Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, IMF, hefur sent frá sér fréttatilkynningu um efnahagsástandið á Íslandi og varar stofnunin við hættu á aukinni verðbólgu. Telur stofnunin að fjárlagagerð íslenskra stjórnvalda eigi að gegna mikilvægu hlutverki við að hemja eftirspurn á fjármálamarkaði.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn varar við hættu á verðbólgu

Fjárlagagerð hemji

eftirspurnina

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, IMF, hefur sent frá sér fréttatilkynningu um efnahagsástandið á Íslandi og varar stofnunin við hættu á aukinni verðbólgu. Telur stofnunin að fjárlagagerð íslenskra stjórnvalda eigi að gegna mikilvægu hlutverki við að hemja eftirspurn á fjármálamarkaði. Stofnunin benti jafnframt á nauðsyn þess að draga úr ríkisútgjöldum og, ekki síst, að ná stjórn á launaskriði hjá ríkisstarfsmönnum.

Stofnunin telur að rétt hafi verið að hækka vexti snemma í marsmánuði sl. og að svigrúm sé til frekari aðgerða á því sviði.

Birgir Ísleifur Gunnarsson seðlabankastjóri segir að afstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins komi sér ekki á óvart. Grunnurinn að fréttatilkynningunni sé vinna sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem kom til Íslands í janúar sl.

"Í lok sinnar heimsóknar gaf sendinefndin frá sér yfirlýsingu sem birt var í fjölmiðlum og var hún mjög í þessum dúr. Við höfum jafnframt rætt um að nauðsynlegt sé að beita ríkisfjármálum í svona þensluástandi. Einnig höfum við beitt aðhaldssamri fjármálastefnu og munum gera það áfram. Vaxtahækkanir hafa ekki verið á döfinni. Við fylgjumst auðvitað með nánast frá degi til dags hvernig hinar einstöku vísbendingar þróast sem við förum eftir þegar við metum ástandið. Ekkert hefur ennþá kallað á vaxtahækkun að okkar mati, hvað sem seinna verður," segir Birgir Ísleifur.

Hann segir að umræðan um þensluástand í efnahagslífinu sé að sínu mati dálítið ýkjukennd. "En ef ekkert verður að gert og þróunin heldur áfram eins og hún er núna gæti verið hætta framundan í efnahagslífinu. Hættan er sú að verðbólgan fari af stað með meiri hraða en við höfum séð. Við höfum verið í innan við 2% verðbólgu en nú hafa komið þrjár mælingar sem benda til þess að hún sé hærri en hún var í fyrra og jafnvel allt að 3%, sem er þó ekkert stórkostlegt miðað við það sem gerist í öðrum löndum. En við verðum að sjá til þess að það verði staðnæmst þar og helst að ná verðbólgu aftur niður fyrir 2%," sagði Birgir Ísleifur.