ÞAÐ stendur ekki á því að sekta fólk fyrir smávegis mistök, eins og á sér stað með bílbeltin, því að oft eru þau svo klaufalega staðsett, að það er ekki nema fyrir æfða fimleikamenn að læsa þeim. Lásarnir nema við rassinn í stað þess að vera ofanvert á vinstra læri, þar sem til þeirra næst. Í mörgum fimmanna bílum eru ekki nema fjögur belti, tvö fram í og tvö aftur í.
Vanhugsuð vinnubrögð

Frá Eggerti E. Laxdal:

ÞAÐ stendur ekki á því að sekta fólk fyrir smávegis mistök, eins og á sér stað með bílbeltin, því að oft eru þau svo klaufalega staðsett, að það er ekki nema fyrir æfða fimleikamenn að læsa þeim. Lásarnir nema við rassinn í stað þess að vera ofanvert á vinstra læri, þar sem til þeirra næst.

Í mörgum fimmanna bílum eru ekki nema fjögur belti, tvö fram í og tvö aftur í. Þetta rýrir notagildi bílanna og er furðuleg ráðstöfun, þessu þarf að breyta. Það er ekki nóg að setja lög, ef ekki er mögulegt að halda þau og gera löggæsluna að Grýlu á fólkið, með blokk og penna, til þess að skrá sökudólga í dagbækur lögreglunnar sem brotamenn, í stað þess að vera fólki til aðstoðar, þegar á þarf að halda. Ég lýk þessu með bílbeltin og sný mér að öðru, sem einnig varðar ökumenn.

Við afleggjarann frá Reykjavík, þar sem sveigt er inn á leiðina til Hveargerðis og Selfoss er stærðar skilti, með ýmsum staðanöfnum, en þar sést hvorki nafn Hveragerðis né Selfoss, sem þó eru fjölförnustu staðirnir. Þetta kemur sér illa fyrir marga ferðamenn og ekki síst útlendinga, enda aka margir framhjá þessum vegamótum, þegar engin leið er að snúa við á þessum vegi. Þetta þarf að lagfæra og setja nafn Hveragerðis og Selfoss efst á skiltið, með stórum stöfum.

EGGERT E. LAXDAL,

Frumskógum 1, Hveragerði.