STJÓRNVÖLD í Bandaríkjunum og Bretlandi gerðu í gær lítið úr getgátum þess efnis að Atlantshafsbandalagið (NATO) hugleiddi nú að gera hlé á loftárásum sínum á Júgóslavíu jafnvel þótt stjórnin í Belgrad hefði ekki gengið að þeim skilyrðum sem NATO hefur sett til að slíkt geti orðið.
Nítján manns falla í loftárás NATO á fangelsi í Istok í Kosovo Fregnir um að gert verði hlé á árásum bornar til baka

London, París, Washington, Istok, Stokkhólmi, Brussel. Reuters.

STJÓRNVÖLD í Bandaríkjunum og Bretlandi gerðu í gær lítið úr getgátum þess efnis að Atlantshafsbandalagið (NATO) hugleiddi nú að gera hlé á loftárásum sínum á Júgóslavíu jafnvel þótt stjórnin í Belgrad hefði ekki gengið að þeim skilyrðum sem NATO hefur sett til að slíkt geti orðið. Madeleine Albright, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kvaðst í samtali við BBC ekki telja að yfirmenn NATO-herjanna litu á þessa hugmynd sem valkost í stöðunni, en Massimo D'Alema, forsætisráðherra Ítalíu, ljáði máls á þessu í fyrradag.

Breska dagblaðið The Daily Telegraph fullyrti í gær að NATO hugleiddi af fullri alvöru að fallast á tillögur Ítala um hlé á loftárásum en Albright vildi aðeins staðfesta að hún hefði vitað um hugmyndir D'Alemas. "Það er fullt af hugmyndum uppi á borðinu en aðalatriðið er það skýra markmið NATO að halda áfram hörðum loftárásum sem eru að skila okkur árangri, og sem valdið hafa serbneska hernum umtalsverðum skakkaföllum," sagði Albright í BBC -viðtalinu.

Don Henderson, ráðherra breskra hermála, tók í sama streng og sagði að Slobodan Milosevic, forseti Júgóslavíu, yrði að gangast við kröfum NATO um að draga herlið sitt frá Kosovo og samþykkja að alþjóðlegar friðarsveitir fái að fylgjast með málum í Kosovo áður en til greina kæmi að gera hlé á loftárásunum. Frakkar virtust einnig útiloka þennan möguleika í gær en talsmaður franskra stjórnvalda sagði aðildarlönd NATO sammála um þá stefnu sem fylgt væri.

Árás á fangelsi og vestrænir sendiherrar í bráðri hættu

Nítján manns eru sagðir hafa farist þegar NATO gerði loftárásir á fangelsi í Istok í Kosovo í fyrrinótt og tíu særst. Istok er um sjötíu kílómetra frá Pristina, héraðshöfuðborg Kosovo, og sagði fangelsisstjórinn Aleksander Rakocevic bæði fanga og starfsmenn fangelsisins hafa fallið í loftárásinni. Serbnesk stjórnvöld sökuðu NATO hins vegar um að hafa ætlað sér að frelsa alla fangana, sem margir hverjir voru liðsmenn skæruliðssveita Kosovo-Albana (UCK). "Eitt þúsund fangar ­ það er fullkominn her," sagði talsmaður Júgóslavíustjórnar.

Fullyrt var í gær að þýsk stjórnvöld hefðu farið fram á það við yfirstjórn NATO að bandalagið endurskoðaði skotmörk sín í loftárásunum á Júgóslavíu en í fyrrakvöld brotnuðu rúður í bústað svissneska sendiherrans í Belgrad og kvöldið þar áður höfðu orðið skemmdir á sendiráði Svíþjóðar, Noregs og Spánar í loftárásunum.

Rúðurnar brotnuðu vegna höggbylgju er myndaðist er sprengjum var varpað á olíubirgðastöðvar í nágrenni bústaðar svissneska sendiherrans í Belgrad. Engin meiðsl urðu á fólki. Samkvæmi stóð yfir á vegum svissneska sendiherrans þegar atburðurinn átti sér stað og voru gestir að byrja á eftirréttinum þegar sprengjum tók að rigna niður í nágrenninu.

Meðal gesta í veislunni var Mats Staffansson, sendiherra Svíþjóðar, en kvöldið áður hafði sænska sendiráðið orðið fyrir skemmdum í árásum NATO, eins og áður sagði. "Ég, sendiherra Slóvakíu og Páfagarðs skriðum þegar undir borðið til að komast hjá meiðslum af völdum fljúgandi glerbrota," sagði Staffanson í samtali við Aftonbladet í gær.

Var haft eftir Joschka Fischer, utanríkisráðherra Þýskalands, í gær að rétt væri að ræða um skotmörk bandalagsins, en skemmdirnar á sendiráðum vestrænna ríkja þykja mjög hafa skaðað almenningsálitið í þessum löndum, og jafnvel dregið úr stuðningi við aðgerðir NATO.

50 þúsund hermenn við landamæri Kosovo?

Þau Albright og Robin Cook, utanríkisráðherra Bretlands, sem var í heimsókn í Bandaríkjunum, komu fram saman í fjölda viðtala í bandarískum sjónvarps- og útvarpsstöðvum í gær og lögðu sig fram um að sýna fram á að þau stæðu algerlega sameinuð, og að afstaða þeirra til hernaðaraðgerðanna í Júgóslavíu væri sú sama, jafnvel þótt svo hafi virst undanfarna daga sem Bretar og Bandaríkjamenn væru ekki á eitt sáttir um nauðsyn landhernaðar í Kosovo.

Bandaríkjastjórn mun síðustu dagana hafa þrýst á Breta að halda sig við handritið, og ljá ekki opinberlega máls á landhernaði, þar sem augljóslega sé ekki meirihluti fyrir slíku innan NATO, og á þeim forsendum að aðeins það að ræða um slíkt skaði viðræður um pólitíska lausn á deilunni.

Bandaríska dagblaðið The New York Times staðhæfði engu að síður í gær að Wesley Clark, yfirmaður herafla NATO, hefði að undanförnu beitt sér fyrir því að hafist yrði handa við að safna saman 45­50 þúsund manna her við Albaníulandamæri Kosovo í því skyni að auka þrýsting á Milosevic að samþykkja skilmála NATO.

Hafði blaðið eftir háttsettum embættismönnum að markmið Clarks væri ekki endilega að undirbúa landhernað í Kosovo heldur hitt að sýna Milosevic fram á hvað biði ­ og fá hann þannig til að koma til móts við kröfur vesturveldanna. Er enda sagt nánast útilokað nú að NATO hefji landhernað, ekki síst í ljósi ummæla Gerhards Schröders, kanslara Þýskalands, fyrr í vikunni þar að lútandi.

Á hinn bóginn yrði hvort heldur er alltaf að senda hermenn inn í Kosovo að átökunum loknum, og því yrði hér í reynd um eins konar undirbúning fyrir starf friðargæslusveita í héraðinu að afloknum átökunum að ræða. Aukinheldur hefði NATO þá það spil uppi í erminni að geta gripið til landhernaðar með stuttum fyrirvara, yrðu menn sammála um að loftárásirnar skiluðu ekki tilætluðum árangri.

Reuters

Á FRÉTTAMANNAFUNDI í höfuðstöðvum NATO í Brussel í gær ræddi Jamie Shea, talsmaður NATO, m.a. við Pandeli Majko, forsætisráðherra Albaníu, í gegnum gerfihnött og lýsti Majko þar stuðningi sínum við aðgerðir NATO í Júgóslavíu. Hann hvatti til að þeim yrði haldið áfram uns Milosevic gæfi eftir.