SIGURBERG Kjartansson fiskeldisfræðingur telur að tjón vegna eldsvoða í verkfæraskúr, bárujárnsklæddu timburhúsi, fiskeldisstöðvarinnar Fiskalóns í Ölfushreppi geti numið um eða yfir einni milljón króna. Eldsins varð fyrst vart um fimmleytið í gærmorgun og lagði þá mikinn reyk út úr húsinu. Fimm stundarfjórðungum síðar hafði slökkviliðið í Hveragerði ráðið niðurlögum eldsins.
Eldur kom upp í verkfæraskúr Fiskalóns

Tjónið gæti numið einni milljón

SIGURBERG Kjartansson fiskeldisfræðingur telur að tjón vegna eldsvoða í verkfæraskúr, bárujárnsklæddu timburhúsi, fiskeldisstöðvarinnar Fiskalóns í Ölfushreppi geti numið um eða yfir einni milljón króna. Eldsins varð fyrst vart um fimmleytið í gærmorgun og lagði þá mikinn reyk út úr húsinu. Fimm stundarfjórðungum síðar hafði slökkviliðið í Hveragerði ráðið niðurlögum eldsins. Hins vegar þurfti að kalla slökkviliðið út að nýju rétt fyrir klukkan átta í gærmorgun vegna þess að aftur var farið að loga í húsinu. Greiðlega gekk að slökkva eldinn í seinna skiptið.

Að sögn Sigurbergs standa útveggir hússins uppi en þakið féll niður við brunann. Þá segir hann að tölvubúnaður, vatnsdælur og ýmis verkfæri hafi eyðilagst í brunanum. Telur hann öruggt að húsið sé tryggt en óvíst sé með innanstokksmunina. Vegna brunans fór rafmagnið af fiskeldisstöðinni en búið var að koma því í lag um fjögurleytið í gærdag. Fiskurinn, segir Sigurberg, var aldrei í hættu. "Þegar rafmagnið fór af stöðvaðist dæla sem leiðir heitt vatn til fiskeldisstöðvarinnar. Það kom hins vegar ekki að sök því kalt vatn er leitt ofan úr fjalli í stöðina. Fiskurinn var því aldrei í hættu."

Auk Sigurbergs starfar á Fiskalóni Höbye Christiensen eigandi stöðvarinnar. Hann hefur átt stöðina í um fimm ár og leigir hana nú Silungi, fyrirtæki í fiskeldi á Vatnsleysuströnd.