TOLLVERÐIR í flugstöð Leifs Eiríkssonar tóku flugfarþega með um 80 grömm af amfetamíni í fórum sínum á þriðjudag, þegar hann var að koma til landsins. Maðurinn reyndi að smygla fíkniefnunum til landsins í áfengisflösku. Málið er talið upplýst.
Faldi amfetamín í áfengisflösku

TOLLVERÐIR í flugstöð Leifs Eiríkssonar tóku flugfarþega með um 80 grömm af amfetamíni í fórum sínum á þriðjudag, þegar hann var að koma til landsins. Maðurinn reyndi að smygla fíkniefnunum til landsins í áfengisflösku. Málið er talið upplýst.

Þá hefur lögreglan í Reykjavík handtekið nokkra aðila og lagt hald á talsvert magn fíkniefna undanfarna daga, þar á meðal kókaín og amfetamín.

Fylgst með fíkniefnasölum

Lögreglan hefur að undanförnu lagt áherslu á að fylgjast með aðilum sem grunaðir eru um sölu fíkniefna, að sögn Ómars Smára Ármannssonar aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni í Reykjavík.

Þannig leiddi samstarf lögreglumanna í þremur umdæmum í liðinni viku til handtöku tveggja manna, sem komið höfðu utan af landi til innkaupa fíkniefna í borginni. Mennirnir hafa verið grunaðir um sölu fíkniefna í bæ á Austurlandi og voru með um tíu grömm af hassi í fórum sínum, þegar þeir voru teknir höndum.

Tveir menn sem lögreglan hafði afskipti af reyndust vera með kókaín í fórum sínum og maður á fimmtugsaldri var handtekinn með rúmlega 30 grömm af hassi í fórum sínum, en hann er grunaður um sölu ýmissa fíkniefna til yngra fólks. Maðurinn viðurkenndi neyslu og sölu efnanna.

Auk þess hefur lögreglan lagt hald á nokkurt magn fíkniefna eftir að hafa stöðvað ökumenn við umferðareftirlit og við leit að þýfi í húsum.

"Starfsmenn fíkniefnadeildar í samstarfi við aðra lögreglumenn, bæði á starfssvæði lögreglunnar í Reykjavík og annars staðar, munu á næstunni leggja mun meiri áherslu á að vinna úr fyrirliggjandi upplýsingum frá almenningi, fylgjast með grunuðum sölumönnum fíkniefna og hafa eftirlit með þeim eftir því sem ástæða þykir til," segir Ómar Smári.