HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær ungan mann, sem handtekinn var fyrir innbrot í Gerðunum í Reykjavík í gærmorgun, í gæsluvarðhald til 23. júní. Maðurinn játaði nokkur innbrot og er grunaður um þátttöku í hátt á annan tug innbrota í íbúðarhús. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu. Annar maður var handtekinn í gærmorgun vegna gruns um aðild að innbrotum í nýbyggingar og á vinnusvæðum.
Mánaðar gæsluvarðhald vegna innbrota

HÉRAÐSDÓMUR Reykjavíkur dæmdi í gær ungan mann, sem handtekinn var fyrir innbrot í Gerðunum í Reykjavík í gærmorgun, í gæsluvarðhald til 23. júní. Maðurinn játaði nokkur innbrot og er grunaður um þátttöku í hátt á annan tug innbrota í íbúðarhús. Hann hefur áður komið við sögu lögreglu.

Annar maður var handtekinn í gærmorgun vegna gruns um aðild að innbrotum í nýbyggingar og á vinnusvæðum. Sá maður hefur játað sjö innbrot. Talsvert magn af þýfi var gert upptækt, mest vinnutæki, og hefur því verið komið til skila til eigenda. Þýfið er metið á annan tug milljóna króna.

Þá voru nýlega upplýst hátt í tug innbrota í heimahús og fyrir rúmri viku var maður handtekinn vegna innbrota. Mikið af þýfinu úr þessum innbrotum náðist og hefur verið komið til skila. Þar á meðal var hald lagt á skotvopn.

Að sögn lögreglu eru öll þessi mál, auk annarra innbrota, sem tilkynnt hafa verið, enn í rannsókn.