MICROSOFT hugbúnaðarrisinn ætlar að taka höndum saman við þýzka fjölmiðlarisann Bertelsmenn og bjóða í hluta stærsta kapalsjónvarpsnets Þýzkalands, sem gamla símaeinokunarfyrirtækið Deutsche Telekom hefur rekið til þessa.
Microsoft býður í þýzkt kapalkerfi

London. Reuters.

MICROSOFT hugbúnaðarrisinn ætlar að taka höndum saman við þýzka fjölmiðlarisann Bertelsmenn og bjóða í hluta stærsta kapalsjónvarpsnets Þýzkalands, sem gamla símaeinokunarfyrirtækið Deutsche Telekom hefur rekið til þessa.

Microsoft hefur ráðizt í fleiri mikilvægar fjárfestingar í kapalgeiranum að undanförnu. Fyrirtækið á:

5 milljarða dollara hlut í bandaríska símarisanum AT&T, sem á kapalfyrirtækið TCI og gerði nýlega í tilboð í MediaOne, sem náði fram að ganga.

29,9% hlut í brezka kapalfyrirtækinu Telewest samkvæmt samningi við AT&T.

3% hlut í brezka keppinautinum NTL.

11,5% hlut í Comcast, einu stærsta kapalfyrirtæki Bandaríkjanna.

Og viðræður munu fara fram við Cable & Wireless í Bretlandi um stóran hlut í kapalkerfi fyrirtækisins.

Tilgangur þessara fjárfestinga er augljós. Microsoft reynir að gera Windows CE hugbúnað sinn að stýrikerfi stafrænna móttökutækja, sem gefa möguleika á gagnvirkri sjónvarpsþjónustu og samruna alnetsins og hefðbundnari forma heimilisskemmtunar.

Þarf fleiri rásir

Microsoft býður upp á tækni, en Bertelsmann reynir að fá nýjar rásir fyrir efni það sem hann hefur á boðstólum.

Bertelsmann er voldugasti útgefandi bóka á ensku í heiminum og CLT-Ufa deild fyrirtækisins framleiðir mikið magn af sjónvarpsefni.

"Við verðum að koma efni okkar á framfæri með öllum tiltækum ráðum," sagði stjórnarformaður Bertelsmann, Thomas Middelhoff. "Við verðum að fá aðgang að sjónvarpsköplum, netinu og breiðbandsjarðstrengjum."

Samkvæmt fjölmiðlafréttum vill Bertelsmann fá allt kapalkerfið á 9-10 milljarða marka, en Deutsche Telekom vill fá 30 milljarða marka fyrir það.