HAFNFIRÐINGAR fóru heldur háðulega með háttskrifað lið Fylkis, sem spáð var efsta sæti deildarinnar, í Árbænum í gærkvöldi þegar þeir unnu öruggan 4:0 sigur en mörkin hefðu þess vegna getað verið fleiri. Útreiðin var því sárari að Árbæingar voru meira með boltann en sváfu yfir sig í vörninni í öllum fjórum mörkunum.
FH skellti Fylki niður á jörðina HAFNFIRÐINGAR fóru heldur háðulega með háttskrifað lið Fylkis, sem spáð var efsta sæti deildarinnar, í Árbænum í gærkvöldi þegar þeir unnu öruggan 4:0 sigur en mörkin hefðu þess vegna getað verið fleiri. Útreiðin var því sárari að Árbæingar voru meira með boltann en sváfu yfir sig í vörninni í öllum fjórum mörkunum.

Á fyrstu fimmtán mínútum, á meðan leikmenn vöndust mölinni, áttu Fylkismenn þrjú þokkaleg færi en hittu ekki á mark gesta sinna. Þeir létu ekki að sér kveða fyrr en eftir miðjan hálfleik en þá bjargaði Kjartan Sturluson markvörður þeim með því að verja tvívegis í opnum færum Guðmundar Sævarssonar, sem hafði sloppið einn í gegn. Fjórum mínútum síðar slapp Hörður Magnússon innfyrir og hann er of þrautreyndur til að sleppu slíku færi og skoraði fyrsta mark FH.

Heldur lá á Hafnfirðingum á móti nepjunni eftir hlé en þeir létu það ekkert á sig fá og nýttu þeeim mun betur færin sín þegar vörn Fylkis svaf aftur á verðinum og Guðlaugur Baldursson bætti við öðru marki FH eftir sprett upp völlinn. Enn sóttu Fylkismenn því nú var að duga eða drepast en létu taka sig aftur í bólinu þegar Jónas Grani Garðarson slapp innfyrir vörn Fylkis til að bæta við þriðja markinu. Staðan dró vígtennurnar úr heimamönnum, sem gáfu eftir á miðjunni og það nýttu gestir þeirra sér og fengu þrjá ágæta möguleika á að bæta við en það gekk ekki fyrr á síðustu mínútu leiksins þegar varamaðurinn Erlendur Gunnarsson innsiglaði verðskuldaðan sigur FH með fjórða markinu.

"Þetta var góð byrjun en ég tek fram að þetta er bara byrjun þó að sigurinn hafi verið góður," sagði Magnús Pálsson þjálfari FH inni í búningsklefa eftir leikinn þegar hann var búinn að reyna að tala sína menn niður á jörðina. "Við höfum byrjað vel síðastliðin tvö ár og síðan farið upp á við en núna byrjum við vel og vonandi að leiðin liggi síðan enn meir upp á við. Í þessum leik lékum við af mikilli skynsemi og gátum bætt við enn fleiri mörkum." Erfitt er að nefna einstaka leikmenn í FH-liðinu því það var samstillt og skynsemin uppmáluð. Þó var Guðlaugur ágætur eins og hinn snaggaralegi Jón Gunnar Gunnarsson en Róbert Magnússon og Guðjón S. Jónsson markvörður voru líka ágætir.

Fylkismenn mættu ákveðnir í að láta spádóminn um sigur í deildinni ganga upp og náðu oft ágætu spili á miðjunni en það þarf meira til. Flöt vörnin með Ólaf Þórðarson og Kristin Tómasson náði oft að stöðva sóknarleik gestanna en gerði afdrifarík mistök. Finnur Kolbeinsson var mjög duglegur á miðjunni framan af og Kjartan markvörður varði vel í nokkur skipti og verður varla sakaður um mörkin.

Maður leiksins: Jón Gunnar Gunnarsson, FH.

Stefán Stefánsson skrifar