullvíst þykir að var af pólitískum rótum runnið. Lýstu ítölsku dagblöðin þeim ótta að morðið markaði afturhvarf til þeirrar skálmaldar sem ríkti á Ítalíu á öndverðum áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda,
Rauðu herdeildirnar fram á sjónarsviðið á ný á Ítalíu Hörð viðbrögð við morði D'Antonas

Róm. Reuters.

FJÖLMIÐLAR á Ítalíu brugðust í gær hart við morðinu á Massimo D'Antona, háttsettum ráðgjafa Antonios Bassolinos vinnumálaráðherra, í Róm í fyrradag sem fullvíst þykir að var af pólitískum rótum runnið. Lýstu ítölsku dagblöðin þeim ótta að morðið markaði afturhvarf til þeirrar skálmaldar sem ríkti á Ítalíu á öndverðum áttunda áratugnum og í byrjun þess níunda, þegar hrikti í stoðum ítalsks samfélags vegna umsvifa hryðjuverkamanna.

Forsíður dagblaðanna í gær voru undirlagðar af morðinu á D'Antona en hryðjuverkasamtökin Rauðu herdeildirnar lýstu ábyrgð á ódæðinu á hendur sér í fyrradag. "Morðingjar Rauðu herdeildanna snúa aftur" sagði í risastórri fyrirsögn á forsíðu ítalska dagblaðsins La Repubblica í gær og sum dagblaðanna tileinkuðu morðinu allt að tíu síður.

Morðið þykir minna mjög á þau ódæðisverk sem framin voru á áttunda áratugnum, sem kallaður hefur verið "ár blýsins" vegna byssukúlnanna sem settu mark sitt á vettvang ódæðisverkanna með því að grafa sig inn í gangstéttir. En ef marka má yfirlýsingu Rauðu herdeildanna, sem þau sendu frá sér eftir að hafa lýst verkinu á hendur sér, tengdist morðið á D'Antona ekki einungis ítölskum innanríkismálum. Ítölsk dagblöð greindu nefnilega frá því í gær að í yfirlýsingu Rauðu herdeildanna hafi verið að finna skírskotun til átakanna á Balkanskaga.

Sagði þar að árásir NATO væru í samræmi við stefnu sem NATO og Evrópuríkin hefðu mótað fyrr á þessum áratug en samkvæmt henni ætti því leynt og ljóst að brjóta upp júgóslavneska ríkjasambandið. Tilgangur loftárásanna væri að "færa fátækt yfir Serbíu og þvinga upp á Serba yfirráð heimsvaldasinna".

Óvíst um tengsl við umsvif áttunda áratugarins

Rauðu herdeildirnar urðu frægar að endemi seinnipart áttunda áratugarins þegar þær stóðu fyrir fjölda pólitískra hryðjuverka á Ítalíu, þeirra þekktast ránið og morðið á Aldo Moro, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu. Lögreglu tókst reyndar á sínum tíma að handsama flesta liðsmenn herdeildanna, sem mótað höfðu róttækar skoðanir sínar þegar á mótmælaaðgerðum námsmanna stóð seint á sjöunda áratugnum, og talið var að tekist hefði að ráða niðurlögum Rauðu herdeildanna.

Staðreyndin er sú að flestir liðsmanna sveitanna sitja enn í fangelsi og ítalska lögreglan sagði í gær að þeir sem lýstu ábyrgð á ódæðinu í fyrradag á hendur sér í nafni Rauðu herdeildanna ættu að öllum líkindum lítil eða engin tengsl við hópinn sem lét að sér kveða fyrir og eftir 1980. Adriana Faranda, ein þeirra sem stóð að ráninu á Aldo Moro, er nú laus úr fangelsi en sagði í gær að atburðurinn í fyrradag hefði verið sér mikið áfall. "Ég er reið og trúi þessu varla... hin vopnaða barátta má ekki eiga afturkvæmt", sagði hún í samtali við La Repubblica .

En hverjir svo sem morðingjar D'Antonas eru þá rifjuðu atburðir fimmtudagsins upp tíma sem Ítalir gjarnan vilja gleyma. Jafnframt er ljóst að ítölsk stjórnvöld ætla ekki að leyfa skálmöld að ganga í garð á Ítalíu án þess að hreyfa mótmælum. "Rauðu herdeildirnar þurfa að vita að við réðum niðurlögum þeirra einu sinni og við munum vinna sigur á þeim á nýjan leik ef þær reyna aðför að ítölsku lýðræði og stofnunum þess," sagði Walter Veltroni, yfirmaður Vinstri demókrata, stærsta stjórnmálaaflsins í ítölsku samsteypustjórninni.

AP

ÞETTA veggjakrot í miðborg Rómar í gær lýsir ótta Ítala um að ný öld pólitískra hryðjuverka sé að hefjast í landinu.