BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti hóf tveggja vikna orlof í Svartahafsbænum Sochi í gær eftir að hafa endurskipað fjóra ráðherra í stjórnina og skipað nýjan innanríkisráðherra og fyrsta aðstoðarforsætisráðherra.
Borís Jeltsín Rússlandsforseti fer í frí eftir að hafa skipað nokkra nýja ráðherra

Berezovskí reynir að

komast til áhrifa á ný

Moskvu. Reuters, The Daily Telegraph.

BORÍS Jeltsín Rússlandsforseti hóf tveggja vikna orlof í Svartahafsbænum Sochi í gær eftir að hafa endurskipað fjóra ráðherra í stjórnina og skipað nýjan innanríkisráðherra og fyrsta aðstoðarforsætisráðherra. Fregnir hermdu að Borís Berezovskí, viðskiptajöfurinn sem hefur oft verið líkt við rússneska munkinn Raspútín vegna mikilla áhrifa sinna á ráðamenn Rússlands, væri nú að reyna að endurheimta völd sín, sem virtust hafa orðið að engu fyrir nokkrum vikum.

Skýrt var frá því í gær að Jeltsín hefði skipað Vladímír Rúshaílo í embætti innanríkisráðherra. Rúshaílo er 45 ára og honum var falið að stjórna herferð lögreglunnar gegn glæpum í Moskvu 1993.

Níkolaj Aksjonenko, sem fór með járnbrautamál í fráfarandi stjórn, var skipaður fyrsti aðstoðarforsætisráðherra. Aksjonenko er lítt þekktur og hefur aldrei verið áhrifamikill í rússneskum stjórnmálum. Skjótur og óvæntur frami hans olli vangaveltum í rússneskum fjölmiðlum um að Berezovskí hefði beitt sér fyrir því að hann yrði fyrsti aðstoðarforsætisráðherra.

Ívanov heldur utanríkisráðuneytinu

Fjórir ráðherrar fráfarandi stjórnar voru einnig endurskipaðir í embætti sín, þeir Ígor Ívanov utanríkisráðherra, Ígor Sergejev varnarmálaráðherra, Pavel Krashenínníkov dómsmálaráðherra og Sergej Shoigu orkumálaráðherra.

Sergej Stepashín forsætisráðherra sagði ekkert um stjórnarmyndunina en hermt var að Jevgení Savtsjenko, einn af forystumönnum Bændaflokksins, hefði hafnað tilboði um að taka við landbúnaðarráðuneytinu. Míkahíl Lapshín, leiðtogi flokkins, sagði að hann vildi að Gennadí Kúlík, sem er einnig í Bændaflokknum, yrði áfram í embættinu en gaf til kynna að Jeltsín hefði útilokað þann möguleika.

Stepashín þarf að ljúka stjórnarmynduninni fyrir lok næstu viku og líklegt er að hann fari til Sochi til að leggja tillögur sínar fyrir forsetann.

Talsmenn Jeltsíns vildu ekki skýra frá því hvað forsetinn hygðist gera í fríinu. Fréttastofan RIA sagði líklegt að Jeltsín myndi sitja nokkra fundi í Sochi, meðal annars með Kim Dae-jung, forseta Suður- Kóreu. Rússneska sjónvarpið NTV sagði hins vegar að Jeltsín kynni að fara til Moskvu til að ræða við Kim, sem verður í Rússlandi 27.­30. maí.

Berezovskí snýr aftur

Fregnir herma að Berezovskí hafi verið í Moskvu síðan á mánudag og beitt sér á bak við tjöldin fyrir því að bandamenn sínir fengju mikilvægustu ráðherraembættin á sviði efnahags- og fjármála.

Margir afskrifuðu Berezovskí fyrir tæpum mánuði þegar hann var sviptur stöðu framkvæmdastjóra Samveldis sjálfstæðra ríkja og átti yfir höfði sér ákæru vegna vafasamra viðskiptahátta, en viðskiptaveldi hans á nú undir högg að sækja.

Andstæðingar Berezovskís óttast nú að hann sé aftur að komast til áhrifa í Kreml með því að tryggja stuðningsmönnum sínum mikilvæg ráðherraembætti. Hann hefur nú losnað við tvo af hættulegustu andstæðingum sínum, þá Jevgení Prímakov, sem Jeltsín rak úr forsætisráðherraembættinu fyrir rúmri viku, og Alexander Khinshtein, rannsóknarblaðamann er afhjúpaði tengsl viðskiptajöfursins við ráðamenn í Kreml. Umferðarlögreglan stöðvaði Khinstein um síðustu helgi og hann hefur verið ákærður fyrir að sýna fölsuð persónuskilríki.

Margir telja að Berezovskí hafi átt stóran þátt í þeirri ákvörðun Jeltsíns að reka Prímakov þótt hann hafi verið í Frakklandi á þeim tíma. "Mikilvægasta lexían síðustu daga er sú að menn ættu ekki að þræta við Borís Berezovskí," sagði stjórnmálaskýrandinn Iosif Dizkin eftir brottvikningu Prímakovs.

Borís Berezovskí